Suzuki-blokkflauta: Tónlistarskólinn bauð um árabil upp á fiðlunám samkvæmt Suzuki-aðferðinni, en af óviðráðanlegum ástæðum varð að leggja það nám niður fyrir nokkrum árum. Nú ætlar skólinn að endurvekja Suzukinámið, en í formi blokkflautukennslu.
Námið er ætlað börnum á aldrinum 3-6 ára og skilyrði er að foreldri/forráðamaður fylgi barni sínu í náminu. Fyrstu vikurnar er námið í formi foreldrafræðslu sem miðar að því að foreldrar geti kennt barni sínu heima og stutt við það í náminu í framhaldi af kennslustundinni í tónlistarskólanum.
Blokkflaututímar (einkatímar) eru 1 x 30 mínútur á viku og hóptími/samspil 60 mínútur aðra hvora viku. Í hóptímana mætir píanóleikari til að spila undir með börnunum.
Suzuki-aðferðin er kennd við upphafsmann hennar, Japanann S. Suzuki og byggir á því að börn læra að leika á hljóðfæri með áþekkum hætti og það lærir móðurmálið sitt, enda er aðferðin oft kölluð „móðurmálsaðferðin“.
Aðeins örfáir nemendur verða teknir inn.
Upplýsingar um námsgjöld er að finna í gjaldskrá skólans hér á vefsíðunni.
Kennari er Ína Dóra Hjálmarsdóttir.
Söngnám innan rytmísku deildarinnar: Skólinn býður nú upp á nám í rytmískum söng sem er djass- og dægurlagasöngur. Námið er ætlað nemendum frá 12 ára aldri og þurfa umsækjendur að mæta í raddprófun áður en skólavist er staðfest. Auk þess sem nemendur læra raddtækni og fleira því tengt, er m.a. kennt að syngja í hljóðnema (míkrófón).
Nemendur í rytmískum söng tilheyra rytmísku deild skólans og munu því taka þátt í þeim hljómsveitum sem starfræktar eru innan deildarinnar þegar þeir hafa orðið kunnáttu til þess.
Sækja skal um á skrifstofu skólans, Hjallavegi 2 (Hljómahöll) eða á vef Reykjanesbæjar undir mittreykjanes.is
Einungis örfáir nemendur verða teknir inn að þessu sinni.
Upplýsingar um námsgjöld er að finna í gjaldskrá skólans hér á vefsíðunni.
Kennari er Díana Lind Monzon.
Barnakór: Frá og með haustinu 2015 hefur verið starfræktur kór sem ætlaður er börnum á aldrinum 9-11 ára (í 4. til 6. bekk). Í kórstarfinu er lögð áhersla á raddþjálfun, leiklistaræfingar, framkomu og tónheyrnarþjálfun og að sjálfsögðu er kenndur fjöldinn allur af lögum sem sungin eru bæði einradda og í röddum.
Kórinn er ætlaður fyrir bæði nemendur Tónlistarskólans og önnur börn á þessum aldri sem búsett eru í Reykjanesbæ. Þau börn þurfa ekki að öðru leiti að vera nemendur Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, en þeim ber að greiða kórgjald, kr. 20,000 fyrir veturinn. Sjá gjaldskrá skólans hér á vefsíðunni. Almennir nemendur Tónlistarskólans greiða hins vegar ekki kórgjaldið.
Æfingar eru á mánudögum og fimmtudögum frá kl.16-16.45 í Tónlistarskólanum, Hjallavegi 2.
Sækja skal um á skrifstofu skólans. Umsækjendur verða teknir í raddprófun áður en inntaka í kórinn verður staðfest. Hámarksfjöldi í kórinn er 40 börn.
Kórstjóri og kennari er Bylgja Dís Gunnarsdóttir og meðleikari á píanó er Sigrún Gróa Magnúsdóttir.