Á morgun, laugardaginn 16. mars, verður fyrri hátíð Nótunnar uppskeruhátíðar tónlistarskóla, sem eru svæðistónleikar fyrir svæðið Suðurnes, Suðurland og Kragann svokallaða. Tónleikarnir, sem verða tvennir, verða á sal Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi.
Fyrri tónleikarnir hefjast kl.12.00 og eru fyrir atriði í grunnnámi og hluta af miðnámi. Seinni tónleikarnir hejast kl. 13.45 og eru fyrir atriði sem eftir verða í miðnámi og öll framhaldsnámsatriðin.
Frá okkur á fyrri tónleikana fer Hljómsveitin Góugæjar, sem er djasshljómsveit og spilar í flokknum samleikur í grunnnámi. Hljómsveitin mun flytja lag Herbie Hancock, Cantaloupe Island. Góugæjar er þannig skipuð: Aron Daniel W. van Gooswilligen á rafbassa, Brynjar Steinn Haraldsson Rhodes-píanó, Guðmundur Marinó Herbertsson á trommur og Isaac Þór Derrick Jameson á rafgítar.
Frá okkur á seinni tónleikana fer Lúðrasveit skólans C/D sveitin (elsta sveitin), um 40 manna hópur, sem spilar í flokknum samleikur í miðnámi. Lúðrasveitin mun spila Pirates og the Caribbean: At World´s End. Stjórnandi er Karen J. Sturlaugsson og aðstoðarstjórnadi er Þorvaldur Halldórsson.
Á seinni tónleikana fer einnig frá okkur eldra Gítarsamspil skólans sem spilar lag með suðrænni sveiflu, Tamacun, eftir Rodrigo Y. Gabriela. Á klassíska gítara eru Arnar Freyr Valsson, Díana Lind Monzon, Helena Rós Gilbert, Isaac Þór Derrick Jameson og Jóna Kristín Jónsdóttir. Á rafbassa er Ástþór Sindri Baldursson og á cajontrommu spilar Þórhallur Arnar Vilbergsson. Stjórnandi er Þorvaldur Már Guðmundsson
Allir eru velkomnir á báða tónleikana og aðgangur er auðvitað ókeypis.