Tónlistarskóli Reykjanesbæjar hefur alla tíð gert Degi tónlistarskólanna hátt undir höfði. Að þessu sinni ber Dag tónlistarskólanna upp á laugardaginn 23. febrúar og þann dag efnir skólinn til Hátíðartónleika í Stapa, Hljómahöllinni í Reykjanesbæ. Tónleikarnir hefjast kl.14.00.
Á tónleikunum koma fram nemendur á öllum námsstigum í einleik og einsöng, samspilshópum og hljómsveitum. M.a. koma fram yngsta lúðrasveit skólans, tvær gítarsveitir, strengjasveit, kammerstrengir, blokkflautusveit, rokkband yngri nemenda og frumflutt verður verk fyrir litla hljómsveit eftir Má Gunnarsson, nemanda við skólann.
Einleiks/einsöngsatriði verða sömuleiðis mjög fjölbreytt og m.a. mun Jelena Raschke sópran, koma fram á tónleikunum, en hún lauk framhaldsprófi og framhaldsprófstónleikum/burtfarartónleikum fyrr í þessum mánuði.
Aðgangur á tónleikana er að sjálfsögðu ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.