Svæðistónleikar Nótunnar

S.l. laugardag fóru fram Svæðistónleikar Nótunnar, eins og kemur fram hér á vefsíðunni. Við unnum ekki til verðlauna að þessu sinni, en nemendur skólans stóðu sig mjög vel og atriðin okkar, sem voru öll glæsileg, voru nemendum og skólanum til mikils sóma.

Svæðistónleikar Nótunnar uppskeruhátíðar tónlistarskóla

Á morgun, laugardaginn 16. mars, verður fyrri hátíð Nótunnar uppskeruhátíðar tónlistarskóla, sem eru svæðistónleikar fyrir svæðið Suðurnes, Suðurland og Kragann svokallaða. Tónleikarnir, sem verða tvennir, verða á sal Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi.

Fyrri tónleikarnir hefjast kl.12.00 og eru fyrir atriði í grunnnámi og hluta af miðnámi.                                                                                                                                                                      Seinni tónleikarnir hejast kl. 13.45 og eru fyrir atriði sem eftir verða í miðnámi og öll framhaldsnámsatriðin.

Frá okkur á fyrri tónleikana fer  Hljómsveitin Góugæjar, sem er djasshljómsveit og spilar í flokknum samleikur í grunnnámi. Hljómsveitin mun flytja lag Herbie Hancock, Cantaloupe Island. Góugæjar er þannig skipuð: Aron Daniel W. van Gooswilligen á rafbassa, Brynjar Steinn Haraldsson Rhodes-píanó, Guðmundur Marinó Herbertsson á trommur og Isaac Þór Derrick Jameson á rafgítar.

Frá okkur á seinni tónleikana fer Lúðrasveit skólans C/D sveitin (elsta sveitin), um 40 manna hópur,  sem spilar í flokknum samleikur í miðnámi. Lúðrasveitin mun spila Pirates og the Caribbean: At World´s End. Stjórnandi er Karen J. Sturlaugsson og aðstoðarstjórnadi er Þorvaldur Halldórsson.

Á seinni tónleikana fer einnig frá okkur eldra Gítarsamspil skólans sem spilar lag með suðrænni sveiflu, Tamacun, eftir Rodrigo Y. Gabriela.   Á klassíska gítara eru Arnar Freyr Valsson, Díana Lind Monzon, Helena Rós Gilbert, Isaac Þór Derrick Jameson og Jóna Kristín Jónsdóttir. Á rafbassa er Ástþór Sindri Baldursson og á cajontrommu spilar Þórhallur Arnar Vilbergsson.  Stjórnandi er Þorvaldur Már Guðmundsson

Allir eru velkomnir á báða tónleikana og aðgangur er auðvitað ókeypis.

Tónleikar lengra kominna nemenda

Hinir árlegu „Tónleikar lengra kominna nemenda“ verða haldnir í Stapa, Hljómahöllinni, fimmtudaginn 14. mars.

Að þessu sinni verður um tvenna tónleika að ræða. Þeir fyrri verða kl.18.00 og þeir seinni kl.20.00.

Efnisskrár verða mjög fjölbreyttar, bæði einleikur, einsöngur og samleikur af ýmsu tagi.

Aðgangur er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.

Að loknum Forskólatónleikum

Frábærri tveggja daga tónleikaröð Forskóla 2, Lúðrasveitarinnar og Strengjasveitarinnar lauk í gærkvöldi með Stór-konsert í Íþróttamiðstöð Njarðvíkur.

S.l. mánudag og í gær, þriðjudag, fór lúðrasveitin og strengjasveitin á milli allra 6 grunnskóla Reykjanesbæjar þar sem Forskóli 2 (nemendur í 2. bekk) í hverjum skóla hélt 30 mínútna tónleika við undirleik hljómsveitanna. Svo komu allir saman í Íþróttamiðstöðinni í gærkvöldi, um 200 forskólanemendur (forskóli 2), lúðrasveitin og strengjasveitin, alls 250 nemendur, til að ljúka þessari tónleikaröð með stór-tónleikum. Áheyrendur  troðfylltu Íþróttamiðstöðina og var mikil gleði á áheyrendapöllunum, enda tókust tónleikarnir sérlega vel.

Tónlistarskólinn þakkar öllum sem komu að tónleikunum, bæði nemendum og kennurum, sem og öðrum stofnunum og fyrirtækjum í Reykjanesbæ sem lögðu sitt af mörkum.