Gítarsveitadagur – tónleikar

Tónlistarskóli Reykjanesbæjar 20 ára
N.k. laugardag, þann 1. febrúar, mun Tónlistarskóli Reykjanesbæjar standa fyrir æfingadegi og tónleikum þar sem fram koma gítarsveitir skipaðar nemendum á klassíska gítara. Auk þátttöku gítarsveita innan skólans, fær hann til sín góða gesti, sem eru gítarsveitir frá Tónlistarskóla Árnesinga, Tónskóla Sigursveins og Tónlistarskólanum í Garði og verða þátttakendur alls u.þ.b. 50 talsins. Auk þess mun Svanur Vilbergsson, gítarleikari og kennari við Listaháskóla Íslands flytja efnisskrá þar sem hann „spilar og spjallar“ við nemendur og kennara.

Gítarsveitadeginum lýkur svo kl.16.00 með tónleikum í Bergi, Hljómahöll. Á tónleikunum leikur hver gítarsveit 1 eða 2 lög og þeim lýkur svo með því að allar sveitirnar leika sameiginlega, sem einskonar sýnishorn af afrakstri dagsins.  Gítarsveitadagurinn er þáttur í 20 ára afmælishaldi skólans.

Aðgangur að tónleikunum er ókeypis og allir velkomnir.