Endurnýjun umsókna

Nú er komið að því að endurnýja umsóknir fyrir næsta skólaár, 2022-2023. Hér á vefsíðu skólans: tonlistarskoli.reykjanesbaer.is er hnappur sem heitir „Endurnýjun og nýjar umsóknir“ og þar fyllið þið út umsóknina. Efst á henni eru leiðbeiningar á grænu svæði einnig eiga nemendur/forráðamenn að hafa fengið póst með leiðbeiningum.

LOKADAGUR FYRIR ENDUNÝJUN UMSÓKNA ER FÖSTUDAGURINN 20. MAÍ N.K.

Hátíðartónleikar Hljómborðsdeildar Tónlistarskóla Reykjanesbæjar

Þriðjudaginn 26. apríl heldur Hljómborðsdeild Tónlistarskóla Rekjanesbæjar Hátíðartónleika í Stapa, Hljómahöll. Tónleikarnir hefjast kl.18 og gengið er inn um inngang Stapa. 

Vakin er athygli á því að tónleikunum verður ekki streymt.

Þetta er í fyrsta sinn sem deildin heldur tónleika með þessari yfirskrift, en stefnt er á að þeir verði árlegur viðburður í tónleikahaldi skólans.

Fram koma liðlega 30 nemendur deildarinnar, þ.e. píanó- og harmonikunemendur, sem annars telur um 100 nemendur,  og flytja úrval einleiks- og samleiksverka.

Allir eru velkomnir.

Tónleikaröð mið- og framhaldsnemenda

Dagana 28. mars til 1. apríl stendur skólinn fyrir sérstakri tónleikaröð þar sem fram koma nemendur í miðnámi og framhaldsnámi við skólann. Alls er um 6 tónleika að ræða og nánari upplýsingar eru hér fyrir neðan.

Allir tónleikarnir verða í Bergi, tónleikasal skólans og Hljómahallar og eru gestir velkomnir. Tónleikunum verður jafnframt streymt á YouTube rás skólans.  

Skólinn hefur um langt árabil staðið fyrir sérstökum tónleikum framhaldsnámsnemenda en að þessu sinni verða einnig tónleikar miðnámsnemenda. Umsagnaraðilar úr hópi kennara skólans munu leggja mat á frammistöðu nemenda. Gaman er að nefna það að Tónlistarskólinn hefur ekki áður haft frammistöðu nemenda á tónleikum sem sérstakan námsþátt og verður því áhugavert að sjá hvernig til tekst.

Tónleikar lengra kominna nemenda

28. mars kl. 19:30

29. mars kl. 19:30

Tónleikar miðnámsnemenda

30. mars kl. 17:00

30. mars kl. 18:00

31. mars kl. 17:00

1. apríl kl. 17:00

Stór-tónleikar Forskóladeildar

Fimmtudaginn 17. mars n.k., stendur Forskóladeild Tónlistarskóla Reykjanesbæjar fyrir tvennum Stór-tónleikum í Stapa, Hljómahöll. Á tónleikunum koma fram nemendur í Forskóla 2, sem eru allir nemendur 2. bekkjar grunnskólanna (7 ára börn) ásamt Lúðrasveit TR.

Fyrri tónleikarnir verða kl.17. Á þeim koma fram forskólanemendur úr Háaleitisskóla, Holtaskóla og Stapaskóla.

Seinni tónleikarnir verða kl.18. Á þeim koma fram forskólanemendur úr Akurskóla, Heiðarskóla, Myllubakkaskóla og Njarðvíkurskóla.

Tónleikarnir taka um 30 mínútur hvor. Aðgangur er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir. Tónleikunum verður jafnframt streymt á YouTube-rás skólans.

Forskóladeildin hefur um langt árabil staðið fyrir Stór-tónleikum einu sinni á vetri, ásamt lúðrasveitinni, sem er í hlutverki „undirleikara“ fyrir forskólanemendurna. Fyrstu árin fóru tónleikarnir fram í grunnskólunum og svo lokatónleikar haldnir í Íþróttamiðstöð Njarðvíkur, en fyrir nokkrum árum var ákveðið að færa tónleikana í hinn glæsilega tónleikasal, Stapa í Hljómahöll og halda þar tvenna tónleika. Mikil ánægja hefur verið með það fyrirkomulag enda öll umgjörð tónleikanna hin glæsilegasta, stórt svið og flott sviðslýsing. Á tónleikunum koma fram alls um 300 börn og unglingar, þar af um 260 forskólanemendur, sem flytja fjölbreytta og stórskemmtilega efnisskrá.  

Nemendatónleikar í mars og apríl

Fleiri nemendatónleikum hefur verið bætt við nú i mars og apríl. Við hlökkum mikið til að heyra í okkar frábæru nemendum og bjóðum gesti velkomna. Tónleikum verður þó áfram streymt og má nálgast link hér til hliðar.

Hefðbundnir nemendatónleikar í Bergi:

  • mán. 14. mars 17:30
  • þrið. 15. mars 17:30
  • fös. 18. mars  17:30
  • mán. 21. mars 17:30
  • miðv. 23. mars 17:30
  • fös. 8. apríl 17:30

Aðrir tónleikar

  • mán. 28. mars kl. 19:30 Tónleikar lengra kominna nemenda.
  • þrið. 29. mars kl. 19:30 Tónleikar lengra kominna nemenda.
  • miðv. 30. mars kl. 17 og kl. 18 Tónleikar miðnámsnemenda.
  • fimm. 31 mars kl. 17 og kl. 18 Tónleikar miðnámsnemenda.
  • fös. 1. apríl kl. 17 Tónleikar miðnámsnemenda.

Tónleikar 5. mars

N.k. laugardag, 5. mars kl.13:00 heldur MEGA-Hljómsveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar tónleika í Bergi, Tónlistarskólanum / Hljómahöll. Hljómsveitin var sett saman fyrir stuttu síðan og er afmarkað verkefni nemenda skólans, en hljómsveitina skipa alls 21 nemandi á strengjahljóðfæri, klassíska gítara og blásturshljóðfæri auk tveggja kennara. Annar þeirra, Þórunn Harðardóttir, fiðlu- og víólukennari, er stjórnandi hljómsveitarinnar.Þessi samsetning á hljómsveit er frekar óvenjuleg, en samhljómurinn er afar fallegur þar sem mætast skerpa strengja- og blásturshljóðfæranna og mýkt gítaranna.Á efnisskrá tónleikanna, sem verða um hálftíma langir, eru 3 þjóðlög í sérstökum útsetningum fyrir áðurnefnda hljómsveitarsamsetningu.Gestir eru velkomnir auk þess sem tónleikunum verður streymt á YouTube-rás skólans.Það er gaman að geta þess að MEGA-Hljómsveitin verður eitt af framlögum Tónlistarskóla Reykjanesbæjar á „Nótunni – uppskeruhátíð tónlistarskóla“ sem fram fer í Salnum, Kópavogi, laugardaginn 19. mars n.k.

Stoðtími í Kjarna

Nemendum stendur nú til boða að koma í stoðtíma á miðvikudögum kl. 18:15-19:00 til að vinna í tónfræðihluta Kjarnanámsins.

Jóhanna María kjarnakennari verður til staðar til að aðstoða nemendur eftir þörfum hvers og eins.
Stoðtíminn er val hvers nemanda og mæting er þar af leiðandi ekki skráð.

Ef einhver sem hyggst nýta sér tímana en kemst ekki kl.18:15 þá getur hann samt sem áður mætt, nýtt sér það sem eftir er af tímanum og fengið aðstoð hjá Jóhönnu Maríu.