Frá og með næsta skólaári, 2022-2023, munum við bjóða upp á þrjár nýjar námsleiðir. Annars vegar er það sérstakt lúðrasveitarnám fyrir byrjendur á blásturshljóðfæri og hins vegar tvær nýjar leiðir innan klassískrar söngdeildar.
Lúðrasveitarnám.
Lúðrasveitarnámið á blásturshljóðfæri (áður „kynningarnám“) er ætlað
börnum sem eru í 3. og 4. bekk í grunnskólum Reykjanesbæjar og eru að sækja um nám við
Tónlistarskólann í fyrsta sinn. Hljóðfærin sem í boði verða eru
málmblásturshljóðfæri (trompet, althorn, baritónhorn, básúna, túba) og tréblásturshljóðfæri (þverflauta, klarinett,
saxófónn).
Um er að ræða samfellt nám allt skólaárið en
hljóðfæratímar verða styttri en venja er, eða
2 x 20 mínútur á viku, sem er 60% af hefðbundinni lengd
kennslustunda í hljóðfæranámi og Tónlistarskólinn mun útvega nemendum hljóðfæri
þeim að kostnaðarlausu.
Auk þess að nemendur læri á
leika á það blásturshljóðfæri sem þeir velja sér, þá er markmiðið er að
nemendur myndi lúðrasveit á haustönninni og kynnist því að vinna í
tónlistarhópi og þeirri ábyrgð og tillitssemi sem því fylgir. Þegar að því kemur bætist
lúðrasveitaræfing við hljóðfæranámið, 1 sinni í
viku í 45 mínútur í senn, utan skólatíma.
Umsóknir eru hér á vefsíðu skólans undir flipanum „Endurnýjun
og nýjar umsóknir“.
Fylla þarf umsóknina vandlega út og skrifa „Lúðrasveitarnám“ í athugasemdir.
Vakin skal athygli á
því að ekki er um mjög mörg pláss að ræða.
Innritað er fyrir allt
skólaárið og verða námsgjöld alls kr. 60.000 fyrir veturinn.
Umsóknarfrestur er til og með 31. ágúst n.k.
Nánari upplýsingar veitir skrifstofa Tónlistarskólans í síma 420-1400 frá kl. 9-17
eða í tölvupósti á tonlistarskoli@tonrnb.is
Söngleikjadeild.
Tónlistarskólinn mun bjóða upp á sérstaka deild sem hefur það að markmiði að þjálfa nemendur í leiklist, söng og hreyfingum á söngleikjasviði. Námið hentar öllum sem hafa áhuga á söngleikjum og sviðslistum og er einstaklega gagnlegt fyrir nemendur sem stefna á að taka þátt í söngleikjum sem settir eru upp í bæjarfélaginu eða nemendur sem hyggjast fara í leiklistarnám eða söngleikjanám hérlendis eða erlendis. Söngleikjadeildin er ætluð nemendum í 9. og 10. bekk grunnskóla og nemendum í framhaldsskóla og eru með lögheimili í Reykjanesbæ.
Söngleikjadeildin er tveggja ára nám. Nemendur fá söngkennslu einu sinni í viku í 30 mínútur. Síðan er hóptími einu sinni í viku í 60 mínútur þar sem farið verður í sviðsframkomu og nemendum gefst tækifæri til að syngja saman í smærri eða stærri hóp þau lög sem verið er að vinna með í hvert skipti. Nemendur fá undirleikstíma einu sinni í viku til að æfa lög sem verið er að vinna með.
Á seinna árinu bætist nótnalestur við í 20 mínútur á viku. Í þeim kennslustundum verður farið í undirstöðuatriði í nótnalestri.
Ef nemendur vilja halda áfram námi eftir að Söngleikjadeild lýkur, flytjast þeir sjálfkrafa yfir í almenna söngdeild.
Umsóknir eru hér á vefsíðu skólans undir flipanum „Endurnýjun og nýjar umsóknir“.
Fylla þarf umsóknina vandlega út.
Haka skal við „Klassískt nám“ og skrifa síðan „Söngleikjadeild“ í athugasemdir.
Umsóknarfrestur er
til og með 19. ágúst n.k.
Nánari upplýsingar veitir
skrifstofa Tónlistarskólans í síma 420-1400 frá kl. 9-17
eða í tölvupósti á tonlistarskoli@tonrnb.is Innritað er fyrir eitt skólaár í senn.
Námsgjald fyrir skólaárið er kr.70.000 sem Reykjanesbær innheimtir í gegn um heimabanka.
Skipta má gjaldinu í 3 greiðslur.
Kórdeild.
Um er að ræða sérstaka deild ætlaða einstaklingum, óháð aldri, sem eru í kór eða hafa áhuga á því að vera í kór og vilja auka við söngkunnáttu sína og bæta raddbeitingu. Nemendur þurfa að hafa lögheimili í Reykjanesbæ.
Nemendur Kórdeildar fá einkatíma í söng einu sinni í viku í 30 mínútur og kennslu í nótnalestri einu sinni í viku í 20 mínútur, en þar verður lögð áhersla á undirstöðuatriði í að lesa hryn og tónferli. Kórdeild er eins árs nám. Ef nemendur vilja halda áfram námi eftir að kórdeildarnámi lýkur, flytjast þeir sjálfkrafa yfir í almenna/klassíska söngdeild.
Umsóknir eru hér á vefsíðu skólans undir flipanum „Endurnýjun og nýjar umsóknir“.
Fylla þarf umsóknina vandlega út.
Haka skal við „Klassískt nám“ og setja síðan „Kórdeild“ í athugasemdir.
Umsóknarfrestur er
til og með 31. ágúst n.k.
Nánari upplýsingar veitir
skrifstofa Tónlistarskólans í síma 420-1400 frá kl.9-17 virka daga.
Innritað er fyrir allt skólaárið.
Námsgjald fyrir skólaárið er kr. 48.000 sem Reykjanesbær innheimtir í gegn um heimabanka.
Skipta má gjaldinu í 3 greiðslur.