Föstudaginn 2. október fara kennarar í FT (Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum) á þing á Selfossi. Þar með fellur öll kennsla þeirra sem fara á þingið niður.
Month: september 2015
Laus pláss
Enn eru laus pláss á hljóðfærum sem kennt er við skólann. Þau eru ekki mörg og þarf fólk því að hafa hraðar hendur ef það vill tryggja sér pláss. Hljóðfærin sem um ræðir eru eftirfarandi:
Selló
Kontrabassi
Trompet/kornett
Alt-horn
Söngur
Sótt er um á skrifstofu skólans í Hljómahöll og á mittreykjanes.is
Barnakór veturinn 2015-2016
Við erum að fara af stað með kór sem ætlaður er börnum á aldrinum 9-11 ára (í 4. til 6. bekk). Í kórstarfinu verður lögð áhersla á raddþjálfun, leiklistaræfingar, framkomu og tónheyrnarþjálfun og að sjálfsögðu verður kenndur fjöldinn allur af lögum sem sungin verða bæði einradda og í röddum.
Kórinn er ætlaður fyrir bæði nemendur Tónlistarskólans og önnur börn á þessum aldri sem búsett eru í Reykjanesbæ. Þau börn þurfa ekki að öðru leiti að vera nemendur Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, en þeim ber að greiða kórgjald, kr. 20,000 fyrir veturinn. Sjá gjaldskrá skólans hér á vefsíðunni. Almennir nemendur Tónlistarskólans greiða hins vegar ekki kórgjaldið.
Æfingar verða á mánudögum og fimmtudögum frá kl.16-16.45 í Tónlistarskólanum, Hjallavegi 2.
Sækja skal um á skrifstofu skólans. Umsækjendur verða teknir í raddprófun áður en inntaka í kórinn verður staðfest. Hámarksfjöldi í kórinn er 40 börn.
Kórstjóri og kennari er Bylgja Dís Gunnarsdóttir og meðleikari á píanó er Sigrún Gróa Magnúsdóttir.
Hvatningaverðlaun Íslandsbanka
Hvatningarverðlaun Íslandsbanka, til nemanda við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, fyrir skólaárið 2015-2016, voru afhend á skólaslitum skólans í maí 2015. Eru þau tíundu í röðinni og hefur þetta samstarf Tónlistarskólans og Íslandsbanka verið farsælt og einstaklega ánægjulegt.
Hvatningarverðlaunin að þessu sinni hlaut Marta Alda Pitak, nemandi í fiðluleik og píanóleik.
Marta hóf tónlistarnám 6 ára gömul í Forskóla Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og í fiðluleik, og það varð öllum fljótt ljóst að hún var gædd miklum tónlistarhæfileikum.
Marta sýndi strax mikinn áhuga á tónlistarnáminu og hefur alla tíð sinnt því einstaklega vel, bæði tónfræðagreinunum og hljóðfæranáminu. Dugnaður hennar og hæfileikar hafa orðið til þess að hún hefur náð miklum árangri og er komin mjög vel á veg í fiðlunáminu þrátt fyrir ungan aldur, en hún varð 14 ára í gær.
Marta lauk Miðprófi í fiðluleik vorið 2014, þá aðeins 13 ára gömul og er því komin á framhaldsstig í fiðluleik, sem er frekar óvenjulegt hjá nemanda á þessum aldri. Auk þess lauk hún Miðprófi í tónfræðagreinum og Grunnprófi í píanóleik á þessu vori.
Marta hefur leikið með strengjasveitum skólans frá því hún hafði getu til, auk þess sem hún hefur alltaf verið dugleg að taka þátt í ýmsum öðrum samleiksverkefnum. Marta hefur tekið þátt í alls konar viðburðum á vegum skólans og oft komið fram fyrir hans hönd út á við.
Að þessu sögðu er ljóst að Marta Alda er vel að því komin að hljóta Hvatningarverðlaun Íslandsbanka og vonandi verður sú viðurkenning henni hvati til áframhaldandi dugnaðar og þroska í tónlistarnáminu.