Skólalúðrasveit frá Færeyjum í heimsókn

Í dag, miðvikudaginn 19. október kemur unglingalúðrasveit frá Færeyjum í stutta heimsókn til okkar. Lúðrasveitin hefur undanfarna daga verið á ferðalagi um Vesturland og heimsótt Ólafsvík og Akranes. Frá Reykjanesbæ fer sveitin svo á föstudaginn til Reykjavíkur með viðkomu í Grindavík og Bláa lóninu.

Lúðrasveitin, sem er frá tónlistarskólanum á eyjunni Vágar, er skipuð rúmlega 30 tónlistarnemendum á aldrinum 11 til 15 ára, frá fjórum bæjum á eyjunni, sem eru Sörvágur, Miðvágur, Vatnsoyrar og Sandavágur.

Á morgun fimmtudaginn 20. október heldur lúðrasveitin tvenna  skólatónleika í Akurskóla og skoðar síðan nokkra markverða staði í Reykjanesbæ, m.a. Víkingaheima og Duus-hús.

Um kvöldið verða haldnir  tónleikar í Stapa, Hljómahöllinni, þar sem fram koma lúðrasveitin frá Vágum og  Lúðrasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, C-sveit.  Stjórnendur eru Joan Hovgaard og Harpa Jóhannsdóttir. Innan færeysku lúðrasveitarinnar er einnig 7 manna popphljómsveit sem kemur fram á tónleikunum.

Tónleikarnir hefjast kl.19.30. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.

Svæðisþing tónlistarskóla

Fimmtudaginn 6. október n.k. verða kennarar og stjórnendur tónlistarskólans á svæðisþingi tónlistarskóla. Kennsla hjá okkur fellur því niður þann dag. Undantekning er þó sú að kennarar sem sóttu svæðisþing tónlistarskóla þegar það var haldið í Reykjavík fyrir stuttu, munu kenna á fimmtudaginn, t.d. Steinar Guðmundsson píanókennari og Þorkell Atlason tónfræðakennari.