Styrkur frá Lions í Njarðvík

lionsklubbur-gjo%cc%88fLionsklúbbur Njarðvíkur veitti í gær, sunnudaginn 27. nóvember, Tónlistarskóla Reykjanesbæjar myndarlegan styrk eins og klúbburinn hefur gert árlega, mörg undanfarin ár. Styrkurinn var að venju afhentur í Verslunarmiðstöðinni Krossmóa við sama tækifæri og jólahappdrætti Lionsklúbbs Njarð

víkur var sett í gang. Styrkurinn er kærkominn og verður varið til að styrkja tónleikahald nemenda skólans.

Tveir gítarnemendur skólans, Alexander Grybos og Luka Bosnjak, léku tvö jólalög við þetta tækifæri, ásamt kennara sínum.

Arnaldur Arnarson – gítartónleikar

2000Tónlistarskóli Reykjanesbæjar og Tónlistarfélag Reykjanesbæjar standa saman að tónleikum þar sem gítarleikarinn Arnaldur Arnarson leikur nokkrar af fegurstu perlum klassískrar gítartónlistar, m.a. verk eftir Johann Sebastian Bach, Heitor Villa-Lobos og Isaac Albéniz.

Tónleikarnir verða fimmtudaginn 10. nóvember kl.19.30 í tónleikasalnum Bergi í Hljómahöll. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir. Gengið verður inn um inngang Tónlistarskólans.

Arnaldur Arnarson fæddist í Reykjavík árið 1959 og hóf gítarnám í Svíþjóð tíu ára gamall. Hann sótti síðan gítarnám í Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar hjá Gunnari H. Jónssyni og lauk þar námi vorið 1977.  Hann stundaði framhaldsnám í Englandi og á Spáni, þar sem helstu kennarar hans voru Gordon Crosskey, John Williams, George Hadjinikos og José Tomás. Með sigri í 21. alþjóðlegu „Fernando Sor“ gítarkeppninni í Róm 1992 og með einleikstónleikum á Listahátíð í Reykjavík sama ár skipaði Arnaldur sér á bekk með fremstu tónlistarmönnum Íslands. Hann hefur margoft komið fram á Íslandi og haldið tónleika í Evrópu, Ástralíu, Bandaríkjunum og Suður Ameríku. Arnaldur hefur um árabil kennt gítarleik og verið aðstoðarskólastjóri við Luthier Tónlistar- og dansskólann í Barcelona en hyggst starfa meira á Íslandi næstu misseri. Hann hefur haldið námskeið í tónlistarflutningi víða um heim og setið í dómnefndum í alþjóðlegum tónlistarkeppnum.

Skemmtilegt samstarf hefur myndast milli Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og Arnaldar á síðustu mánuðum. Kennarar skólans fengu athyglisverðan fyrirlestur hjá Arnaldi í fræðslu- og kynnisferð sinni til Barcelona s.l. sumar og gítarnemendur skólans hafa í þessari Íslandsferð Arnaldar, fengið masterklass-kennslu hjá honum.