Dagur tónlistarskólanna – Hátíðartónleikar og Nótan

„Nótan – uppskeruhátíð tónlistarskóla“, er samstarfsverkefni Félags tónlistarskólakennara, Félags íslenskra hljómlistarmanna og Samtaka tónlistarskólastjóra. Nótan er hugsuð sem ný vídd í starfsemi tónlistarskóla og að hún sé í senn faglega hvetjandi og skemmtilegt innlegg í skólastarfið. Nótan hefur verið haldin árlega síðan 2010 og þetta er því í þriðja sinn sem hátíðin er haldin.                     
Tónlistarskólar landsins eru um níutíu talsins. Þar fer fram gríðarlega fjölbreytt og öflugt starf og með „Nótunni-uppskeruhátíð tónlistarskóla“, er kastljósinu beint að þessum samfélögum og tónlistarnemendum veittar viðurkenningar fyrir afrakstur vinnu þeirra. Markmiðið er að auka sýnileika og styrkja tengsl tónlistarskóla við umhverfi sitt.
„Nótan-uppskeruhátíð tónlistarskóla“ er þrískipt og skipulögð þannig að allir tónlistarskólar á landinu geti tekið þátt. Efnisskrá Nótunnar endurspeglar því á landsvísu, ólík viðfangsefni tónlistarnemenda á öllum aldri og á öllum stigum tónlistarnáms.
Fyrsti hlutinn felst í því að tónlistarskólar sem ætla að taka þátt, velja þau atriði sem þeir ætla að senda í annan hluta Nótunnar, sem eru tónleikar þess landsvæðis sem viðkomandi tónlistarskóli tilheyrir. Skólarnir framkvæma þennan fyrsta hluta með mismunandi hætti,  allt eftir því hvað hentar hverjum skóla. Á svæðistónleikunum velur síðan valnefnd á vegum Nótunnar þau atriði sem fara áfram í þriðja og síðasta hlutann, sem eru lokatónleikar eða lokahátíð Nótunnar.
Tónlistarskóli Reykjanesbæjar mun taka þátt í Nótunni 2012 og þetta er í annað sinn sem skólinn tekur þátt. Okkar svæði er Suðurnes, Suðurland og svæðið umhverfis höfuðborgina, það sem gjarnan er kallað „Kraginn“.                                                                                                                                                                       
Fyrsti hlutinn fer fram, eins og áður segir,  innan skólanna sjálfra og mun  Tónlistarskóli Reykjanesbæjar að þessu sinni framkvæma þann hluta með Hátíðartónleikum á sal Fjölbrautaskóla Suðurnesja, laugardaginn 25. febrúar sem er hinn árlegi Dagur tónlistarskólanna. Tónleikarnir hefjast kl.14.00. 

Á Hátíðartónleikunum mun valnefnd úr röðum kennara velja þau atriði sem skólinn sendir til þátttöku í svæðistónleikunum, sem verða haldnir í Salnum í Kópavogi, sunnudaginn 11. mars. Þriðji og síðasti hluti „Nótunnar-uppskeruhátíðar tónlistarskólanna“, verður í salnum Eldborg í  Hörpu, sunnudaginn 18. mars n.k.
Þeir sem vilja vita meira um Nótuna, geta farið á vefsíðu verkefnisins, www.notan.is.

Þemavikan í gangi

Nú er yfirstandandi hin árlega „Þemavika“ í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.
Skapast hefur um það hefð í skólanum að síðasta vika febrúarmánaðar sé þemavika og er febrúarmánuður ætíð nýttur m.a. til að vinna að undirbúningi hennar.
Að þessu sinni er þemað það að hefbundin kennsla er brotin upp með ýmsum hætti og hefur hugmyndavinna kennara og nemenda blómstrað sem aldrei fyrr við að skapa nýja fleti á náminu og við að sjá leiðir til gagnlegrar og skemmtilegrar tilbreytingar frá hinu daglega, hefðbundna tónlistarnámi.
Nokkrir tónleikar verða haldnir í vikunni, nemendur heimsækja leikskóla og fleiri stofnanir, nemendur taka þátt í námsstöðvum með kennurum sínum, mörg samspil milli deilda skólans hafa verið sett saman í tilefni þemavikunnar, fyrirlestar og masterklass-tímar verða haldnir og Geimsteinn- safnið og upptökuheimilið heimsótt, svo eitthvað sé nefnt.
Það myndast alltaf mikið líf og fjör í kring um þemavikuna og að þessu sinni er þar engin undantekning á.

Tónleikar á Þorranum

Rytmíska deild Tónlistarskóla Reykjanesbæjar stendur fyrir tónleikum í Frumleikhúsinu við
Vesturbraut föstudaginn 10. febrúar kl.20.00.
Á tónleikunum koma fram tvær hljómsveitir innan rytmísku deildarinnar, sem leika rokk-,  popp- og blústónlist og svo Léttsveit Tónlistarskólans. Stjórnendur á tónleikunum eru Eyþór Ingi Kolbeins og Karen Janine Sturlaugsson.

Léttsveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar hefur þegið boð um að halda þrenna tónleika á næstu  ISME ráðstefnu, sem haldin verður í borginni Þessaloniki á Grikklandi, dagana 15. – 20. júlí n.k.           ISME, eða International Society of Music Education, eru ein elstu og virtustu alþjóðasamtök um tónlistarmenntun og tónlistarkennslu í heimi. Samtökin, sem voru stofnuð árið 1953 af UNESCO, standa reglulega fyrir menntaráðstefnum og eru þær ávallt fjölsóttar af tónlistarkennurum, skólastjórum og öðrum sem vinna að eða tengjast menntamálum í tónlist á einhvern hátt. Fáir íslenskir tónlistarskólar eða skólahópar hafa í gegn um tíðina fengið boð um tónleikahald á ISME ráðstefnu og þetta boð er því afar mikill heiður fyrir Tónlistarskólann og bæjarfélagið okkar.

Efnisskrá tónleikanna í Frumleikhúsinu á föstudaginn, verður afar fjölbreytt og spennandi.
Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.

Foreldraviðtöl

Síðari formlegu foreldraviðtöl vetrarins, hefjast n.k. mánudag, 6. febrúar og standa yfir alla vikuna. Forráðamenn nemenda undir 18 ára aldri eiga að vera búnir á fá viðtalstíma hjá umsjónarkennara (hljóðfæra-/söngkennara).

Forráðamenn nemenda eru eindregið hvattir til að nýta sér þetta tækifæri.

Nótan – Uppskeruhátíð tónlistarskóla

Tónlistarskóli Reykjanesbæjar mun taka þátt í Nótunni-Uppskeruhátíð tónlistarskóla 2012.

Nótan – uppskeruhátíð tónlistarskóla, er samstarfsverkefni Félags tónlistarskólakennara, Félags íslenskra hljómlistarmanna og Samtaka tónlistarskólastjóra. Uppskeruhátíðin er hugsuð sem ný vídd í starfsemi tónlistarskóla og að hún sé í senn faglega hvetjandi og skemmtilegt innlegg í starfsemi þeirra. Nótan hefur verið haldin árlega síðan 2010 og þetta er því í þriðja sinn sem hátíðin er haldin. 

Tónlistarskólar landsins eru um níutíu talsins. Þar fer fram gríðarlega fjölbreytt og öflugt starf og með hátíðinni er kastljósinu beint að þessum samfélögum og tónlistarnemendum veittar viðurkenningar fyrir afrakstur vinnu þeirra. Markmiðið er að auka sýnileika og styrkja tengsl tónlistarskóla við umhverfi sitt.

Uppskeruhátíðin er þrískipt og skipulögð þannig að allir geti tekið þátt. Þátttakendur eru frá öllu landinu,  á öllum aldri og efnisskráin endurspeglar ólík viðfangsefni tónlistarnemenda á öllum stigum tónlistarnáms.

Þetta er í annað sinn sem Tónlistarskóli Reykjanesbæjar tekur þátt í Nótunni. Eins og segir hér að ofan er Nótan þrískipt. Fyrsti hlutinn felst í því að tónlistarskólar sem ætla að taka þátt, velja þau atriði sem þeir ætla að senda í annan hluta Nótunnar, sem eru svæðistónleikar. Skólarnir framkvæma þann þátt með mismunandi hætti, allt eftir því hvað sem hentar hverjum skóla. Á svæðistónleikunum velur valnefnd síðan þau atriði sem fara áfram í þriðja hlutann, sem eru lokatónleikar eða lokahátíð Nótunnar. 

Nánar hér:

Okkar svæði er Suðurnes, Suðurland og svæðið umhverfis höfuðborgina, það sem gjarnan er kallað „Kraginn“. Fyrsti hlutinn fer sem sagt fram innan skólanna sjálfra og  Tónlistarskóli Reykjanesbæjar mun að þessu sinni framkvæma þann hluta með Stór-tónleikum á sal Fjölbrautaskóla Suðurnesja, laugardaginn 25. febrúar, sem er hinn árlegi Dagur tónlistarskólanna.  Á þeim tónleikum mun valnefnd úr röðum kennara velja þau atriði sem skólinn sendir til þátttöku í öðrum hluta Nótunnar, sem eru svæðistónleikar, haldnir í Salnum í Kópavogi, sunnudaginn 11. mars. Á þeim tónleikum mun valnefnd á vegum Nótunnar velja atriði til þátttöku  í þriðja og síðasta hluta Nótunnar, sjálfum Lokatónleikum Nótunnar, sem verða haldnir í salnum Eldborg í  Hörpu, sunnudaginn 18. mars. 

Við viljum benda þeim sem vilja fræðast betur um Nótuna, á vefsíðu verkefnisins, www.notan.is  Síðan er áhugasömum bent á að fylgjast vel með framvindu mála hjá okkur og við vonumst til þess að Víkurfréttir fjalli um þetta skemmtilega verkefni. Þar munu birtast auglýsingar og einnig verður umjöllun hér á vefsíðu okkar.

 

Námskeið

Í kennsluvikunni 6. – 10. febrúar n.k. hefjast námskeiðin sem auglýst voru í Víkurfréttum þann 26. janúar s.l.  Um er að ræða námskeið í hljómaslætti á gítar („vinnukonugrip“) og námskeið í píanó- eða hljómborðsleik.  Gítarnámskeiðið stendur yfir í 8 vikur en píanó-/hljómborðsnámskeiðið í 6 vikur.  Umsóknarfresti er að ljúka, svo nú fer hver að verða síðastur að skrá sig.