Almennt.
Nám í söng (klassískum einsöng) getur hafist þegar nemendur hafa náð vissum líkamlegum og andlegum þroska og raddir nemenda hafa náð stöðugleika eftir breytingar gelgjuskeiðsins. Meðalaldur byrjenda telst 16-18 ár, en er þó mjög einstaklingsbundið.
Nýr umsækjandi þarf að fara í raddprufu og tónheyrnarprufu til söngkennarans, sem metur það síðan hvort viðkomandi á erindi í söngnám eða ekki.
Námi í einsöng fylgja aðrar námgreinar, sem skylda er að sækja.
Sjá “Söngtímar – Tónfræðagreinar” og “Aðrar námsgreinar”
Tónlistarskóli Reykjanesbæjar starfar samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla, útg. af menntamálaráðuneytinu og skólinn er jafnframt aðili að Prófanefnd tónlistarskóla.
Frá árinu 2015 hefur skólinn boðið upp á nám í rytmískum söng sem er djass- og dægurlagasöngur. Námið er ætlað nemendum frá 12 ára aldri og þurfa umsækjendur að mæta í raddprófun áður en skólavist er staðfest. Auk þess sem nemendur læra raddtækni og fleira því tengt, er m.a. kennt að syngja í hljóðnema (míkrófón).
Nemendur í rytmískum söng tilheyra rytmísku deild skólans og munu því taka þátt í þeim hljómsveitum sem starfræktar eru innan deildarinnar þegar þeir hafa orðið kunnáttu til þess.
Námsmat.
Námi í tónlistarskóla er skipt niður í þrjá námsáfanga: Grunnnám – Miðnám – Framhaldsnám.
Við lok hvers námsáfanga eru tekin áfangapróf: Grunnpróf – Miðpróf – Framhaldspróf. Nokkur námsár geta liðið á milli áfangaprófanna, þar sem nemendur þurfa að hafa náð ákveðinni tæknilegri færni og ákveðin námsefnisyfirferð þarf að vera að baki. Þessi próf eru metin af sérþjálfuðum prófdómurum á vegum Prófanefndar tónlistarskóla.
Þau námsár sem líða milli áfangaprófa, eru tekin skólapróf, svokölluð Árspróf. Allir nemendur þurfa að taka Árspróf.
Til þess að áfangapróf séu fullgild, þurfa nemendur að ljúka viðeigandi námi í tónfræðagreinum.
Söngtímar – Tónfræðagreinar.
Söngtímar (einkatímar) 2 x 30 mín. á viku
Eftirtaldar tónfræðagreinar eru skyldunámsgreinar í söngdeild skólans og þeim þarf að vera lokið í síðasta lagi skólaárið sem Framhaldspróf í einsöng er tekið, ef það á að teljast fullgilt próf. Framhaldspróf er undanfari háskólanáms í tónlist.
Tónfræðagreinum má dreifa niður á námsárin. Það er því ekki nauðsynlegt að stunda nám í þeim öllum í einu. Gott er að nýta námsráðgjöf skólans hvað varðar dreifingu námsgreina.
- Kjarni – samþætt nám í tónfræði og tónheyrn: 1 x 70 mín. á viku í grunn- og miðstigi. Lýkur með samræmdu Miðprófi í tónfræðagreinum.
- Tónheyrn á Framhaldsstigi: 1 x 60 mín. á viku. Tónheyrnarnám er öll námsárin
- Hljómfræði á Framhaldsstigi: 1 x 60 mín. á viku. Hljómfræðinám hefst að loknu Tónfæðinámi
- Tónlistarsaga: 1,5 klst. á viku. Tónlistarsögu má taka hvenær sem er á námstímanum. Athuga ber að tónlistarsaga er 2ja vetra nám.
Aðrar námsgreinar.
Eftirtaldar námsgreinar eru skyldunámsgreinar í söngdeild skólans og ber nemendum að stunda þær öll námsárin. Um dreifingu milli námsára er ekki að ræða.
- Opin söngdeild 2 klst. aðra hvora viku. Opin söngdeild er vinnufundur (hóptími) söngnemenda með söngkennurum og meðleikurum söngdeildar.
- Kór 1 klst. aðra hvora viku.
- Leiklist 1 klst. aðra hvora viku.