Stórtónleikar Forskóladeildar

Fimmtudaginn 3. mars stendur Forskóladeild Tónlistarskóla Reykjanesbæjar fyrir tvennum Stór-tónleikum í Stapa, Hljómahöll. Á tónleikunum koma fram nemendur í Forskóla 2, sem eru allir nemendur 2. bekkjar grunnskólanna (7 ára börn) ásamt mið Lúðrasveit T.R. og eldri Strengjasveit T.R.

Fyrri tónleikarnir eru kl.17 og á þeim koma fram forskólanemendur úr Akurskóla og Heiðarskóla.
Seinni tónleikarnir eru kl.18 og á þeim koma fram forskólanemendur úr Háaleitisskóla, Holtaskóla, Myllubakkaskóla og Njarðvíkurskóla.
Hvorir tónleikarnir um sig taka um 30 mínútur. Aðgangur er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.

Forskóladeildin hefur um árabil staðið fyrir tónleikahaldi einu sinni á vetri, ásamt lúðrasveitinni.  Á fyrstu tónleikunum voru það einungis um 40 forskólanemendur sem léku sem gestir með lúðrasveitinni á tónleikum í Kirkjulundi, en strax árið eftir var ákveðið að fara með tónleikana á milli allra grunnskólanna þar sem forskólinn væri í fyrirrúmi og hafa aðra hljómsveit með auk lúðrasveitarinnar, sem hafa ýmist verið rokkhljómsveitir, trommusveit eða strengjasveit. Þessu fyrirkomulagi var haldið þar til á síðasta ári, að ákveðið var að fara ekki í grunnskólana með tónleikahaldið, heldur halda tvenna tónleika í Stapa. Þeir heppnuðust sérlega vel og var almenn ánægja með þetta nýja fyrirkomulag. Forskólatónleikarnir verða því með sama sniði nú. Á tónleikunum koma fram alls um 255 börn og unglingar, þar af um 220 forskólanemendur.

Forskólatónleikar

Dagur Tónlistarskólanna

Tónlistarskólar landsins eru um 90 talsins. Í þeim fer fram gríðarlega fjölbreytt og öflugt starf og á hátíðisdegi þeirra, Degi tónlistarskólanna, efna skólarnir til ýmiskonar viðburða til að vekja athygli á starfsemi sinni. Markmiðið er að auka sýnileika og styrkja tengsl tónlistarskólanna við nærsamfélagið. Dagur tónlistarskólanna er haldinn annan laugardag í febrúar ár hvert, sem nú ber upp á 13. febrúar.

Dagskrá skólans fer fram í Hljómahöllinni og hefst í Rokksafninu kl.10.30 með sérstakri dagskrá fyrir Forskóla 2 og aðstandendur þeirra. Forskólinn heldur þar stutta tónleika við undirleik kennarahljómsveitar og síðan fá forskólanemendur  hljóðfærakynningar og prufutíma á hljóðfæri á efri hæð Tónlistarskólans til kl.12. Frá kl.13.00 -16.15 verður keppni í tónfræði milli tónfræðibekkja á barna og unglingastigi. Keppnin fer fram í Stapa. Inn á milli verða stuttir tónleikar, eða ör-tónleikar, í Bergi á hverjum heila tíma. Tónver skólans verður opið frá 13-16 og gefst gestum kostur á að skoða verið og forvitnast um starfsemi þess. Kaffihús Strengjadeildar verður starfrækt frá kl.11 – 16 en í boði verða veitingar á vægu verði. Ágóðinn rennur í ferðasjóð deildarinnar. Dagskrá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar á Degi tónlistarskólanna er hér fyrir neðan.

DagurTónlsk.16