Forskóli

Almennt
Forskóli Tónlistarskólans er skyldunám allra 6 og 7 ára barna í grunnskólum Reykjanesbæjar. Kennsla fer fram á skólatíma og innan húsnæðis grunnskólanna. Forskólinn skiptist í tvær deildir, Forskóla 1 (6 ára börn) og Forskóla 2 (7 ára börn).
Kennt er í litlum hópum, hámark 11 börn í hóp. Nemendur í Forskóla 1 fá 1 x 40 mín. á viku en nemendur í Forskóla 2 fá 2 x 40 mín. á viku.

Forskólanám er samþætt byrjendanám í tónfræðagreinum. Nemendur fá alhliða þjálfun í tónlist. Unnið er með sköpun, hlustun, söng, hrynþjálfun, dans/hreyfing og hljóðfæraleik (Orff-hljóðfæri). Í Forskóla 2 bætist blokkflautunám við.
Heimanám er ekki í Forskóla 1 en nemendur í Forskóla 2 þurfa að æfa sig samviskusamlega heima á blokkflautuna og það er afar mikilvægt að foreldrar hvetji börn sín áfram og sýni náminu áhuga.
Áhersla er lögð á gott samband milli Tónlistarskólans og heimilanna.

Markmið forskólanáms er að búa nemendur sem best undir hljóðfæranám.

Námsefni: Útgefið námsefni fyrir forskóla er af mjög skornum skammti. Því leita forskólakennarar að mestu í eigin smiðju, hvað það varðar. Kennsluáætlanir eru sniðnar að hverjum árgangi fyrir sig. Nemendur í Forskóla 2 fá lánaða blokkflautu og kennslubók í blokkflautuleik.

Próf og námsmat: Námsmat er á formi símats með tilliti til hæfniviðmiða Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Námsmat er birt á Mentor.