Hljóðfæranám

Í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar er hægt að hefja hljóðfæranám á nánast hvaða aldri sem er, en það er þó háð líkamlegum þroska nemandans og því hljóðfæri sem hann velur. Kennt er í einkatímum, 60 mínútur á viku, sem algengast er að skiptist í 2 x 30 mínútur í senn. Undantekning frá þessu er þó nám byrjenda á fiðlu, píanó og blokkflautu samkvæmt Suzuki-aðferðinni.

Nám í einsöng er sjaldnast hægt að hefja fyrr en um 16 ára aldurinn og þá helst stúlkur. Drengir hafa sjaldnast raddlega burði til að hefja söngnám fyrr en um 17-18 ára aldur.

Allir hljóðfæra- og söngnemendur eiga að stunda nám í tónfræðagreinum. Þær kennslustundir eru hóptímar og skipt niður í hópa eftir námsstigi, en einnig er tekið tillit til aldurs nemenda. Sjá Tónfræðagreinar.

Allir nemendur á hljómsveitahljóðfæri eiga að auki að stunda nám í hljómsveitum, t.d. strengjasveit eða lúðrasveit, allt eftir hljóðfærum. Skólinn kappkostar að starfrækja annars konar samspil fyrir þá nemendur sem ekki eru að læra á hljómsveitahljóðfæri.

Skólinn starfrækir hljóðfæraleigu og eru flest smærri hljóðfæri til leigu gegn vægu gjaldi. Sjá Hljóðfæraleiga.
Nemendur í píanónámi sem hafa ekki píanó til umráða í upphafi fyrsta námsárs, né mjög greiðan aðgang að píanói, þurfa að hafa útvegað sér píanó fyrir upphaf vorannar. Nemendur í hljómborðsnámi þurfa að hafa hljómborð til umráða strax í upphafi námsins.
Skólinn býður nemendum upp á tvær æfingastofur með píanóum, sem nemendur geta nýtt sér hvenær sem er, hvort sem nemendur hafa píanó til umráða eða ekki.

Vakin er athygli á nýju kynningarnámi á blásturshljóðfæri hér

Kennt er á eftirtalin hljóðfæri í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar:

  • Orgel
  • Hljómborð
  • Slagverk (klassískt og trommur)
  • Túba
  • Básúna
  • Horn og Baritónhorn
  • Trompet
  • Saxófónn
  • Klarinett
  • Blokkflauta
  • Fagott
  • Óbó
  • Þverflauta
  • Kontrabassi
  • Selló
  • Víóla
  • Fiðla
  • Rafbassi
  • Rafgítar
  • Harmónika
  • Gítar, klassískur
  • Píanó

Almennt.
Almennt er miðað við að hefðbundið nám á hljóðfæri geti hafist um 8 – 13ára aldur en er þó mjög einstaklingsbundið og fer eftir stærð og gerð hljóðfærisins.
Hljóðfæranámi við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar fylgja einnig aðrar námsgreinar sem skylda er að sækja. Sjá “Hljóðfæratímar – Tónfræðagreinar” og “Aðrar námsgreinar” hér fyrir neðan.

Tónlistarskóli Reykjanesbæjar starfar samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla útg. af menntamálaráðuneytinu og skólinn er jafnframt aðili að Prófanefnd tónlistarskóla.

Námsmat.
Námi í tónlistarskóla er skipt niður í þrjá námsáfanga: Grunnnám – Miðnám – Framhaldsnám. Við lok hvers námsáfanga eru tekin áfangapróf: Grunnpróf – Miðpróf – Framhaldspróf. Framhaldspróf er undanfari háskólanáms í tónlist. Nokkur námsár geta liðið á milli áfangaprófanna, þar sem nemendur þurfa að hafa náð ákveðinni tæknilegri færni og ákveðin námsefnisyfirferð þarf að vera að baki. Þessi próf eru metin af sérþjálfuðum prófdómurum á vegum Prófanefndar tónlistarskóla.

Til þess að áfangapróf séu fullgild, þurfa nemendur að ljúka viðeigandi námi í tónfræðagreinum.

Tekin eru skólapróf að vori, þau námsár sem líða milli áfangaprófa. Það eru svokölluð Árspróf. Allir nemendur þurfa að taka Árspróf.

Hljóðfæratímar – Tónfræðagreinar.

  • Hljóðfæratímar (einkatímar) 2 x 30 mín. á viku

Eftirtaldar tónfræðagreinar eru skyldunámsgreinar og þeim þarf að vera lokið í síðasta lagi skólaárið sem Framhaldspróf er tekið, ef það á að teljast fullgilt próf. Tónfræðagreinum má dreifa niður á námsárin. Það er því ekki nauðsynlegt að stunda nám í þeim öllum í einu. Gott er að nýta námsráðgjöf skólans hvað varðar dreifingu námsgreina.

  • Kjarni (samþætt tónfræðanám) 1 x 50 mín. á viku.

Kjarna lýkur með samræmdu Miðprófi í tónfræði og tónheyrn.

Að loknum Kjarna taka við eftirtaldar námgreinar, sem sérstakar kennslustundir, þ.e. ekki samþætt:

  • Tónheyrn 1 x 60 mín. á viku. Tónheyrnarnám er öll námsárin
  • Hljómfræði 1 x 1,5 klst. á viku. Hljómfræðinám hefst að loknu tónfæðinámi
  • Tónlistarsaga 1,5 klst. á viku. Tónlistarsögu er hægt að taka hvenær sem er á námstímanum. Athuga þarf að tónlistarsaga er 3ja ára nám.

Aðrar námsgreinar.
Samspil er skyldunámsgrein í hljóðfæranámi og ber nemendum að leika í hljómsveit eða samspili öll námsárin, um leið og nægilegri færni er náð. Æfingar eru 1 – 2 klst. á viku eftir námsstigi og viðkomandi hljóðfæri.