Það eru komnar myndir frá svæðistónleikum Nótunnar, sem voru á Selfossi 16. mars s.l. Margar flottar myndir af okkar fólki. Endilega að kíkja 🙂
Author: hah
Svæðistónleikar Nótunnar
S.l. laugardag fóru fram Svæðistónleikar Nótunnar, eins og kemur fram hér á vefsíðunni. Við unnum ekki til verðlauna að þessu sinni, en nemendur skólans stóðu sig mjög vel og atriðin okkar, sem voru öll glæsileg, voru nemendum og skólanum til mikils sóma.
Svæðistónleikar Nótunnar uppskeruhátíðar tónlistarskóla
Á morgun, laugardaginn 16. mars, verður fyrri hátíð Nótunnar uppskeruhátíðar tónlistarskóla, sem eru svæðistónleikar fyrir svæðið Suðurnes, Suðurland og Kragann svokallaða. Tónleikarnir, sem verða tvennir, verða á sal Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi.
Fyrri tónleikarnir hefjast kl.12.00 og eru fyrir atriði í grunnnámi og hluta af miðnámi. Seinni tónleikarnir hejast kl. 13.45 og eru fyrir atriði sem eftir verða í miðnámi og öll framhaldsnámsatriðin.
Frá okkur á fyrri tónleikana fer Hljómsveitin Góugæjar, sem er djasshljómsveit og spilar í flokknum samleikur í grunnnámi. Hljómsveitin mun flytja lag Herbie Hancock, Cantaloupe Island. Góugæjar er þannig skipuð: Aron Daniel W. van Gooswilligen á rafbassa, Brynjar Steinn Haraldsson Rhodes-píanó, Guðmundur Marinó Herbertsson á trommur og Isaac Þór Derrick Jameson á rafgítar.
Frá okkur á seinni tónleikana fer Lúðrasveit skólans C/D sveitin (elsta sveitin), um 40 manna hópur, sem spilar í flokknum samleikur í miðnámi. Lúðrasveitin mun spila Pirates og the Caribbean: At World´s End. Stjórnandi er Karen J. Sturlaugsson og aðstoðarstjórnadi er Þorvaldur Halldórsson.
Á seinni tónleikana fer einnig frá okkur eldra Gítarsamspil skólans sem spilar lag með suðrænni sveiflu, Tamacun, eftir Rodrigo Y. Gabriela. Á klassíska gítara eru Arnar Freyr Valsson, Díana Lind Monzon, Helena Rós Gilbert, Isaac Þór Derrick Jameson og Jóna Kristín Jónsdóttir. Á rafbassa er Ástþór Sindri Baldursson og á cajontrommu spilar Þórhallur Arnar Vilbergsson. Stjórnandi er Þorvaldur Már Guðmundsson
Allir eru velkomnir á báða tónleikana og aðgangur er auðvitað ókeypis.
Tónleikar lengra kominna nemenda
Hinir árlegu „Tónleikar lengra kominna nemenda“ verða haldnir í Stapa, Hljómahöllinni, fimmtudaginn 14. mars.
Að þessu sinni verður um tvenna tónleika að ræða. Þeir fyrri verða kl.18.00 og þeir seinni kl.20.00.
Efnisskrár verða mjög fjölbreyttar, bæði einleikur, einsöngur og samleikur af ýmsu tagi.
Aðgangur er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.
Að loknum Forskólatónleikum
Frábærri tveggja daga tónleikaröð Forskóla 2, Lúðrasveitarinnar og Strengjasveitarinnar lauk í gærkvöldi með Stór-konsert í Íþróttamiðstöð Njarðvíkur.
S.l. mánudag og í gær, þriðjudag, fór lúðrasveitin og strengjasveitin á milli allra 6 grunnskóla Reykjanesbæjar þar sem Forskóli 2 (nemendur í 2. bekk) í hverjum skóla hélt 30 mínútna tónleika við undirleik hljómsveitanna. Svo komu allir saman í Íþróttamiðstöðinni í gærkvöldi, um 200 forskólanemendur (forskóli 2), lúðrasveitin og strengjasveitin, alls 250 nemendur, til að ljúka þessari tónleikaröð með stór-tónleikum. Áheyrendur troðfylltu Íþróttamiðstöðina og var mikil gleði á áheyrendapöllunum, enda tókust tónleikarnir sérlega vel.
Tónlistarskólinn þakkar öllum sem komu að tónleikunum, bæði nemendum og kennurum, sem og öðrum stofnunum og fyrirtækjum í Reykjanesbæ sem lögðu sitt af mörkum.
Dagur tónlistarskólanna laugardaginn 23. febrúar
Margt og mikið framundan
Það er mikill kraftur í starfsemi Tónlistarskólans og margt spennandi framundan.
Nú standa yfir foreldradagar og vonandi nýta forráðamenn nemenda sér þetta síðara tækifæri vetrarins vel eins og venjulega, til að hitta kennara barna sinna í formlegu viðtali.
N.k. laugardag, þann 9. febrúar, heldur Jelena Raschke, söngnemandi, framhaldsprófstónleika sína í Bíósal Duus-húsa. Tónleikarnir hefjast kl.15.00 og auðvitað eru allir hjartanlega velkomnir.
Eins og venjulega sér elsta lúðrasveit skólans, D sveitin, um framkvæmd Öskudagshátíðarinnar í Reykjanesbæ, en Öskudagurinn er miðvikudaginn 13. febrúar. Það verður nóg að snúast hjá þeim vaska hópi í því stóra verkefni.
Nú styttist óðum í fyrsta tónfund þessarar annar, en hann verður mánudaginn 18. febrúar kl.17.30 í Bíósal. Síðan kemur hver tónfundurinn á fætur öðrum með 1 – 2 vikna millibili. En síðustu þrír tónfundirnir verða nánast dag eftir dag í lok apríl, rétt fyrir ársprófin.
Svo verða Hátíðartónleikar á Degi tónlistarskólanna, laugardaginn 23. febrúar, í Stapa.
Forskólatónleikar í grunnskólunum verða 4. og 5. mars, en það prógramm endar með Stór-tónleikum í Íþróttamiðstöð Njarðvíkur að kvöldi 5. mars.
Stóra upplestararkeppnin verður 7. mars og þar verðum við að vanda með nokkur tónlistaratriði.
Tónleikar lengra kominna nemenda verða í Stapa að kvöldi 14. mars og hugsanlega verða tvennir tónleikar það kvöld.
Við verðum með í Nótunni- Uppskeruhátíð tónlistarskóla og svæðistónleikar hátíðarinnar fyrir Suðurnes, Suðurland og „Kragann“, verða á Selfossi 16. mars.
Fimmtudaginn 21. mars munu elsta Lúðrasveitin okkar og Hljómsveitin Valdimar leiða saman hesta sína með Stór-tónleikum í Andrews á Ásbrú þar sem flutt verða helstu og vinsælustu lög hljómsveitarinnar. Þessa dagana er verið á útsetja á fullu og æfingar hefjast fljótlega.
Sunnudaginn 14. apríl fer fram lokahátíð Nótunnar- Uppskeruhátíðar tónlistarskóla og verða þeir tónleikar í Eldborgarsal Hörpu.
Fyrir utan öll þessi verkefni eru próf, bæði áfangapróf og árspróf í hljóðfæraleik og söng og próf í tónfræðagreinum, þar með talið samræmt miðpróf. Svo verður að vanda mikill fjöldi vortónleika, bæði innan deilda og hjá hljómsveitum og samspilshópum.
Það er því nóg við að vera á þessari önn bæði hjá nemendum og kennurum og líflegt skólastarf í gangi.
Hausttónleikar gítarsveita skólans
Hausttónleikar gítarsveita skólans verða í Ytri-Njarðvíkurkirkju þriðjudaginn 4. desember kl.17.30. Kennarar og stjórnendur eru Aleksandra Pitak og Þorvaldur Már Guðmundsson.
Í hléi stendur foreldrafélag gítardeildarinnar fyrir kaffisölu og rennur ágóðinn í ferðasjóð gítarsveitanna.
Aðgangur er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.
Bjöllukórinn og Lúðrasveitin
Næsta sunnudag, þann 18. nóvember, mun Bjöllukór skólans leika við messu kl. 11.00 í Keflavíkurkirkju/Kirkjulundi.
Þriðjudaginn 20. nóvember n.k. heldur Lúðrasveitin sína árlegu Hausttónleika. Tónleikarnir verða í Stapa, Hljómahöllinni kl.19.30. Eins og undanfarin tvö haust, verða þetta bíótónleikar. Leikin verður tónlist úr kvikmyndum og sýndar stiklur úr viðkomandi mynd. Fram koma allar þrjár lúðrasveitir skólans. Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.
Fjölskyldutónleikar í Stapa laugardaginn 17. nóvember kl.14.00
Tónlistarskóli Reykjanesbæjar, Tónlistarfélag Reykjanesbæjar og Menningarsvið Reykjanesbæjar standa að fjölskyldutónleikum laugardaginn 17. nóvember n.k. í samstarfi við Félag íslenskra tónlistarmanna, FÍT. Á tónleikunum kemur fram Kammerhópurinn Shehérazade sem er blásarakvintett, ásamt Sigurþóri Heimissyni leikara, sem er sögumaður á tónleikunum. Tónleikarnir sem eru u.þ.b. 50 mínútna langir, verða í Stapa kl.14.00.
Kammerhópurinn Shehérazade, sem er skipaður þeim Pamelu De Sense á þverflautu, Eydísi Franzdóttur á óbó, Kristínu Mjöll Jakobsdóttur á fagott, Rúnari Óskarssyni á klarinett og Emil Friðfinnssyni á franskt horn, var stofnaður árið 2008, hefur það að markmiði að flytja klassíska tónlist fyrir börn. Frá því hópurinn var stofnaður hefur hann flutt ævintýrið um Pétur og úlfinn 26 sinnum á tónleikum og Karnival dýranna. Bæði verkin voru flutt í Salnum í Kópavogi og var flutningi þeirra mjög vel tekið.
Shehérazade hópurinn hefur staðið fyrir fjölskyldutónleikaröð sem nefnist ,,Töfrahurð”. Tónleikaröðin er haldin í samvinnu við Salinn í Kópavogi og er tónleikunum ætlað að opna ævintýraveröld tónanna fyrir börnunum. Auk þess að leika í Salnum hefur ,,Shehérazade” hópurinn komið fram í Þorlákshöfn og á Ísafirði.
Nokkur íslensk tónskáld hafa samið sérstaklega fyrir Kammerhópinn Shehérazade, en þau eru Oliver Kentish, Elín Gunnlaugsdóttir, Steingrímur Þórhallsson og Guðmundur Steinn Gunnarsson.
Sigurþór Heimisson er útskrifaður leikari frá Leiklistarskóla Íslands og hefur leikið fjölda hlutverka í atvinnuleikhúsum landsins. Núna er hann að leika í tveimur verkum sem flakka á milli grunn- og framhaldsskóla. Hann kennir framsögn og raddbeitingu í Háskólanum í Reykjavík.
Efnisskrá fjölskyldutónleikanna laugardaginn 17. nóvember í Stapa er eftirfarandi:
R. Goldfaden: Saga tréblásturshljóðfæranna
S. Prokofiev. Pétur og úlfurinn, tónævintýri Op. 67
Pétur og úlfurinn er ævintýri fyrir leiklestur og hljómsveit og er bæði sagan og tónlistin eftir rússneska tónskáldið Sergei Prokofiev. Prokofiev hafði farið með syni sína tvo í tónleikhús barna í Moskvu og þar datt honum í hug að semja tónverk af þessu tagi. Sagan segir frá Pétri sem stelst út á engið í óþökk afa síns. Þar glímir hann við ógnvættina ógurlegu; úlfinn, með hjálp fuglsins og kattarins, en úlfurinn hefur þá þegar gleypt veslings öndina sem hafði synt í makindum á tjörninni. Verkið var samið til að kynna fyrir börnum hljóðfærin í sinfóníuhljómsveitinni. Flautan leikur fuglinn, óbóið öndina, klarinettið köttinn, fagottið afann, hornið úlfinn og einnig skiptast öll hljóðfærin á að leika stef Péturs í stað strokhljóðfæranna. Hin mikla athygli og vinsældir sem verkið fékk kom meira að segja höfundinum sjálfum á óvart.
Allir eru velkomnir á tónleikana og eru nemendur nemendur Tónlistarskólans sérstaklega hvattir til að mæta ásamt fjölskyldum sínum og vinum. Aðgangur er ókeypis.