Hljómsveitir

Að taka þátt í hljómsveitarstarfi er nauðsynlegur þáttur í tónlistarnámi þeirra sem stunda nám á hljómsveitarhljóðfæri, þ.e. strengjahljóðfæri, blásturshljóðfæri og slagverkshjóðfæri. Þess vegna þurfa allir nemendur Tónlistarskóla Reykjanesbæjar sem stunda nám á þau hljóðfæri, að stunda nám í viðeigandi hljómsveit. Enda er mælst til þess í aðalnámskrá tónlistarskóla, að svo sé.

  • Að vera í hljómsveit er skemmtilegt.
  • Nemendur í hljómsveit eru í góðum félagsskap og finna sig sem hluta af stórri heild sem hljómar vel.
  • Nemendur í hljómsveit eru þátttakendur í flutningi laga og tónverka sem þeir hefðu hugsanlega annars ekki tækifæri til að spila.
  • Nemendur í hljómsveit læra táknmál hljómsveitastjóra.
  • Nemendur í hljómsveit fara í ferðalög og halda tónleika á framandi slóðum.
  • Nemendur í hljómsveit öðlast ómetanlega reynslu og félagslegan þroska.

Hljómsveitir skólans eru; yngri og eldri strengjasveitir, yngri og eldri lúðrasveitir og yngri og eldri léttsveitir (Big-Band), ýmsar rokk- og jasshljómsveitir.

Lúðrasveit

Lúðrasveit skólans starfar í 3-4 deildum, eftir fjölda nemenda, aldri og getu. Sveitunum er skipt niður í A, B, C og D sveitir. A sveit er skipuð yngstu nemendunum en D sveit er skipuð elstu nemendunum og þeim sem eru lengst komnir í hljóðfæranámi sínu.

Lúðrasveitirnar halda formlega tónleika 2-3 sinnum á ári. Þar fyrir utan koma þær fram við hin margvíslegustu tækifæri, bæði innan sveitarfélagsins og utan. Á það sérstaklega við um D-sveitina, sem jafnframt þjónar hlutverki bæjarlúðrasveitar.

D-sveitin er alltaf með fjáröflun í gangi og tekur að sér ýmis verkefni sem aðilar greiða sérstaklega fyrir. Tilgangurinn er að skapa fjárhagslegan grundvöll fyrir tónleikaferðum innan lands sem utan. Sveitin hefur farið í nokkrar tónleikaferðir til útlanda, sem hafa allar heppnast sérlega vel.

Lúðrasveit er skyldugrein við skólann fyrir þá nemendur sem leika á blásturshljóðfæri (blokkflauta undanþegin) og slagverkshljóðfæri. Nemendur taka sæti í viðeigandi lúðrasveit þegar þeir hafa aldur og getu til.

Strengjasveit

Strengjasveit skólans starfar í 3 deildum og er nemendum skipt niður á þær eftir getu og aldri. Sveitunum er skipt niður í A sveit, B sveit og C sveit. A sveit er skipuð yngstu nemendunum, B sveit er skipuð eldri nemendum og C sveit er skipuð þeim nemendum sem eru lengst komnir í hljóðfæranámi sínu. Stundum er C sveitin í formi kammersveitar.

Strengjasveitin (-sveitirnar) heldur formlega tónleika 2 sinnum á ári. Þar fyrir utan kemur hún fram við ýmis önnur tækifæri.

Strengjasveitin hefur einu sinni farið í tónleikaferð til útlanda og heppnaðist hún mjög vel.

Strengjasveit er skyldugrein við skólann fyrir þá nemendur sem leika á strengjahljóðfæri (strokhljóðfæri). Nemendur taka sæti í viðeigandi sveit þegar þeir hafa aldur og getu til.