Ánægjuleg úrslit í Ísland Got Talent

Jóhanna Ruth Luna Josi, söngnemandi við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, sigraði með glæsibrag í Ísland Got Talent.
Í úrslitakeppninni söng Jóhanna lagið „Simply the best“ sem Tina Turner gerði frægt á sínum tíma.
Flutningur Jóhönnu á laginu var sérlega glæsilegur.
Tónlistarskóli Reykjanesbæjar óskar Jóhönnu Ruth innilega til hamingju með sigurinn.

ffff

Kvikmyndatónleikar Lúðrasveitanna

hausttonleikar_ludrasveitartr-1

Kvikmyndatónleikar Lúðrasveitar Tónlistarskóla Reykjanesbæjar verða haldnir í Stapa, Hljómahöllinni. miðvikudaginn 16. mars kl.18.00.  Á tónleikunum koma fram yngsta, mið og elsta lúðrasveit skólans.

Það kennir ýmissa grasa í efnisskrá tónleikanna, en þó einkennast þeir af kvikmyndatónlist sem er þema tónleikanna. Jafnframt verða sýnd myndskeið úr viðkomandi myndum. Sem dæmi, þá verður leikin tónlist úr kvikmyndunum Star Wars, Toy Story og Mamma Mia og úr þáttaröðinni Game Of Thrones.

Stjórnendur lúðrasveitanna eru Harpa Jóhannsdóttir, Þorvaldur Halldórsson og Sandra Rún Jónsdóttir. Búast má við skemmtilegri stemmningu og líflegum tónleikum.  Aðgangur er ókeypis og öllum heimill. Allir áhugasamir eru eindregið hvattir til að mæta og taka með sér gesti.

Stórtónleikar Forskóladeildar

Fimmtudaginn 3. mars stendur Forskóladeild Tónlistarskóla Reykjanesbæjar fyrir tvennum Stór-tónleikum í Stapa, Hljómahöll. Á tónleikunum koma fram nemendur í Forskóla 2, sem eru allir nemendur 2. bekkjar grunnskólanna (7 ára börn) ásamt mið Lúðrasveit T.R. og eldri Strengjasveit T.R.

Fyrri tónleikarnir eru kl.17 og á þeim koma fram forskólanemendur úr Akurskóla og Heiðarskóla.
Seinni tónleikarnir eru kl.18 og á þeim koma fram forskólanemendur úr Háaleitisskóla, Holtaskóla, Myllubakkaskóla og Njarðvíkurskóla.
Hvorir tónleikarnir um sig taka um 30 mínútur. Aðgangur er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.

Forskóladeildin hefur um árabil staðið fyrir tónleikahaldi einu sinni á vetri, ásamt lúðrasveitinni.  Á fyrstu tónleikunum voru það einungis um 40 forskólanemendur sem léku sem gestir með lúðrasveitinni á tónleikum í Kirkjulundi, en strax árið eftir var ákveðið að fara með tónleikana á milli allra grunnskólanna þar sem forskólinn væri í fyrirrúmi og hafa aðra hljómsveit með auk lúðrasveitarinnar, sem hafa ýmist verið rokkhljómsveitir, trommusveit eða strengjasveit. Þessu fyrirkomulagi var haldið þar til á síðasta ári, að ákveðið var að fara ekki í grunnskólana með tónleikahaldið, heldur halda tvenna tónleika í Stapa. Þeir heppnuðust sérlega vel og var almenn ánægja með þetta nýja fyrirkomulag. Forskólatónleikarnir verða því með sama sniði nú. Á tónleikunum koma fram alls um 255 börn og unglingar, þar af um 220 forskólanemendur.

Forskólatónleikar

Dagur Tónlistarskólanna

Tónlistarskólar landsins eru um 90 talsins. Í þeim fer fram gríðarlega fjölbreytt og öflugt starf og á hátíðisdegi þeirra, Degi tónlistarskólanna, efna skólarnir til ýmiskonar viðburða til að vekja athygli á starfsemi sinni. Markmiðið er að auka sýnileika og styrkja tengsl tónlistarskólanna við nærsamfélagið. Dagur tónlistarskólanna er haldinn annan laugardag í febrúar ár hvert, sem nú ber upp á 13. febrúar.

Dagskrá skólans fer fram í Hljómahöllinni og hefst í Rokksafninu kl.10.30 með sérstakri dagskrá fyrir Forskóla 2 og aðstandendur þeirra. Forskólinn heldur þar stutta tónleika við undirleik kennarahljómsveitar og síðan fá forskólanemendur  hljóðfærakynningar og prufutíma á hljóðfæri á efri hæð Tónlistarskólans til kl.12. Frá kl.13.00 -16.15 verður keppni í tónfræði milli tónfræðibekkja á barna og unglingastigi. Keppnin fer fram í Stapa. Inn á milli verða stuttir tónleikar, eða ör-tónleikar, í Bergi á hverjum heila tíma. Tónver skólans verður opið frá 13-16 og gefst gestum kostur á að skoða verið og forvitnast um starfsemi þess. Kaffihús Strengjadeildar verður starfrækt frá kl.11 – 16 en í boði verða veitingar á vægu verði. Ágóðinn rennur í ferðasjóð deildarinnar. Dagskrá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar á Degi tónlistarskólanna er hér fyrir neðan.

DagurTónlsk.16

Gamanóperan Rita í Reykjanesbæ

12622554_10153802936073168_1618370527407732269_o

Nemendur og kennarar úr óperudeild Söngskóla Sigurðar Demetz munu heimsækja Tónlistarskóla Reykjanesbæjar föstudaginn 29. janúar og flytja óperuna RITA eftir Gaetano Donizetti.

Sýningin verður í Bergi, Hljómahöll og hefst kl. 20.00. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir. Gengið skal inn um inngang Tónlistarskólans.

Rita er gamanópera í einum þætti og tekur eina klukkustund í flutningi. Donizetti lauk við óperuna 1841 en hún var ekki frumflutt fyrr en 7. mai 1860 á Opera-Comique í París. Hlutverkin eru þrjú, sópran, tenór og barítón.   

Söguþráður óperunnar er þessi í stuttu máli:
Rita rekur gistiheimili ásamt eiginmanni sínum Beppe. Hann er hálfgerður auli og hún veigrar sér ekki við að lúskra á honum ef sá gállinn er á henni.
Rita var áður gift  Gasparone sem hún heldur að hafi drukknað þegar skip hans sökk við Kanada. Allt gengur vel þar til Gasparone mætir á gistiheimilið til að ná í dánarvottorð Ritu, sem honum hafði verið sagt að hefði farist í eldsvoða í þorpinu.
Þegar þau uppgötva svo sannleikann, hefst leikurinn um hvor situr uppi með konuna, Beppe eða Gasparone.

Söngatriðin eru sungin á ítölsku en á milli atriða eru leikin atriði með texta á íslensku.

Við flygilinn er Aladar Rázc en leikstjórn er í höndum Bjarna Thors Kristinssonar.

Jólatónleikar Tónlistarskólans

Laugardaginn 5. desember hefst formlega jólatónleikavertíð Tónlistarskólans. Alls fara fram 25 tónleikar þar sem allir nemendur skólans koma fram, annaðhvort einir eða í samspili. Hægt er að nálgast allar upplýsingar um tónleikana í nýútgefnu fréttabréfi skólans, Tónvísir, og hér á heimasíðunni undir flipanum „Viðburðir“.

Allir eru velkomnir á alla þessa tónleika og auðvitað er aðgangseyrir enginn!

Burtfarartónleikar Díönu Lindar

DíanaLind

Díana Lind Monzon heldur burtfarartónleika sína á klassískan gítar núna á laugardaginn 28. nóvember kl.15:00 í Bergi.

Hægt er að fullyrða að tónleikarnir verða frábærir og efnisskráin spennandi. Allir eru velkomnir og ókeypis inn.

Lúðrasveitatónleikar 26. nóvember

Næstkomandi fimmtudag, 26. nóvember, heldur yngsta lúðrasveit skólans hausttónleika kl.18:00 í salnum Berg. Sveitin mun spila þau lög sem þau hafa unnið að í haust og er efnisskráin fjölbreytt, m.a. má heyra þjóðlög, popp og rokk.
Ásamt lúðrasveitinni kemur fram lítið klarinettusamspil nemenda Geirþrúðar klarinettukennara.

Enginn aðgangseyrir er á tónleikana og eru allir velkomnir!

Lúðrasveit A/B

Lúðrasveit A/B á tónleikum í febrúar 2015