Tónlistarskóli Reykjanesbæjar, Tónlistarfélag Reykjanesbæjar og Menningarsvið Reykjanesbæjar standa að fjölskyldutónleikum laugardaginn 17. nóvember n.k. í samstarfi við Félag íslenskra tónlistarmanna, FÍT. Á tónleikunum kemur fram Kammerhópurinn Shehérazade sem er blásarakvintett, ásamt Sigurþóri Heimissyni leikara, sem er sögumaður á tónleikunum. Tónleikarnir sem eru u.þ.b. 50 mínútna langir, verða í Stapa kl.14.00.
Kammerhópurinn Shehérazade, sem er skipaður þeim Pamelu De Sense á þverflautu, Eydísi Franzdóttur á óbó, Kristínu Mjöll Jakobsdóttur á fagott, Rúnari Óskarssyni á klarinett og Emil Friðfinnssyni á franskt horn, var stofnaður árið 2008, hefur það að markmiði að flytja klassíska tónlist fyrir börn. Frá því hópurinn var stofnaður hefur hann flutt ævintýrið um Pétur og úlfinn 26 sinnum á tónleikum og Karnival dýranna. Bæði verkin voru flutt í Salnum í Kópavogi og var flutningi þeirra mjög vel tekið.
Shehérazade hópurinn hefur staðið fyrir fjölskyldutónleikaröð sem nefnist ,,Töfrahurð”. Tónleikaröðin er haldin í samvinnu við Salinn í Kópavogi og er tónleikunum ætlað að opna ævintýraveröld tónanna fyrir börnunum. Auk þess að leika í Salnum hefur ,,Shehérazade” hópurinn komið fram í Þorlákshöfn og á Ísafirði.
Nokkur íslensk tónskáld hafa samið sérstaklega fyrir Kammerhópinn Shehérazade, en þau eru Oliver Kentish, Elín Gunnlaugsdóttir, Steingrímur Þórhallsson og Guðmundur Steinn Gunnarsson.
Sigurþór Heimisson er útskrifaður leikari frá Leiklistarskóla Íslands og hefur leikið fjölda hlutverka í atvinnuleikhúsum landsins. Núna er hann að leika í tveimur verkum sem flakka á milli grunn- og framhaldsskóla. Hann kennir framsögn og raddbeitingu í Háskólanum í Reykjavík.
Efnisskrá fjölskyldutónleikanna laugardaginn 17. nóvember í Stapa er eftirfarandi:
R. Goldfaden: Saga tréblásturshljóðfæranna
S. Prokofiev. Pétur og úlfurinn, tónævintýri Op. 67
Pétur og úlfurinn er ævintýri fyrir leiklestur og hljómsveit og er bæði sagan og tónlistin eftir rússneska tónskáldið Sergei Prokofiev. Prokofiev hafði farið með syni sína tvo í tónleikhús barna í Moskvu og þar datt honum í hug að semja tónverk af þessu tagi. Sagan segir frá Pétri sem stelst út á engið í óþökk afa síns. Þar glímir hann við ógnvættina ógurlegu; úlfinn, með hjálp fuglsins og kattarins, en úlfurinn hefur þá þegar gleypt veslings öndina sem hafði synt í makindum á tjörninni. Verkið var samið til að kynna fyrir börnum hljóðfærin í sinfóníuhljómsveitinni. Flautan leikur fuglinn, óbóið öndina, klarinettið köttinn, fagottið afann, hornið úlfinn og einnig skiptast öll hljóðfærin á að leika stef Péturs í stað strokhljóðfæranna. Hin mikla athygli og vinsældir sem verkið fékk kom meira að segja höfundinum sjálfum á óvart.
Allir eru velkomnir á tónleikana og eru nemendur nemendur Tónlistarskólans sérstaklega hvattir til að mæta ásamt fjölskyldum sínum og vinum. Aðgangur er ókeypis.