Nótan – Uppskeruhátíð tónlistarskóla

Tónlistarskóli Reykjanesbæjar mun taka þátt í Nótunni-Uppskeruhátíð tónlistarskóla 2012.

Nótan – uppskeruhátíð tónlistarskóla, er samstarfsverkefni Félags tónlistarskólakennara, Félags íslenskra hljómlistarmanna og Samtaka tónlistarskólastjóra. Uppskeruhátíðin er hugsuð sem ný vídd í starfsemi tónlistarskóla og að hún sé í senn faglega hvetjandi og skemmtilegt innlegg í starfsemi þeirra. Nótan hefur verið haldin árlega síðan 2010 og þetta er því í þriðja sinn sem hátíðin er haldin. 

Tónlistarskólar landsins eru um níutíu talsins. Þar fer fram gríðarlega fjölbreytt og öflugt starf og með hátíðinni er kastljósinu beint að þessum samfélögum og tónlistarnemendum veittar viðurkenningar fyrir afrakstur vinnu þeirra. Markmiðið er að auka sýnileika og styrkja tengsl tónlistarskóla við umhverfi sitt.

Uppskeruhátíðin er þrískipt og skipulögð þannig að allir geti tekið þátt. Þátttakendur eru frá öllu landinu,  á öllum aldri og efnisskráin endurspeglar ólík viðfangsefni tónlistarnemenda á öllum stigum tónlistarnáms.

Þetta er í annað sinn sem Tónlistarskóli Reykjanesbæjar tekur þátt í Nótunni. Eins og segir hér að ofan er Nótan þrískipt. Fyrsti hlutinn felst í því að tónlistarskólar sem ætla að taka þátt, velja þau atriði sem þeir ætla að senda í annan hluta Nótunnar, sem eru svæðistónleikar. Skólarnir framkvæma þann þátt með mismunandi hætti, allt eftir því hvað sem hentar hverjum skóla. Á svæðistónleikunum velur valnefnd síðan þau atriði sem fara áfram í þriðja hlutann, sem eru lokatónleikar eða lokahátíð Nótunnar. 

Nánar hér:

Okkar svæði er Suðurnes, Suðurland og svæðið umhverfis höfuðborgina, það sem gjarnan er kallað „Kraginn“. Fyrsti hlutinn fer sem sagt fram innan skólanna sjálfra og  Tónlistarskóli Reykjanesbæjar mun að þessu sinni framkvæma þann hluta með Stór-tónleikum á sal Fjölbrautaskóla Suðurnesja, laugardaginn 25. febrúar, sem er hinn árlegi Dagur tónlistarskólanna.  Á þeim tónleikum mun valnefnd úr röðum kennara velja þau atriði sem skólinn sendir til þátttöku í öðrum hluta Nótunnar, sem eru svæðistónleikar, haldnir í Salnum í Kópavogi, sunnudaginn 11. mars. Á þeim tónleikum mun valnefnd á vegum Nótunnar velja atriði til þátttöku  í þriðja og síðasta hluta Nótunnar, sjálfum Lokatónleikum Nótunnar, sem verða haldnir í salnum Eldborg í  Hörpu, sunnudaginn 18. mars. 

Við viljum benda þeim sem vilja fræðast betur um Nótuna, á vefsíðu verkefnisins, www.notan.is  Síðan er áhugasömum bent á að fylgjast vel með framvindu mála hjá okkur og við vonumst til þess að Víkurfréttir fjalli um þetta skemmtilega verkefni. Þar munu birtast auglýsingar og einnig verður umjöllun hér á vefsíðu okkar.