Tvennir framhaldsprófs- og burtfarartónleikar

Tveir nemendur við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar halda burtfarartónleika sína á næstu dögum. Laugardaginn 17. maí kl.16.00 mun Arnar Freyr Valsson, nemandi í klassískum gítarleik, halda burtfarartónleika í Bergi, hinum nýja og glæsilega tónleikasal í Hljómahöll. Arnar Freyr hóf nám í klassískum gítarleik við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar árið 2001, auk þess sem hann stundaði nám í rafgítarleik um árabil samhliða klassíska gítarnum. Arnar Freyr hefur á námstímanum við skólann, sótt námskeið og masterklassa, m.a. New York Guitar Seminar. Arnar Freyr hefur verið rafgítarleikari Léttsveitarinnar undanfarin ár og leikið með eldri Gítarsveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, auk þess að koma fram við ýmis tækifæri á vegum skólans sem einleikari á klassískan gítar. Kennari Arnars Freys á klassískan gítar, hefur frá upphafi verið Þorvaldur Már Guðmundsson.

Birta Rós Arnórsdóttir, nemandi í klassískum söng, mun halda burtfarartónleika, sömuleiðis í Bergi, miðvikudaginn 21. maí kl.20.00. Birta Rós hóf söngnám við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar árið 2008 undir handleiðslu Dagnýjar Þ. Jónsdóttur, sem hefur verið kennari hennar síðan. Þar áður stundaði hún píanónám við Tónlistarskólann í Garði. Birta Rós syngur með Kór Söngdeildar Tónlistarskóla Reykjanesbæjar auk þess sem hún hefur oft komið fram sem einsöngvari á vegum skólans við hin ýmsu tækifæri. Birta Rós er félagi í Kvennakór Suðurnesja og hefur komið fram sem einsöngvari með kórnum.