Kynningarnám á blásturshljóðfæri

ATH! Plássin á tréblásturshljóðfæri eru öll full, enn eru nokkur laus pláss á málmblásturshljóðfæri.
———————————————————————————————

Námið
Tónlistarskóli Reykjanesbæjar býður upp á sérstakt kynningarnám á blásturshljóðfæri skólaárið 2021-2022.  Námið er ætlað börnum sem verða í 3., 4. og 5. bekk í grunnskólum Reykjanesbæjar það skólaár og eru að sækja um nám við Tónlistarskólann í fyrsta sinn.
Hljóðfærin sem í boði verða eru bæði málmblásturshljóðfæri (trompet, althorn, baritónhorn, básúna og túba) og tréblásturshljóðfæri (þverflauta, klarinett og saxófónn).
Um er að ræða samfellt nám allt skólaárið en hljóðfæratímar verða ívið styttri en venja er, eða 2 x 20 mínútur á viku, sem er 60% af hefðbundinni lengd kennslustunda í hljóðfæranámi.

Lúðrasveit
Stefnt er að því að sá hópur sem skráir sig í kynninganámið myndi lúðrasveit eins fljótt og unnt er. Markmiðið er að það verði fyrir jól eða mjög fljótt á vorönninni. Þegar að því kemur bætist lúðrasveitaræfing við hljóðfæranámið, 1 sinni í viku, 45 mínútur í senn utan skólatíma. Æfingarnar fara fram í Tónlistarskólanum, Hljómahöll, Hjallavegi 2.

Umsókn
Nemendur sækja um blásturshljóðfæri sem þeir ákveða sjálfir hvað er af þeim hljóðfærum sem nefnd eru hér að ofan. En ef hljóðfærið hentar ekki barninu, t.d. vegna tannvöntunar eða annarra líkamlegra ástæðna, þá ráðleggja blásarakennarar Tónlistarskólans um val á hentugra hljóðfæri. Tónlistarskólinn útvegar nemendum hljóðfæri þeim að kostnaðarlausu.
Sótt er um á vef Tónlistarskólans tonlistarskoli.reykjanesbaer.is undir hnappnum „Endurnýjun og nýjar umsóknir“. Fylla þarf umsóknina vandlega út og skrifa Kynningarnám í Athugasemdir.

Innritun og námsgjald
Innritað er fyrir allt skólaárið eins og áður segir og verða námsgjöld alls kr. 60.000 fyrir veturinn. Skipta má gjaldinu í 4 greiðslur sem Reykjanesbær innheimtir í gegn um heimabanka.
Það skal tekið fram að fjöldi í kynningarnámið takmarkast við 35 nemendur alls. Það gæti því myndast biðlisti.
Nánari upplýsingar veitir skrifstofa Tónlistarskólans í síma 420-1400 eða í tölvupósti á tonlistarskoli@tonrnb.is
Skrifstofan er opin mánudaga til fimmtudaga frá kl. 9-17 og föstudaga frá kl. 9-16.