Upphaf kennslu skólaárið 2014-2015

Í lok dagsins í dag,  ættu allir nemendur að vera komnir með upplýsingar um alla tíma sem þeir eiga að sækja í tónlistarskólanum. Ef einhverjir hafa ekki fengið símtal eða tölvupóst frá hljóðfæra- /söngkennara sínum, vinsamlegast hafið samband við skólann.

Kennsla hefst á morgun, miðvikudaginn 27. ágúst. Kennsla í tónfræðagreinum (Kjarni o.fl.) hefst viku síðar, eða miðvikudaginn 3. september.

Tvennir framhaldsprófs- og burtfarartónleikar

Tveir nemendur við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar halda burtfarartónleika sína á næstu dögum. Laugardaginn 17. maí kl.16.00 mun Arnar Freyr Valsson, nemandi í klassískum gítarleik, halda burtfarartónleika í Bergi, hinum nýja og glæsilega tónleikasal í Hljómahöll. Arnar Freyr hóf nám í klassískum gítarleik við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar árið 2001, auk þess sem hann stundaði nám í rafgítarleik um árabil samhliða klassíska gítarnum. Arnar Freyr hefur á námstímanum við skólann, sótt námskeið og masterklassa, m.a. New York Guitar Seminar. Arnar Freyr hefur verið rafgítarleikari Léttsveitarinnar undanfarin ár og leikið með eldri Gítarsveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, auk þess að koma fram við ýmis tækifæri á vegum skólans sem einleikari á klassískan gítar. Kennari Arnars Freys á klassískan gítar, hefur frá upphafi verið Þorvaldur Már Guðmundsson.

Birta Rós Arnórsdóttir, nemandi í klassískum söng, mun halda burtfarartónleika, sömuleiðis í Bergi, miðvikudaginn 21. maí kl.20.00. Birta Rós hóf söngnám við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar árið 2008 undir handleiðslu Dagnýjar Þ. Jónsdóttur, sem hefur verið kennari hennar síðan. Þar áður stundaði hún píanónám við Tónlistarskólann í Garði. Birta Rós syngur með Kór Söngdeildar Tónlistarskóla Reykjanesbæjar auk þess sem hún hefur oft komið fram sem einsöngvari á vegum skólans við hin ýmsu tækifæri. Birta Rós er félagi í Kvennakór Suðurnesja og hefur komið fram sem einsöngvari með kórnum.

Strengjasveit frá Kristiansand og Strengjasveit TR

Strengjasveit skipuð nemendum frá Kristiansand í Noregi og Strengjasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, halda tónleika í Keflavíkurkirkju mánudaginn 12. maí kl.19.30. Mjög fjölbreytt efnisskrá, m.a. Konsert fyrir orgel og strengi eftir Hildigunni Rúnarsdóttur, þar sem einleikari á orgel er Martin Pearson sem er einn af þekktari orgelleikurum Noregs.

Strengjasveitin frá Kristiansand er skipuð úrvalsnemendum á aldrinum 12 – 18 ára, úr svokölluðum „Laugardagsskóla“ sem er samstarfsverkefni Listaskóla Kristiansand, Tónlistardeild Háskólans í Agder og Menningarhússins í Kilden, og heitir formlega „Strengjasveit Laugardagsskólans“.

Strengjasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar er skipuð þeim strengjanemendum skólans sem lengst eru komin í námi sínu. Sveitin heldur í tónleikaferð til Póllands 2. júní n.k. og þau verk sem strengjasveitin leikur á tónleikunum á mánudaginn eru hluti af þeirri efnisskrá sem sveitin mun leika úti.

Stjórnendur eru Unnur Pálsdóttir og Adam Grüchot.

Aðgangur ókeypis. Allir velkomnir.

Opnunarhátíð Hljómahallar

Kæru nemendur og fjölskyldur!

Verið velkomin á opnun Hljómahallar, sunnudaginn 6. apríl kl. 14 – 18.30

Forskóli 2 og Lúðrasveit Tónlistarskólans opna hátíðina og síðan leikur hljómsveitin Eldar.  Þá taka við tónleikar í Stapa, þar sem fram koma kórar og harmoníkuleikarar, en í Bergi verður tónleikaröð þar sem kennarar Tónlistarskólans koma fram.

Kennaratónleikar í Bergi á opnunarhátíð Hljómahallar:

Kl.  15.00 – 15.30

Dagný Þórunn Jónsdóttir, sópran

Helga Bryndís Magnúsdóttir, píanó

Berglind Stefánsdóttir, flauta

Jón Guðmundsson, flauta

Sigurgeir Agnarsson, selló

Kl.  16.00 – 16.30

Bylgja Dís Gunnarsdóttir, sópran

Jóhann Smári Sævarsson, bass-bariton

Helga Bryndís Magnúsdóttir, píanó

Kristján Karl Bragason, píanó

Hrafnhildur Marta Guðmundsdóttir, selló

 Baldvin Ingvar Tryggvason, klarínetta

Kl. 17.00 – 17.30

Þorvaldur Már Guðmundson, flamenco-gítar

George Claassen, cajon

Sunna Gunnlaugsdóttir, píanó

Birkir Freyr Matthíasson, trompet

Róbert Þórhallsson, bassi

Kl. 18.00 – 18.30

Áki Ásgeirsson, rafhljóð

Ingi Garðar Erlendsson, þránófónn

Tónleikar lengra kominna nemenda

Hinir árlegu Tónleikar lengra kominna nemenda verða í Bíósal Duushúsa, miðvikudaginn 12. mars og fimmtudaginn 13. mars. Báðir tónleikarnir hefjast kl. 19.30. Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.

Á tónleikum lengra kominna nemenda, koma fram þeir nemendur skólans sem komnir eru í framhaldsnám í tónlistarnámi sínu og einnig nokkrir þeirra sem komnir eru langt í miðnámi.

Tónlistarskóli Reykjanesbæjar í Hljómahöll

Af gefnu tilefni þá er rétt að geta þess hvar Hljómahöllin er og þar með Tónlistarskólinn.

Heimilisfangið er:

Tónlistarskóli Reykjanesbæjar, Hljómahöll, Hjallavegi 2, 260 Reykjanesbær

Fyrir þá sem eru ekki kunnugir í bænum, að þá er þetta stóra hvíta húsið skáhallt á móti Ytri-Njarðvíkurkirkju.

Dagur tónlistarskólanna

Hinn árlegi Dagur tónlistarskólanna verður haldinn laugardaginn 15. febrúar. Þetta er hátíðisdagur tónlistarskóla á Íslandi og er tilgangurinn með þessum degi sá að vekja athygli á því mikilvæga menntunar- og menningarstarfi sem fram fer í tónlistarskólum landsins.

Að þessu sinni taka tónlistarskólarnir á Suðurnesjum (TónSuð) sig saman á Degi tónlistarskólanna  og halda tónleika í Grindavíkurkirkju kl.14.00.

Efnisskráin er mjög fjölbreytt, bæði í einleik og samleik. M.a. koma fram sameiginleg lúðrasveit og sameiginleg slagverkssveit. Fyrir utan þátttöku okkar í þeim sveitum, leggjum við til tónleikanna harmonikusamspil, blokkflautusamspil og einleik á klassískan gítar.

Aðgangur er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.

Kennsluhlé vegna flutninga

Vegna flutnings skólans í nýtt húsnæði í Hljómahöll, verður gert hlé á allri kennslu og öllu samspili frá mánudeginum 20. janúar til og með föstudeginum 31. janúar.

Kennsla í Forskóla fellur aftur á móti ekki niður.

Kennsla hefst að nýju mánudaginn 3. febrúar n.k. Kennsla út í grunnskólunum verður með venjulegum hætti, en öll kennsla utan grunnskólanna verður þá komin í nýja húsið okkar í Hljómahöll, þ.m.t. kennsla þeirra nemenda sem hafa verið í hljóðfæratímum í grunnskólunum utan skólatíma.

Kennsla hafin og kennsluhlé

Nú er kennsla hafin að nýju eftir jólaleyfi í öllum námsgreinum.

Janúarmánuður verður með nokkuð breyttum hætti vegna flutninga skólans í nýtt húsnæði í Hljómahöllinni.

Við kennum núna til og með föstudeginum 17. janúar. Þá gerum við hlé á kennslu í hljóðfæragreinum, söng og öllum hliðargreinum, þ.e. tónfræðagreinum, Tónveri, hljómsveitastarfi og öðru samspili.

Kennsluhléið mun standa yfir í 2 vikur, þ.e. frá mánudeginum 20. til og með föstudeginum 31. janúar.

Við hefjum svo kennslu að nýju mánudaginn 3. febrúar og þá í hinu nýja og glæsilega húsnæði okkar í Hljómahöll.