Skólastarf frá 4. maí

Nú hefur það verði útfært af Sambandi íslenskra sveitarfélaga í samráði við sóttvarnaryfirvöld, hvernig starfsemi tónlistarskóla skuli háttað frá og með mánudeginum 4. maí. Það er skemmst frá því að segja að við getum hafið eðlilegt skólastarf að nýju þann dag, sem er mjög gleðileg niðurstaða.

Skólastarfið út skólaárið:
Hjá okkur verður það þannig að hljóðfærakennsla út í grunnskólunum verður með eðlilegum hætti, sem og forskólakennslan (1. og 2. bekkur).

Önnur hljóðfærakennsla, söngkennsla og meðleikur fer fram að nýju í tónlistarskólanum. Hins vegar gildir tilskipun um 2 metra fjarlægðarmörk þegar nemendur eldri en á grunnskólaaldri mæta í tíma.

Allar tónfræðagreinar færast aftur inn í tónlistarskólann og hljómsveita- og samspilsstarf verður með þeim hætti sem hæfir hverjum hópi þær fáu vikur sem eftir lifir af skólaárinu.

Stefnt er að því að halda alla vortónleika sem og tónleika nemenda á framhaldsstigi, en án tónleikagesta. Við vonumst til þess að hægt verði að streyma þeim öllum.

Skólaslit verða í Stapa, Hljómahöll, föstudaginn 29. maí kl.18.00, sem er skv. skóladagatali.  Viðstaddir verða einungis þeir sem koma að skólaslitunum með beinum hætti, þ.e. nemendur sem taka við áfangaprófsskírteinum sínum, nýr handhafi Hvatningarverðlauna Íslandsbanka, þeir nemendur sem munu flytja tónlist og svo við skólastjórnendur. Alls rétt innan við 50 manns sem verður dreift um salinn.
Skólaslitunum verður streymt.

Eftir 4. maí gilda ennþá almennar sóttvarnaráðstafanir um hreinlæti, sótthreinsun og notkun handspritts í öllum skólum. Mælst er til þess að sem fæstir fullorðnir komi í skólabyggingar og á það m.a. við um foreldra, iðnaðarmenn og almenna gesti. Hvatt er til sérstaks hreinlætis, sótthreinsunar og handþvotta.

Starfsdagur

Starfsfólk Tónlistarskóla Reykjanesbæjar óskar nemendum sínum og fjölskyldum gleðilegra páska. Þriðjudagurinn 14. apríl er starfsdagur og engin kennsla þann daginn. Kennarar munu hafa samband við sína nemendur varðandi kennslu næstu vikurnar sem helst með óbreyttu sniði á meðan samkomubann stendur yfir.