Síðast liðinn sunnudag tók Tónlistarskóli Reykjanesbæjar þátt í svæðistónleikum „Nótunnar-uppskepuhátíðar tónlistarskóla“, í Salnum í Kópavogi. Alls voru haldnir þrennir tónleikar, þ.e. fyrir nemendur í grunnnámi, miðnámi og framhaldsnámi.
Skólinn sendi 3 atriði; Forskóla 2, alls 125 nemendur, ásamt mið-lúðrasveitinni, alls 25 nemendur, sem komu fram á grunnnáms-tónleikunum með lagið „Blokklingarnir“ eftir Michael Jón Clarke, blásara- og slagverkssveitina Tropic Thunder, sem flutti lagið „Astrocyte“, eftir Sævar Bachmann Kjartansson nemanda í tónsmíðum við skólann og Léttsveitina, sem flutti lagið „It Had Better Be Tonight“ eftir Henry Mancini. Bæði þessi atriði komu fram á miðnámstónleikunum. Allir hóparnir stóðu sig með mikilli prýði og voru Tónlistarskólanum og bænum okkar til mikils sóma.
Á svæðistónleikunum var starfandi valnefnd, sem hafði það hlutverk að velja 7 atriði alls, af þessum þremur tónleikum, til að koma fram á Lokahátíð Nótunnar sem fram fer í Eldborgarsal Hörpu, n.k. sunnudag, þann 18. mars. Valnefndin valdi Léttsveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar sem eitt af þessum 7 tónlistaratriðum. Áhugasömum er bent á vefsíðu Nótunnar, notan.is þar sem sjá má tímasetningar tónleikanna á Lokahátíðinni o.fl. áhugavert. Tónleikarnir sem Léttsveitin mun leika á í Eldborg, hefjast kl.14.00.
Auk þessa mun eldra gítarsamspil skólans leika, ásamt eldra gítarsamspili Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar, í anddyri Hörpu kl.11.00, þ.e. áður en lokahátíð Nótunnar hefst formlega.