Lúðrasveitarnám
Lúðrasveitarnámið á blásturshljóðfæri (áður „kynningarnám“) er ætlað börnum sem eru í 3. og 4. bekk í grunnskólum Reykjanesbæjar og eru að sækja um nám við Tónlistarskólann í fyrsta sinn. Hljóðfærin sem í boði verða eru málmblásturshljóðfæri (trompet, althorn, baritónhorn, básúna, túba) og tréblásturshljóðfæri (þverflauta, klarinett, saxófónn).
Um er að ræða samfellt nám allt skólaárið en hljóðfæratímar verða styttri en venja er, eða
2 x 20 mínútur á viku, sem er 60% af hefðbundinni lengd kennslustunda í hljóðfæranámi og Tónlistarskólinn mun útvega nemendum hljóðfæri þeim að kostnaðarlausu.Auk þess að nemendur læri á leika á það blásturshljóðfæri sem þeir velja sér, þá er markmiðið er að nemendur myndi lúðrasveit á haustönninni og kynnist því að vinna í tónlistarhópi og þeirri ábyrgð og tillitssemi sem því fylgir. Þegar að því kemur bætist lúðrasveitaræfing við hljóðfæranámið, 1 sinni í viku í 45 mínútur í senn, utan skólatíma.
Umsóknir eru hér á vefsíðu skólans undir flipanum „Nýjar umsóknir“.
Fylla þarf umsóknina vandlega út og skrifa „Lúðrasveitarnám“ í athugasemdir.
Vakin skal athygli á því að ekki er um mjög mörg pláss að ræða. Innritað er fyrir allt skólaárið og verða námsgjöld alls kr. 65.000 fyrir veturinn.
Nánari upplýsingar veitir skrifstofa Tónlistarskólans í síma 420-1400 eða í tölvupósti á tonlistarskoli@tonrnb.is
Söngleikjadeild
Tónlistarskólinn býður upp á sérstaka deild sem hefur það að markmiði að þjálfa nemendur í leiklist, söng og hreyfingum á söngleikjasviði. Námið hentar öllum sem hafa áhuga á söngleikjum og sviðslistum og er einstaklega gagnlegt fyrir nemendur sem stefna á að taka þátt í söngleikjum sem settir eru upp í bæjarfélaginu eða nemendur sem hyggjast fara í leiklistarnám eða söngleikjanám hérlendis eða erlendis. Söngleikjadeildin er ætluð nemendum í 9. og 10. bekk grunnskóla og nemendum í framhaldsskóla sem eru með lögheimili í Reykjanesbæ.
Söngleikjadeildin er tveggja ára nám. Nemendur fá söngkennslu einu sinni í viku í 30 mínútur. Síðan er hóptími einu sinni í viku í 60 mínútur þar sem farið verður í sviðsframkomu og nemendum gefst tækifæri til að syngja saman í smærri eða stærri hóp þau lög sem verið er að vinna með í hvert skipti. Nemendur fá undirleikstíma einu sinni í viku til að æfa lög sem verið er að vinna með.
Á seinna árinu bætist nótnalestur við í 20 mínútur á viku. Í þeim kennslustundum verður farið í undirstöðuatriði í nótnalestri.
Ef nemendur vilja halda áfram námi eftir að Söngleikjadeild lýkur, flytjast þeir sjálfkrafa yfir í almenna söngdeild.
Umsóknir eru hér á vefsíðu skólans undir flipanum „Nýjar umsóknir“.
Fylla þarf umsóknina vandlega út.
Smella skal á „Söngur“ og síðan „Söngleikjadeild“.
Nánari upplýsingar veitir skrifstofa Tónlistarskólans í síma 420-1400 eða í tölvupósti á tonlistarskoli@tonrnb.is
Innritað er fyrir eitt skólaár í senn.
Námsgjald fyrir skólaárið er 75.135 sem Reykjanesbær innheimtir í gegnum heimabanka. Skipta má gjaldinu í 3 greiðslur.