Stórtónleikar Forskóladeildar

Fimmtudaginn 16. mars stendur Forskóladeild Tónlistarskóla Reykjanesbæjar fyrir tvennum Stórtónleikum í Stapa, Hljómahöll. Á tónleikunum koma fram nemendur í Forskóla 2, sem eru allir nemendur 2. bekkjar grunnskólanna (7 ára börn) ásamt Lúðrasveit TR og einni af rokkhljómsveitum skólans.

Fyrri tónleikarnir eru kl.17 og á þeim koma fram forskólanemendur úr Akurskóla, Holtaskóla og Myllubakkaskóla.

Seinni tónleikarnir eru kl.18 og á þeim koma fram forskólanemendur úr Háaleitisskóla, Heiðarskóla og Njarðvíkurskóla.

Hvorir tónleikarnir um sig taka um 30 mínútur. Aðgangur er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.

Forskóladeildin hefur um árabil staðið fyrir tónleikahaldi einu sinni á vetri, ásamt lúðrasveitinni.  Á fyrstu tónleikunum voru það einungis um 40 forskólanemendur sem léku sem gestir með lúðrasveitinni á tónleikum í Kirkjulundi, en strax árið eftir var ákveðið að fara með tónleikana á milli allra grunnskólanna þar sem forskólinn væri í fyrirrúmi og hafa aðra hljómsveit með auk lúðrasveitarinnar, sem hafa ýmist verið rokkhljómsveitir, trommusveit eða strengjasveit. Þessu fyrirkomulagi var haldið þar til fyrir tveimur árum, að ákveðið var að fara ekki í grunnskólana með tónleikahaldið, heldur halda tvenna tónleika í Stapa. Almenn ánægja hefur verið með þetta nýja fyrirkomulag og forskólatónleikarnir verða því með sama sniði nú. Á tónleikunum koma fram alls um 290 börn og unglingar, þar af um 260 forskólanemendur.

Söngnámskeið fyrir kórafólk

Tónlistarskóli Reykjanesbæjar stendur fyrir söngnámskeiði ætluðu fólki sem er í kórum á Suðurnesjum. Um er að ræða mjög praktískt námskeið fyrir fólk sem nú þegar er í kór en vill bæta sig raddlega og í nótnalestri. Námskeiðið er jafnframt ætlað þeim sem hafa enga reynslu af kórsöng en langar að byrja í kór.

Allar nánari upplýsingar um námskeiðið er að finna undir hnappinum „Söngnámskeið fyrir kórafólk“ hér að ofan!

Dagur Tónlistarskólanna

Tónlistarskólar landsins eru um 90 talsins. Í þeim fer fram gríðarlega fjölbreytt og öflugt starf og á hátíðisdegi þeirra, Degi tónlistarskólanna, efna skólarnir til ýmiskonar viðburða til að vekja athygli á starfsemi sinni. Markmiðið er að auka sýnileika og styrkja tengsl tónlistarskólanna við nærsamfélagið. Dagur tónlistarskólanna er haldinn annan laugardag í febrúar ár hvert, sem nú ber upp á 11. febrúar.

Dagskrá skólans fer fram í Hljómahöllinni og hefst í Stapa kl.10.30 með sérstakri dagskrá fyrir Forskóla 2 og aðstandendur þeirra. Forskólinn heldur þar stutta tónleika við undirleik kennarahljómsveitar og síðan fá forskólanemendur hljóðfærakynningar og prufutíma á hljóðfæri á efri hæð Tónlistarskólans til kl.11:45. Frá kl.11.00 -15.15 verður keppni í tónfræði milli tónfræðibekkja á barna og unglingastigi. Keppnin fer fram í Stapa. Inn á milli verða stuttir tónleikar, eða ör-tónleikar, í Bergi á klukkustundar fresti. Kaffihús Strengjadeildar verður starfrækt frá kl.10:45 – 15:45 en í boði verða veitingar á vægu verði. Ágóðinn rennur í ferðasjóð deildarinnar. Dagskrá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar á Degi tónlistarskólanna er hér fyrir neðan.

Barnakór

Við getum bætt við okkur nokkrum söngelskum börnum í Barnakór Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Kórinn er ætlaður börnum á aldrinum 9-12 ára (í 4. til 7. bekk) og er fyrir bæði nemendur tónlistarskólans og önnur börn á þessum aldri sem búsett eru í Reykjanesbæ. Nemendur í Barnakórnum þurfa ekki að vera nemendur tónlistarskólans að öðru leiti.

Þau kórbörn sem ekki eru nemendur tónlistarskólans þurfa að greiða kórgjald, sem er stillt mjög í hóf, eða 10.000kr. fyrir önnina. Almennir nemendur Tónlistarskólans greiða hins vegar ekki kórgjaldið.

Æfingar eru á þriðjudögum kl.17:00-18:00 og föstudögum kl.15:00-15:45 í Tónlistarskólanum, Hjallavegi 2. Umsækjendur verða teknir í raddprófun áður en inntaka í kórinn er staðfest. Athugið að aðeins er um nokkur pláss að ræða.

Innritun fer fram á skrifstofu skólans sem er opin mán., þri., fim. og fös. frá kl.13-17 og mið. frá kl.9-13. Umsóknarfrestur er til og með föstudeginum 13. janúar n.k.

Jólafrí

image001Síðastliðnar tvær vikur hafa farið fram tæplega 30 jólatónleikar og nemendur staðið sig frábærlega. Nú fara allir í kærkomið jólafrí frá og með morgundeginum 21. desember og fyrsti kennsludagur á nýju ári er miðvikudagurinn 4. janúar. Starfsfólk Tónlistarskólans óskar öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

 

Styrkur frá Lions í Njarðvík

lionsklubbur-gjo%cc%88fLionsklúbbur Njarðvíkur veitti í gær, sunnudaginn 27. nóvember, Tónlistarskóla Reykjanesbæjar myndarlegan styrk eins og klúbburinn hefur gert árlega, mörg undanfarin ár. Styrkurinn var að venju afhentur í Verslunarmiðstöðinni Krossmóa við sama tækifæri og jólahappdrætti Lionsklúbbs Njarð

víkur var sett í gang. Styrkurinn er kærkominn og verður varið til að styrkja tónleikahald nemenda skólans.

Tveir gítarnemendur skólans, Alexander Grybos og Luka Bosnjak, léku tvö jólalög við þetta tækifæri, ásamt kennara sínum.

Arnaldur Arnarson – gítartónleikar

2000Tónlistarskóli Reykjanesbæjar og Tónlistarfélag Reykjanesbæjar standa saman að tónleikum þar sem gítarleikarinn Arnaldur Arnarson leikur nokkrar af fegurstu perlum klassískrar gítartónlistar, m.a. verk eftir Johann Sebastian Bach, Heitor Villa-Lobos og Isaac Albéniz.

Tónleikarnir verða fimmtudaginn 10. nóvember kl.19.30 í tónleikasalnum Bergi í Hljómahöll. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir. Gengið verður inn um inngang Tónlistarskólans.

Arnaldur Arnarson fæddist í Reykjavík árið 1959 og hóf gítarnám í Svíþjóð tíu ára gamall. Hann sótti síðan gítarnám í Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar hjá Gunnari H. Jónssyni og lauk þar námi vorið 1977.  Hann stundaði framhaldsnám í Englandi og á Spáni, þar sem helstu kennarar hans voru Gordon Crosskey, John Williams, George Hadjinikos og José Tomás. Með sigri í 21. alþjóðlegu „Fernando Sor“ gítarkeppninni í Róm 1992 og með einleikstónleikum á Listahátíð í Reykjavík sama ár skipaði Arnaldur sér á bekk með fremstu tónlistarmönnum Íslands. Hann hefur margoft komið fram á Íslandi og haldið tónleika í Evrópu, Ástralíu, Bandaríkjunum og Suður Ameríku. Arnaldur hefur um árabil kennt gítarleik og verið aðstoðarskólastjóri við Luthier Tónlistar- og dansskólann í Barcelona en hyggst starfa meira á Íslandi næstu misseri. Hann hefur haldið námskeið í tónlistarflutningi víða um heim og setið í dómnefndum í alþjóðlegum tónlistarkeppnum.

Skemmtilegt samstarf hefur myndast milli Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og Arnaldar á síðustu mánuðum. Kennarar skólans fengu athyglisverðan fyrirlestur hjá Arnaldi í fræðslu- og kynnisferð sinni til Barcelona s.l. sumar og gítarnemendur skólans hafa í þessari Íslandsferð Arnaldar, fengið masterklass-kennslu hjá honum.