Þemavikan í gangi

Nú er yfirstandandi hin árlega „Þemavika“ í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.
Skapast hefur um það hefð í skólanum að síðasta vika febrúarmánaðar sé þemavika og er febrúarmánuður ætíð nýttur m.a. til að vinna að undirbúningi hennar.
Að þessu sinni er þemað það að hefbundin kennsla er brotin upp með ýmsum hætti og hefur hugmyndavinna kennara og nemenda blómstrað sem aldrei fyrr við að skapa nýja fleti á náminu og við að sjá leiðir til gagnlegrar og skemmtilegrar tilbreytingar frá hinu daglega, hefðbundna tónlistarnámi.
Nokkrir tónleikar verða haldnir í vikunni, nemendur heimsækja leikskóla og fleiri stofnanir, nemendur taka þátt í námsstöðvum með kennurum sínum, mörg samspil milli deilda skólans hafa verið sett saman í tilefni þemavikunnar, fyrirlestar og masterklass-tímar verða haldnir og Geimsteinn- safnið og upptökuheimilið heimsótt, svo eitthvað sé nefnt.
Það myndast alltaf mikið líf og fjör í kring um þemavikuna og að þessu sinni er þar engin undantekning á.