Saga skólans

Nýr skóli á gömlum grunni
Í gömlu sveitarfélögunum Keflavík og Njarðvík störfuðu tveir tónlistarskólar, Tónlistarskólinn í Keflavík og Tónlistarskóli Njarðvíkur. Eftir sameiningu sveitarfélaganna árið 1994 voru engar breytingar gerðar á starfsemi skólanna, en árið 1995 var Tónlistarskóla Njarðvíkur breytt í aldursskiptan skóla og hann eingöngu ætlaður fyrir nemendur á grunnskólaaldri. Í ársbyrjun 1998 var tekin sú pólitíska ákvörðun að tónlistarskólarnir tveir í Reykjanesbæ skyldu lagðir niður og Tónlistarskóli Reykjanesbæjar stofnaður. Hinn nýji tónlistarskóli hóf svo starfsemi sína 1. september 1999 og þá um leið var sterfsemi Tónlistarskólans í Keflavík og Tónlistarskóla Njarðvíkur hætt.
Þegar þetta átti sér stað, hafði Tónlistarskólinn í Keflavík starfað í 42 ár og Tónlistarskóli Njarðvíkur í 23 ár. Skólastjórar Tónlistarskólans í Keflavík voru frá upphafi Ragnar Björnsson, Herbert H. Ágústsson, Kjartan M. Kjartansson og Karen J. Sturlaugsson.
Skólastjórar Tónlistarskóla Njarðvíkur voru frá upphafi, Örn Óskarsson og Haraldur Á. Haraldsson.
Fyrsti skólastjóri Tónlistarskóla Reykjanesbæjar var ráðinn Haraldur Á. Haraldsson og aðstoðarskólastjóri Karen J. Sturlaugsson.

Aðdragandi stofnunar
Við þá ákvörðun bæjaryfirvalda Reykjanesbæjar að Tónlistarskóli Reykjanesbæjar skyldi stofnaður, var jafnframt tekin sú ákvörðun að samstarf tónlistarskólans og grunnskólanna yrði markvisst og náið, með tilliti til þess að einsetning grunnskólanna var þá hafin og fyrirséð að allir grunnskólar sveitarfélagsins yrðu orðnir einsetnir haustið 2000. Samstarf tónlistarskólans og grunnskólanna yrði tvíþætt. Í fyrsta lagi að forskóli tónlistarskólans færi fram í grunnskólunum og yrði skyldugrein innan grunnskólanna fyrir nemendur í 1. og 2. bekk. (6 og 7 ára). Forskólinn yrði felldur inn í stundatöflu barnanna og hverri bekkjadeild tvískipt, þ.e. um það bil hálfur bekkur í einu, ca. 9 – 11 börn í hóp.
Í öðru lagi að allir nemendur tónlistarskólans í 3. – 6./7. bekk ættu kost á því að fá hljóðfæratíma sína á skólatíma.
Tónlistarskóli Reykjanesbæjar tók til starfa eins og áætlað hafði verið, þann 1. september 1999. Fyrr á því ári hafði farið fram ákveðið vinnuferli við undirbúning að stofnun hans og undirbúnar viðamiklar skipulagsbreytingar á kennsluháttum frá því sem gömlu tónlistarskólarnir höfðu viðhaft, sem voru frekar hefðbundnir.

Í dag

Hið nýja kennslufyrirkomulag var að öllu leiti orðið að veruleika strax í upphafi annars starfsárs skólans, haustið 2000. Starfsemi Tónlistarskóla Reykjanesbæjar er því þannig hagað í dag að allir nemendur í 1. og 2. bekk grunnskóla bæjarins fá forskólakennslu á vegum tónlistarskólans frítt, enda um skyldunám að ræða. Nemendur 1. bekkjar (6 ára) fá 1 x 40 mín. kennslustund á viku á skólatíma en nemendur 2. bekkjar (7 ára) fá 2 x 40 mín. kennslustundir á viku og að sjálfsögðu einnig á skólatíma. Nemendur tónlistarskólans sem eru í hljóðfæranámi og eru í 3. til 6./7. bekk (8-13 ára) eiga kost á því að fá báða vikulegu hljóðfæratímana sína í sínum grunnskóla og á skólatíma sem hluta af samfelldum skóladegi.
Auk þess stunda margir framhaldsskólanemendur nám við skólann, sem og fullorðnir nemendur. Nemendur flestra framhaldsskóla, þar á meðal Fjölbrautaskóla Suðurnesja, geta fengið nám sitt við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar metið til eininga. Auk þess getur skólinn séð um tónlistarkennslu þeirra nemenda sem fara á Listakjörsvið framhaldsskóla með tónlist sem aðalgrein.