Upphaf skólaársins 2017-2018

Formleg kennsla í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar hefst föstudaginn 25. ágúst (tónfræði og kjarni byrjar 4. sept). Það er engin formleg skólasetning en umsjónakennarar munu hafa samband við sína nemendur með öllum helstu upplýsingum um einka- og hóptíma. Á það bæði við um nýja og eldri nemendur.

Hægt er að sækja um skólavist fyrir nýja nemendur í gegnum vefinn með því að ýta á „Nýjar umsóknir“ hér að ofan.

Skólaslit 2017

Skólaslit verða í Stapa, Hljómahöllinni, þriðjudaginn 30. maí kl. 18.00. Það hefur ávallt verið fjölmenni við skólaslit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og nú sem endranær eru allir velkomnir. Á skólaslitunum verða að venju afhent prófskírteini og aðrar einkunnir, Íslandsbanki mun veita nemanda hin árlegu „Hvatningarverðlaun“ bankans og falleg tónlist verður flutt. Athöfnin tekur u.þ.b eina klukkustund. 

 

Tónleikar tileinkaðir Hafliða Hallgrímssyni

Laugardaginn13. maí mun Hljómborðsdeild skólans og Slagharpan standa fyrir tónleikum tileinkuðum Hafliða Hallgrímssyni tónskáldi og myndlistarmanni.
Tónleikarnir verða í Bíósal Duus-húsa, þar sem sýning á myndverkum Hafliða stendur nú yfir, og hefjast kl.14.00.
Flutt verða m.a. lög úr píanóbókinni „Scenes of Poland“ eftir Hafliða (Hallgrímsson).

Allir velkomnir.

Framhalds- og burtfarartónleikar

Guðbjörg Guðmundsdóttir, mezzosópran, heldur framhaldsprófs- og burtfarartónleika sína í Bergi, Hljómahöll, sunnudaginn 14. maí kl.16.00. Meðleikari á píanó er Helga Bryndís Magnúsdóttir.

Aðgangur er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.

 

Umsóknir fyrir nýja nemendur

Umsóknir nýrra nemenda um skólavist skólaárið 2017-2018 eru hér á vef skólans, undir hnappnum „Nýjar umsóknir“ og einnig á vef Reykjanesbæjar, reykjanesbaer.is undir hnappnum „Allar umsóknir“ – „Menntun og fræðsla“

Einnig er hægt að sækja um skriflega á umsóknareyðublöðum sem liggja frammi á skrifstofu skólans að Hjallavegi 2.

Nemendur sem nú þegar stunda nám við skólann eru svo minntir á að endurnýja umsókn sína fyrir næsta ár með því að skila inn umsókn sem umsjónakennari hefur afhent.

Ársprófavika

Vikuna 3. – 7. apríl er ársprófavika í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Þá taka nemendur próf sem þau hafa undirbúið síðustu mánuði. Í þeirri viku eru engir einkatímar en allir hóptímar eru á sínum stað.
Umsjónakennarar úthluta sínum nemendum prófatíma.

Stórtónleikar Forskóladeildar

Fimmtudaginn 16. mars stendur Forskóladeild Tónlistarskóla Reykjanesbæjar fyrir tvennum Stórtónleikum í Stapa, Hljómahöll. Á tónleikunum koma fram nemendur í Forskóla 2, sem eru allir nemendur 2. bekkjar grunnskólanna (7 ára börn) ásamt Lúðrasveit TR og einni af rokkhljómsveitum skólans.

Fyrri tónleikarnir eru kl.17 og á þeim koma fram forskólanemendur úr Akurskóla, Holtaskóla og Myllubakkaskóla.

Seinni tónleikarnir eru kl.18 og á þeim koma fram forskólanemendur úr Háaleitisskóla, Heiðarskóla og Njarðvíkurskóla.

Hvorir tónleikarnir um sig taka um 30 mínútur. Aðgangur er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.

Forskóladeildin hefur um árabil staðið fyrir tónleikahaldi einu sinni á vetri, ásamt lúðrasveitinni.  Á fyrstu tónleikunum voru það einungis um 40 forskólanemendur sem léku sem gestir með lúðrasveitinni á tónleikum í Kirkjulundi, en strax árið eftir var ákveðið að fara með tónleikana á milli allra grunnskólanna þar sem forskólinn væri í fyrirrúmi og hafa aðra hljómsveit með auk lúðrasveitarinnar, sem hafa ýmist verið rokkhljómsveitir, trommusveit eða strengjasveit. Þessu fyrirkomulagi var haldið þar til fyrir tveimur árum, að ákveðið var að fara ekki í grunnskólana með tónleikahaldið, heldur halda tvenna tónleika í Stapa. Almenn ánægja hefur verið með þetta nýja fyrirkomulag og forskólatónleikarnir verða því með sama sniði nú. Á tónleikunum koma fram alls um 290 börn og unglingar, þar af um 260 forskólanemendur.