Tónlistarskólar landsins eru um 90 talsins. Í þeim fer fram gríðarlega fjölbreytt og öflugt starf og á hátíðisdegi þeirra, Degi tónlistarskólanna, efna skólarnir til ýmiskonar viðburða til að vekja athygli á starfsemi sinni. Markmiðið er að auka sýnileika og styrkja tengsl tónlistarskólanna við nærsamfélagið. Dagur tónlistarskólanna er haldinn annan laugardag í febrúar ár hvert, sem nú ber upp á 13. febrúar.
Dagskrá skólans fer fram í Hljómahöllinni og hefst í Rokksafninu kl.10.30 með sérstakri dagskrá fyrir Forskóla 2 og aðstandendur þeirra. Forskólinn heldur þar stutta tónleika við undirleik kennarahljómsveitar og síðan fá forskólanemendur hljóðfærakynningar og prufutíma á hljóðfæri á efri hæð Tónlistarskólans til kl.12. Frá kl.13.00 -16.15 verður keppni í tónfræði milli tónfræðibekkja á barna og unglingastigi. Keppnin fer fram í Stapa. Inn á milli verða stuttir tónleikar, eða ör-tónleikar, í Bergi á hverjum heila tíma. Tónver skólans verður opið frá 13-16 og gefst gestum kostur á að skoða verið og forvitnast um starfsemi þess. Kaffihús Strengjadeildar verður starfrækt frá kl.11 – 16 en í boði verða veitingar á vægu verði. Ágóðinn rennur í ferðasjóð deildarinnar. Dagskrá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar á Degi tónlistarskólanna er hér fyrir neðan.