Hljóðfærakynning fyrir Forskóla 2

Tónlistarskólinn býður nemendum í Forskóla 2 upp á hljóðfærakynningar laugardaginn 17. mars frá kl. 11.00-12.00
Hljóðfærakynningin fer fram í Tónlistarskólanum, Hjallavegi 2 (Hljómahöll)

Á kynningunni gefst nemendum tækifæri til að skoða og prófa flest þau hljóðfæri sem kennt er á í Tónlistarskólanum.
Um leið gefst forráðamönnum tækifæri til þess að ræða við kennara og/eða skólastjórnendur um fyrirkomulag hljóðfæranáms við skólann.

 

Þrennir stórtónleikar

Í næstu viku verður margt um dýrðir hjá okkur því þá verða þrennir stórtónleikar. 

Tvennir Forskólatónleikar verða haldnir í Stapa, Hljómahöll,  þriðjudaginn 6. mars.
Fram koma Forskóli 2 ásamt Lúðrasveit og Rokkhljómsveit.
Fyrri tónleikarnir hefjast kl. 17.
Fram koma nemendur úr Akurskóla, Akurskóla – stofum við Dalsbraut, Háaleitisskóla og Holtaskóla.
Seinni tónleikarnir hefjast kl.18.
Fram koma nemendur úr Heiðarskóla, Myllubakkaskóla og Njarðvíkurskóla.

Svo verða tónleikar lengra kominna nemenda verða haldnir í Bergi, Hljómahöll, miðvikudaginn 7. mars kl.19.30. Fjölbreytt og spennandi efnisskrá.

Það eru allir velkomnir á þessa tónleika á meðan húsrúm leyfir og er enginn aðgangseyrir! 

Dagur Tónlistarskólanna

ATH! – Vegna óviðráðanlegra aðstæðna þurfum við að hætta við fyrirhugaða dagsská í tilefni af Degi Tónlistarskólanna laugardaginn 17. febrúar.

Tónlistarskólar landsins eru um níutíu talsins og standa fyrir gríðarlega fjölbreyttu og öflugu skólastarfi. Einn dagur á ári „Dagur tónlistarskólanna“ er tileinkaður þeim og efna skólarnir þá til ýmiskonar viðburða til að brjóta upp skólastarfið og vekja athygli á starfsemi sinni. Markmiðið er að auka sýnileika og styrkja tengsl tónlistarskóla við nærsamfélagið.

Dagur tónlistarskólanna er haldinn annan laugardag í febrúar ár hvert, sem að þessu sinni ber upp á þann 10. febrúar. Dagurinn verður haldinn hátíðlega laugardaginn 17. febrúar í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.

Tónlistarskóli Reykjanesbæjar heldur Dag tónlistarskólanna hátíðlegan að venju með fjölbreyttri dagskrá í Tónlistarskólanum, Hjallavegi 2 sem hefst með opnun Kaffihúss Strengjadeildar kl.10.45 en ágóðinn rennur í ferðasjóð Strengjadeildar.  Nemendur Forskóla 2 fá hljóðfærakynningu og prufutíma á hljóðfæri frá kl.11-12 og á sama tíma verða „Ör-tónleikar“ á þremur tónleikastöðvum í skólanum. Tónfræðikeppnin Kontrapunktur hefst  kl.12 í tónleikasalnum Bergi og endar dagsskrá dagsins með tónleikum þar sem hljómsveitir kallast á á göngum skólans.

Dagsskrá:

10.45 Kaffihús Strengjadeildar opnar
11.00 -12.00 Hljóðfærakynningar og prufutímar fyrir nemendur Forskóla 2
                       Ör-tónleikar til skiptis á 3 tónleikastöðvum í skólanum
12.00-12.50 Tónfræðikeppnin Kontrapunktur í Bergi. Öllum velkomið að fylgjast með
12.50 „Hljómsveitir kallast á“. Strengja-/Gítarsveit og yngri Lúðrasveit „tala saman“

Tónver skólans starfrækir netsjónvarp á Facebooksíðu hans meðan á dagskránni stendur

Kaffihús Strengjadeildar verður opið frá 10.45-13.15
Ágóðinn rennur í ferðasjóð Strengjadeildar

Allir hjartanlega velkomnir

Rástefna Íslandsdeildar EPTA

Sunnudaginn 14. janúar 2018 verður haldin Innanlandsráðstefna EPTA í Bergi tónleika- og fyrirlestrarsal Tónlistarskóla Reykjanesbæjar frá kl. 10:00-19:00.

Dagskrá Innanlandsráðstefnunnar verður fjölbreytt og metnaðarfull, Björg Brjánsdóttir flautuleikari kynnir Timaniaðferðina um góða líkamsbeitingu við hljóðfæraleik, Bjargey Þrúður Ingólfsdóttir, deildarstjóri hljómborðsdeildar í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar fjallar um spunakennslu píanónema, Kári Árnason, sjúkraþjálfari fjallar um áhrif hljóðfæraleiks á stoðkerfið og Sunna Gunnlaugsdóttir, jazzpíanóleikari fjallar um kennslu í ritmísku píanónámi. Prófessor Julia Mustonen-Dahlkvist, deildarstjóri píanódeildar Ingesund College of Music við háskólann í Karlstad fjallar um undirbúning nemenda fyrir keppnir og situr fyrir svörum ráðstefnugesta en nemendur hennar hafa unnið til verðlauna víða um heim. Ráðstefnunni lýkur með með spennandi tónleikum nemanda Mustonen-Dahlkvist og rísandi stjörnu í píanóheiminum, Aristo Sham sem hlotið hefur fjölmörg verðlaun í alþjóðlegum keppnum á ferli sínum. Á efnisskránni verða verk eftir Scarlatti, Scriabin, Liszt, Brahms og Barber.

Hægt verður að kaupa dagspassa samdægurs á ráðstefnuna og einnig verður hægt að kaupa miða á tónleika Aristo Sham eingöngu sem hefjast kl. 17:30. Verð dagspassa: kr. 15.000 (innifalið súpa og kaffi) og verð tónleikamiða: kr. 2500 / 1500 fyrir námsmenn, aldraða og öryrkja.

Dagskrá ráðstefnunar má nálgast hér http://epta.is/is/  og á fb síðu ráðstefnunnar

https://www.facebook.com/events/959240370891969/permalink/959313224218017/

Gleðileg jól!

Tónlistarskólinn óskar nemendum sínum, forráðamönnum og öllum íbúum Reykjanesbæjar gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Nú erum við komin í jólafrí og hefst kennsla aftur fimmtudaginn 4. janúar!

Jólatónleikar

Það er mikið um að vera núna í desember og eru um 30 jólatónleikar á dagsskrá. Undir flipanum „Viðburðir“ hér að ofan má nálgast jóladagskránna. Á þessa tónleika eru allir velkomnir og enginn aðgangseyrir.

Einnig vekjum við athygli að því að jólaútgáfa Tónvísis, fréttabréf skólans, er aðgengileg hér að ofan.