Author: hah
Óperustúdíó
Óperufélagið Norðuróp er að setja á laggirnar Óperustúdíó í samvinnu við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.
Óperustúdíó er þjálfun fyrir efnilega óperusöngvara sem eru langt komnir í námi eða eru útskrifaðir einsöngvarar sem vilja bæta við sig þjálfun í sviðsframkomu og læra að undirbúa óperu- og söngleikjahlutverk og flytja á sviði undir leiðsögn fagfólks.
Norðuróp og Tónlistarskóli Reykjanesbæjar hafa átt farsælt samstarf síðustu ár og sett upp nokkrar mjög vel heppnaðar sýningar saman: Brúðkaup Fígarós, Fiðlarinn á þakinu, Mozart Requiem og Verdi Requiem. Í öllum þessum uppfærslum hafa fjölmargir nemendur og kennarar skólans ásamt nemendum annars staðar að af landinu, sem og faglærðir söngvarar tekið þátt og öðlast mikla reynslu.
Í tengslum við Óperustúdíóið verður Hátíðarkór Norðuróps sem starfar í tvo mánuði á hverju hausti í tengslum við stærri verkefni sem kalla á stóran og öflugan blandaðan kór.
Tveir aðal kennarar munu starfa við Óperustúdíóið:
Jóhann Smári Sævarsson óperusöngvari: Óperusöngkennsla, leiklist og túlkun.
Antonia Hevesi, píanóleikari: Óperuþjálfun („coach“) og æfingapíanisti.
Í boði eru fjórar þátttökuleiðir:
Óperustúdíó – Leið 1.
Ætlað sem valkvætt nám fyrir söngnemendur Tónlistarskóla Reykjanesbæjar (TR):
Gjald, sér fyrir Óperustúdíóið, er kr. 35.110 fyrir skólaárið 2024-2025.
Nemendur sem hafa lokið miðprófi:
1. Óperustúdíó – Hóptími 120 mínútur á viku.
2. Hátíðarkór – Hóptími 2×120 mínútur á viku. Starfar frá september – nóvember ár hvert.
Nemendur sem hafa lokið grunnprófi:
1. Hátíðarkór – Hóptími 2×120 mínútur á viku. Starfar frá september – nóvember.
Óperustúdíó – Leið 2.
Ætlað þeim sem hafa lokið framhaldsprófi í söng. Þátttakendur sem eru ekki nú þegar nemendur Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, verða skráðir nemendur í söng við skólann.
Gjald: Skólagjöld við söngdeild TR skv. gjaldskráTR/Reykjanesbæjar, auk sér gjalds fyrir Óperustúdíóið sem er kr. 35.110 fyrir skólaárið 2024-2025.
1. Tveggja ára kúrs.
2. Valkvætt nám fyrir nemendur Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.
3. Óperustúdíó – Hóptími 120 mínútur á viku.
4. Hátíðarkór – Hóptími 2×120 mínútur á viku. Starfar frá september – nóvember.
5. Vikulegur söngtími hjá Jóhanni Smára Sævarssyni í tvö skólaár.
6. Vikulegur meðleikstími í tvö skólaár.
Óperustúdíó – Leið 3.
Ætlað söngvurum sem lokið hafa námi sínu og nemendum LHÍ, sem og nemendum úr öðrum tónlistarskólum sem lokið hafa a.m.k. miðprófi og hafa áhuga á þátttöku í Óperustúdíóinu og/eða Hátíðarkórnum og eru hjá kennara í öðrum tónlistarskólum:
1. Tveggja ára kúrs.
2. Inntökupróf.
3. Þátttakendur eru skráðir í Óperustúdíó Norðuróps. Tengjast ekki Tónlistarskólanum.
4. Óperustúdíó – Hóptími 120 mínútur á viku.
5. Hátíðarkór – Hóptími 2×120 mínútur á viku. Starfar frá september – nóvember.
6. 60 mínútna söngtími hjá Jóhanni Smára Sævarssyni (val).
7. Óperuþjálfun/coaching hjá Antoniu Hevesi – 30 eða 60 mínútur (val).
Gjald sem greiðist skv. gjaldskrá Norðuróps:
• Óperustúdíó: Kr. 57.000 fyrir veturinn 2024-2025.
• Söngkennsla: Kr. 7.500 fyrir hvert skipti veturinn 2024-2025.
• Óperuþjálfun/coaching 30 mín.: Kr. 3.750 fyrir hvert skiptiveturinn 2024-2025.
• Óperuþjálfun/coaching 60 mín.: Kr. 7.500 fyrir hvert skiptiveturinn 2024-2025.
Óperustúdíó – Leið 4.
Ætlað söngnemendum sem lokið hafa a.m.k. miðprófi og mjög vönum kórsöngvurum.
Gjaldfrítt.
1. Hátíðarkór – 2×120 mínútur á viku. Starfar frá september – nóvember.
2. Inntökupróf.
Nánari upplýsingar:
Jóhann Smári Sævarsson: johannsaevarsson@hotmail.com
Vefsíða Tónlistarskóla Reykjanesbæjar:tonlistarskoli.reykjanesbaer.is
Lúðra- og strengjasveitanám og Söngleikjadeild
Lúðrasveitanám og Strengjasveitanám fyrir nemendur í 3. – 5. Bekk og Söngleikjadeild fyrir 9. Og 10. Bekk og framhaldsskóla aldur
Tónlistarskóli Reykjanesbæjar vill vekja athygli á því að skólinn býður upp á sérstakt lúðrasveitarnám og strengjasveitarnám fyrir byrjendur á blásturshljóðfæri og strengjahljóðfæri. Einnig vekjum við athygli á því að skólinn bíður einnig upp á söngleikjadeild ætlaða þeim sem hafa sérstakan áhuga á söngleikjum og sviðslistum.
Lúðrasveitarnámið (blásturshljóðfæri) og strengjasveitarnámið (fiðla, víóla og selló) er ætlað börnum sem eru í 3., 4. og 5. bekk í grunnskólum Reykjanesbæjar sem væru að sækja um nám við Tónlistarskólann í fyrsta sinn. Um er að ræða samfellt nám allt skólaárið en hljóðfæratímar verða styttri en venja er og skólagjöldin því töluvert lægri.
Auk þess sem nemendur læri á spila á blásturs- eða strengjahljóðfærið sem þeir velja sér, þá er markmiðið að þeir myndi lúðrasveit/strengjasveit sem allra fyrst og kynnist því hversu frábært það er að spila í tónlistarhópi.
Skólaárið sem nú er að hefjast, 2024-2025, er þriðja árið sem Tónlistarskólinn býður upp á sérstaka Söngleikjadeild. Það er deild sem hefur það að markmiði að þjálfa nemendur í leiklist, söng, túlkun og hreyfingum á söngleikjasviði. Námið hentar öllum sem hafa áhuga á söngleikjum og sviðslistum eins og áður segir og er mjög gagnlegt fyrir nemendur sem stefna á að taka þátt í söngleikjum eða nemendur sem hyggjast fara í leiklistarnám eðasöngleikjanám hérlendis eða erlendis. Deildin er tveggja ára nám og ætluð nemendum í 9. og 10. bekk í grunnskólum Reykjanesbæjar og nemendum í framhaldsskóla sem eru með lögheimili í Reykjanesbæ.
Nemendur fá söngkennslu einu sinni í viku og hóptíma einu sinni í viku en í þeim tíma er farið í sviðsframkomu og nemendum gefst tækifæri til að syngja saman í smærri eða stærri hóp þau lög sem verið er að vinna með hverju sinni. Nemendur fá svo undirleikstíma einu sinni í viku.
Á seinna námsárinu bætist við sérstakur nótnalesturstími einu sinni í viku. Ef nemendur vilja halda áfram námi eftir að söngleikjadeild lýkur, flytjast þeir sjálfkrafa yfir í almenna söngdeild.
Nánari upplýsingar eru á vefsíðu Tónlistarskólans tonlistarskoli.reykjanesbaer.is eða á skrifstofu skólans í síma 420-1400. Skrifstofan er opin virka daga frá kl. 9 -17 nema á föstudögum, en þá er hún opin frá 9-16.
Ennþá eru örfá pláss laus svo nú fer hver að verða síðastur að skrá sig í hvort sem værilúðrasveitarnámið eða strengjasveitarnámið (3., 4. og 5. bekkur) eða söngleikjadeildina (9. og 10. bekkur og framhaldsskólaaldur).
Skóladagatalið 2024-25
Nú fer að styttast í skólabyrjun og búast má við að kennarar hafi samband, hver við sína nemendur um miðja næstu viku (20.-23. ágúst). Kennsla hefst svo 26. ágúst.
Bendum líka á að skrifstofan hefur opnað og svarar öllum almennum spurningum í síma 420-1400 eða tölvupósti tonlistarskoli@tonrnb.is.
Skólaslit 2024
Skólaslit verða í Stapa, Hljómahöll, föstudaginn 31. maí kl.18.00.
Afhending áfangaprófsskírteina. Hvatningarverðlaun Íslandsbanka veitt. Tónlistaratriði.
Allir velkomnir.
Skólastjóri
Framhaldsprófs Tónleikar!
Núna á laugardaginn, 25. maí 2024 verða tvennir framhaldsprófstónleikar frá Tónlistarskólanum í Reykjanesbæ, en þeir eru hluti af framhaldsprófi nemenda. Báðir tónleikarnir verða í Bergi, sal Tónlistarskólans.
Klukkan 14:00 verða tónleikar Emilíu Söru Ingvadóttur, klarínett og með henni leika Mariia Ishchenko á píanó, Arnar Geir Halldórsson á selló og Sara Cvjetkovic á píanó.
Klukkan 16:00 verður Eygló Ósk Pálsdóttir, klarínett með sína tónleika og með henni leika Mariia Ishchenko á píanó, Jakob Piotr Grybos á píanó og Rozalia Miethus á fiðlu.
Það eru að sjálfsögðu allir velkomnir og gengið inn um inngang Tónlistarskólans.
Framhaldstónleikar Jakob Grybos
Föstudaginn 17. maí kl. 17:00 mun Jakob Grybos halda framhaldstónleika sína í Bergi.
Allir velkomnir!
Fiðlu- og píanó tónleikar í Bergi, 16. apríl 2024
Tónlistarskóli Reykjanesbæjar stendur fyrir fiðlu- og píanótónleikum í Bergi, Hljómahöll, þriðjudaginn 16. apríl kl.19:30. Fram koma Joaquín Páll Palomares fiðluleikari og Sebastiano Brusco píanóleikari. Á efnisskránni eru verk eftir W.A. Mozart, B. Bartók, F. Chopin, V. Monti og C. Franck.
Við hvetjum alla eindregið til að mæta á þessa frábæru tónleika. Um er að ræða einstakt tækifæri, aðgangur er ókeypis og allir velkomnir. Gengið inn um inngang Tónlistarskólans.
Páll Palomares, sem er ættaður héðan úr Reykjanesbæ, er einn af fremstu fiðluleikurum landsins. Hann hóf fiðlunám sex ára gamall undir handleiðslu foreldra sinna, Unnar Pálsdóttur og Joaquín Palomares. Hann gegnir nú stöðu leiðara 2. fiðlu í Sinfóníuhljómsveit Íslands en áður gegndi hann sömu stöðu hjá Randers Kammerorkester í Danmörku. Páll hefur leikið fjölda einleikskonserta með hljómsveitum á íslenskri og erlendri grundu og ber þar hæst að nefna fiðlukonserta eftir Sibelius og Tchaikovski með Sinfóníuhljómsveit Íslands, fiðlukonsert Brahms með Sinfóníuhljómsveit Árósa, fiðlukonsert eftir Beethoven með Sinfóníuhljómsveit Torrevieja, fiðlukonsert eftir Mozart með Orquesta Sinfónica de la Región de Murcia og Árstíðirnar eftir Vivaldi með Orchestra Femminile Italiana. Páll er jafnframt virkur í kammertónlist og hefur haldið tónleika á Íslandi og víða í Evrópu.
Páll hefur hlotið margvísleg verðlaun á ferli sínum. Hann var sigurvegari íslensku keppninnar ,,Ungir einleikarar” árið 2007, hlaut verðlaun í alþjóðlegu keppninni ,,Danish String Competition” árið 2014 auk fjölda annarra verðlauna. Páll lauk meistaragráðu og síðar einleikaranámi við Konunglega Tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn árið 2018 og bakkalárgráðu frá hinum virta Hochschule für Musik „Hanns Eisler“ í Berlín árið 2013.
Páll leikur á fiðlu smíðaða af Nicolas Gagliano árið 1761.
Sebastiano Brusco píanóleikari er fæddur í Róm. Hann hóf tónlistarnám mjög ungur og miklir tónlistarhæfileikar hans komu fljótt í ljós og snemma á námsferlinum fékk hann sérstaka viðurkenningu frá F. Morlacchi tónlistarskólanum í Perugia á Ítalíu, þar sem hann stundaði nám. Sebastiano hefur unnið til margra verðlauna, bæði í heimalandinu sem og víðar, og má þar nefna fyrstu verðlaun í Carlo Soliva alþjóðlegu keppninni (1998), fyrstu verðlaun í Gubbio Festival keppninni, verðlaun í keppninni “Provincia di Caltanissetta”, auk margra annarra.
Hann hefur komið víða fram sem einleikari með sinfóníuhljómsveitum víða um heim og leikið undir stjórn hljómsveitarstjóra á borð við R. Chailly, C. Scimone, R. Hickox, F. Totan, R. Gandolfi og V. Antonellini.
Sebastiano hefur gefið út geisladisk með öllum “impromptus” verkunum fyrir einleikspíanó eftir F. Schubert og er þessa dagana að taka upp allar ballöður F. Chopin og nokkrar noktúrnur, etýður og pólónesur eftir sama tónskáld.
Tónlistarskólinn á fullu!
Helgina 9. til 10. mars var mikið um að vera hjá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.
Á laugardeginum var margt um manninn í skólanum þar sem þrjú stór verkefni voru í gangi í einu.
Forskóli 2, sem eru sjö ára börn úr grunnskólum Reykjanesbæjar, héldu stutta tónleika kl.10:30 í Rokksafni Íslands við undirleik hljómsveitar sem skipuð var kennurum skólans, fyrrum nemendum sem komnir eru á háskólastig í tónlist og núverandi nemendum sem eru langt komnir í tónlistarnámi sínu. Að tónleikunum loknum fóru forskólanemendurnir yfir í Tónlistarskólann þar sem þeir fengu verklega kynningu á þeim hljóðfærum sem eru í boði fyrir unga nemendur að læra á. Það voru meðlimir hljómsveitarinnar sem sáu um hljóðfærakynninguna sem er alltaf mikil upplifun forskólanemendurna. Þessi dagskrá stóð til kl. 12:15.
Á sama tíma og fram til kl.13:00 var sérstakur æfingadagur hjá Lúðrasveit B þar sem lögð var áhersla á tónlist fyrir þau verkefni sem framundan voru hjá sveitinni á þessari önn, m.a. Stórtónleikar með Forskóla 2 í Stapa sem haldnir þann 21. mars n.k.
Þriðja verkefnið sem var í gangi í Tónlistarskólanum á þessum fyrri hluta laugardagsins var Masterklass á vegum píanódeildar skólans fyrir lengst komnu nemendur deildarinnar. Það var enginn annar en Peter Maté píanóleikari sem hlustaði á sjö nemendur flytja verk eftir F. Chopin, E. Grieg, J.S. Bach og W.A. Mozart, og leiðbeindi hverjum og einum nemanda að loknum flutningi og gaf góð ráð. Kennarar píanódeildarinnar voru sömuleiðis viðstaddir því alltaf er gott að heyra og sjá aðra vinna með nemendum.
Fjórða verkefni dagsins var þátttaka gítarsveita skólans í hinum árlega “Gítarsveitadegi”. Gítarsveitadagurinn er árlegt samstarfsverkefni Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og nokkurra tónlistarskóla á höfuðborgarsvæðinu og að þessu sinni var dagurinn haldinn í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar, með tónleikum í lok dags í Víðistaðakirkju. Að þessu sinni var fenginn erlendur gestakennari, Matthew McAllister, til að vinna með gítarsveitunum ásamt gítarkennurum viðkomandi tónlistarskóla og tónleikarnir í Viðistaðakirkju voru að venju glæsilegir.
Á sunnudeginum tók svo Léttsveit Tónlistarskólans þátt í “Stórsveitamaraþoni” sem Stórsveit Reykjavíkur stendur fyrir á hverju ári. Maraþonið fór fram í salnum Flóa í Hörpu og var gerður góður rómur að leik Léttsveitarinnar sem flutti þar fjögur hressileg lög í glæsilegum stórsveitaútsetningum.
Við í Tónlistarskólanum erum heldur betur stolt og ánægð með hversu duglegir nemendur okkar eru, hvort heldur er að spila fyrir okkar fólk og styrkja böndin innan skólans, læra nýja hluti og reyna að bæta okkur, taka þátt í samstarfsverkefnum við nágranna og vini eða koma fram utan skólans í stórum tónleikahúsum. Þó það séu ekki allar helgar svona rosalega viðburðarríkar má samt með sanni segja að það sé nóg um að vera hjá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.