Reglugerð fyrir Tónlistarskóla Reykjanesbæjar lýsir markmiðum skólans, umsýslu og stjórnskipulagi. Reglugerðin er samþykkt af fræðsluráði og bæjarstjórn Reykjanesbæjar.
Reglugerð fyrir Tónlistarskóla Reykjanesbæjar
1. gr.
Tónlistarskóli Reykjanesbæjar var stofnaður 1. september 1999.
2. gr.
Skólinn er eign Reykjanesbæjar, með heimili og varnarþing í Reykjanesbæ.
Skólinn er rekinn af Reykjanesbæ.
3. gr.
Skólinn skal fullnægja gildandi lögum og reglugerðum um starfsemi tónlistarskóla, sem og ákvæðum aðalnámskrár tónlistarskóla.
4. gr.
Markmið skólans er að efla almenna tónlistarþekkingu og iðkun tónlistar, auk þess að stuðla að eflingu tónlistarlífs í Reykjanesbæ.
Markmiði sínu hyggst skólinn ná með því meðal annars að:
a) halda uppi kennslu í sem flestum greinum tónlistar, þar sem börnum jafnt sem fullorðnum gefst kostur á að stunda tónlistarnám eftir því sem aðstæður leyfa.
b) hafa samvinnu við aðra skóla, mennta – og uppeldisstofnanir um þessa fræðslu.
c) skólinn eigi hljóðfæri til þess að auðvelda nemendum aðgang að skólanum og verði þau leigð þeim fyrstu námsárin eftir því sem aðstæður leyfa.
d) búa nemendum sem fjölbreyttust skilyrði til að þroska tónlistarhæfileika sína og sköpunargáfu.
e) búa nemendur undir tónlistarnám á háskólastigi.
f) leggja áherslu á félagslegt gildi tónlistariðkunar með þátttöku nemenda í samleik, kór – og hljómsveitastarfi.
g) öll börn í 1. og 2. bekk grunnskólanna fái nám í forskóladeild TR sér að kostnaðarlausu.
h) nemendum TR, sem eru í 3. – 6. bekk grunnskólanna, sé gefinn kostur á að stunda tónlistarnám sitt sem hluta af samfelldum skóladegi.
5. gr.
Starfstími skólans er 9,5 mánuður og skal kennsla vera samkvæmt gildandi kjarasamningi hverju sinni. Leitast skal við að samræma starfstíma tónlistar- og grunnskóla eins og kostur er.
6. gr.
Fræðsluráð fer með málefni tónlistarskóla skv. lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla nr. 75/1985 og reglugerð bæjarstjórnar Reykjanesbæjar um tónlistarskóla. Fjárhagsáætlanir og reikningar skólans skulu lagðir fyrir fræðsluráð til upplýsingar og umsagnar.
7. gr.
Fræðslustjóri hefur faglegt og rekstrarlegt eftirlit með starfsemi tónlistarskóla og gerir tillögu að fjárhagsáætlun og breytingum á gjaldskrá tónlistarskólans í samvinnu við skólastjóra.
8. gr.
Skólastjóri fer með daglega stjórnun skólans og ber ábyrgð á henni. Hann fer einnig með og ber ábyrgð á faglegri stjórnun.
Skólastjóri skal starfa í nánum tengslum við bæjaryfirvöld, fræðsluskrifstofu, fræðsluráð og fræðslustjóra Reykjanesbæjar.
Skólastjóra ber að framfylgja ákvörðunum bæjaryfirvalda eða fulltrúa þeirra.
Skólastjóri ráðstafar húsnæði og hefur yfirumsjón með eigum skólans.
Skólastjóri kemur fram fyrir hönd skólans gagnvart starfsmönnum, nemendum og foreldrum þeirra svo og aðilum utan skólans.
Skólastjóri skal skila vinnuskýrslum starfsmanna til launadeildar og árita reikninga vegna rekstrar og innkaupa.
Skólastjóri ber ábyrgð á að skólastarfið sé í samræmi við reglugerð þessa.
Næsti yfirmaður skólastjóra er fræðslustjóri.
9. gr.
Við skólann skal starfa aðstoðarskólastjóri, skólastjóra til fulltingis við stjórnun skólans og ákvarðanatöku. Aðstoðarskólastjóri skal vera staðgengill skólastjóra.
Skólastjóri ræður deildastjóra í samræmi við heimildir kjarasamninga og fjárhagsáætlun skólans.
10. gr.
Rekstur skólans skal miðast við fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar hverju sinni. Fjármagn til rekstursins kemur úr bæjarsjóði og með innheimtu skólagjalda nemenda. Reikningsár skólans miðast við almanaksár.
Skólastjóri gerir tillögur að fjárhagsáætlun fyrir skólann ár hvert og leggur hana fyrir fræðslustjóra Reykjanesbæjar.
11. gr.
Skólagjöld eru ákveðin af bæjarstjórn, að fengnum tillögum skólastjóra og fræðslustjóra Reykjanesbæjar.
Skólagjöld skulu greidd fyrir allt skólaárið í einu, um leið og nemandi innritast í skólann og innheimt samkvæmt greiðslusamningi.
Sú megin regla skal gilda að skólagjöld skuli aðeins endurgreidd ef nemandi þarf að hætta námi vegna veikinda eða brottflutnings.
12. gr.
Fjármála- og rekstrarsvið fer með allt reikningshald skólans og aðstoðar við skrifstofuvinnu.
Það annast allar greiðslur fyrir skólann, samkvæmt reikningum samþykktum af skólastjóra eða öðrum þeim starfsmönnum sem hafa rétt eða umboð til þess.
13. gr.
Reglugerð þessi var samþykkt af fræðsluráði Reykjanesbæjar þann 30. maí 2005
og samþykkt af bæjarstjórn Reykjanesbæjar þann 7. júní 2005.