Hvatningaverðlaun Íslandsbanka

Marta Alda Pitak

Marta Alda Pitak

Hvatningarverðlaun Íslandsbanka, til nemanda við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, fyrir skólaárið 2015-2016, voru afhend á skólaslitum skólans í maí 2015. Eru þau tíundu í röðinni og hefur þetta samstarf Tónlistarskólans og Íslandsbanka verið farsælt og einstaklega ánægjulegt.

Hvatningarverðlaunin að þessu sinni hlaut Marta Alda Pitak, nemandi í fiðluleik og píanóleik.
Marta hóf tónlistarnám 6 ára gömul í Forskóla Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og í fiðluleik, og það varð öllum fljótt ljóst að hún var gædd miklum tónlistarhæfileikum.
Marta sýndi strax mikinn áhuga á tónlistarnáminu og hefur alla tíð sinnt því einstaklega vel, bæði tónfræðagreinunum og hljóðfæranáminu. Dugnaður hennar og hæfileikar hafa orðið til þess að hún hefur náð miklum árangri og er komin mjög vel á veg í fiðlunáminu þrátt fyrir ungan aldur, en hún varð 14 ára í gær.
Marta lauk Miðprófi í fiðluleik vorið 2014, þá aðeins 13 ára gömul og er því komin á framhaldsstig í fiðluleik, sem er frekar óvenjulegt hjá nemanda á þessum aldri. Auk þess lauk hún Miðprófi í tónfræðagreinum og Grunnprófi í píanóleik á þessu vori.
Marta hefur leikið með strengjasveitum skólans frá því hún hafði getu til, auk þess sem hún hefur alltaf verið dugleg að taka þátt í ýmsum öðrum samleiksverkefnum. Marta hefur tekið þátt í alls konar viðburðum á vegum skólans og oft komið fram fyrir hans hönd út á við.

Að þessu sögðu er ljóst að Marta Alda er vel að því komin að hljóta Hvatningarverðlaun Íslandsbanka og vonandi verður sú viðurkenning henni hvati til áframhaldandi dugnaðar og þroska í tónlistarnáminu.

Marta Alda Pitak