Dagur tónlistarskólanna

Hinn árlegi Dagur tónlistarskólanna verður haldinn laugardaginn 15. febrúar. Þetta er hátíðisdagur tónlistarskóla á Íslandi og er tilgangurinn með þessum degi sá að vekja athygli á því mikilvæga menntunar- og menningarstarfi sem fram fer í tónlistarskólum landsins.

Að þessu sinni taka tónlistarskólarnir á Suðurnesjum (TónSuð) sig saman á Degi tónlistarskólanna  og halda tónleika í Grindavíkurkirkju kl.14.00.

Efnisskráin er mjög fjölbreytt, bæði í einleik og samleik. M.a. koma fram sameiginleg lúðrasveit og sameiginleg slagverkssveit. Fyrir utan þátttöku okkar í þeim sveitum, leggjum við til tónleikanna harmonikusamspil, blokkflautusamspil og einleik á klassískan gítar.

Aðgangur er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.

Kennsluhlé vegna flutninga

Vegna flutnings skólans í nýtt húsnæði í Hljómahöll, verður gert hlé á allri kennslu og öllu samspili frá mánudeginum 20. janúar til og með föstudeginum 31. janúar.

Kennsla í Forskóla fellur aftur á móti ekki niður.

Kennsla hefst að nýju mánudaginn 3. febrúar n.k. Kennsla út í grunnskólunum verður með venjulegum hætti, en öll kennsla utan grunnskólanna verður þá komin í nýja húsið okkar í Hljómahöll, þ.m.t. kennsla þeirra nemenda sem hafa verið í hljóðfæratímum í grunnskólunum utan skólatíma.

Kennsla hafin og kennsluhlé

Nú er kennsla hafin að nýju eftir jólaleyfi í öllum námsgreinum.

Janúarmánuður verður með nokkuð breyttum hætti vegna flutninga skólans í nýtt húsnæði í Hljómahöllinni.

Við kennum núna til og með föstudeginum 17. janúar. Þá gerum við hlé á kennslu í hljóðfæragreinum, söng og öllum hliðargreinum, þ.e. tónfræðagreinum, Tónveri, hljómsveitastarfi og öðru samspili.

Kennsluhléið mun standa yfir í 2 vikur, þ.e. frá mánudeginum 20. til og með föstudeginum 31. janúar.

Við hefjum svo kennslu að nýju mánudaginn 3. febrúar og þá í hinu nýja og glæsilega húsnæði okkar í Hljómahöll.

Kennsla hefst þriðjudaginn 27. ágúst

Nú standa yfir starfsdagar í Tónlistarskólanum, þar sem verið er að setja saman stundatöflur og klára annan undirbúning fyrir skólaárið sem er að hefjast.

Kennsla hefst í öllum námsgreinum, þriðjudaginn 27. ágúst.

Hljóðfærakennarar/söngkennarar munu hafa samband við nemendur/forráðamenn á næstu dögum, þ.e. fyrir 27. ágúst, og tilkynna tíma í þeim námsgreinum sem nemendur eiga að sækja.

Vortónleikar hljómsveita og skólaslit

Þriðjudagur 21. maí: 25 ára afmælistónleikar Léttsveitarinnar í Stapa kl.20.00. Fram kemur Léttsveitin eins og hún er skipuð núna og einnig Léttsveit fyrrum félaga í sveitinni.

Miðvikudagur 22. maí: Vortónleikar lúðrasveitarinnar kl. 19.30 í Stapa. Fram koma yngsta, mið og elsta sveit.

Fimmtudagur 23. maí: Skólaslit kl.18.00 í Stapa. Tónlistaratriði, afhending áfangaprófsskírteina og vitnisburðarblöð vetrarins afhent.

Kennaratónleikar

Nokkrir af kennurum skólans standa fyrir tónleikum í Bíósal, Duushúsum, laugardaginn 4. maí kl.14.00. 

Fram koma Anna Hugadóttir, víóluleikari, Berglind Stefánsdóttir, flautuleikari, Gréta Rún Snorradóttir, sellóleikari, Sigurjón Bergþór Daðason, klarinettleikari, Þorvaldur Már Guðmundsson, gítarleikari og Örvar Ingi Jóhannesson, píanóleikari. 

Á tónleikunum verður leikin fjölbreytt efnisskrá, bæði í einleik og samleik, með vel þekktum klassískum verkum í bland við skemmtileg smálög. 

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

 

 

Prófdagar hafnir í hljóðfæraleik og söng

Nú eru Ársprófin hafin fyrir nemendur í hljóðfæranám og söng. Prófin standa yfir frá og með deginum í, fimmtudaginn 18. apríl til og með miðvikudeginum 24. apríl. Allir nemendur eiga að vera komnir með prófdag, próftíma og staðsetningu.

Þessa daga fellur kennsla niður í hljóðfæradeildum og söngdeild. Í einstaka tilfellum gætu þó nemendur átt að mæta í tíma, en þá hefur kennari tekið það sérstaklega fram.

Athugið að kennsla í tónfræðagreinum, samspili og hljómsveitum fellur EKKI niður.

STÓR-tónleikar Lúðrasveitin (D-sveit) og Hljómsveitin Valdimar

Lúðrasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og Hljómsveitin Valdimar halda sannkallaða Stór-tónleika á kosningadaginn, laugardaginn 27. apríl n.k. kl.19.30 í Andrews-leikhúsi.  Flutt verða þekktustu lög Hljómsveitarinnar Valdimars í splunkunýjum útsetningum fyrir þessar tvær hljómsveitir.

Miðasala er hafin á midi.is og er miðaverð aðeins kr. 2000

Það má enginn láta þessa tónleika fram hjá sér fara. Athugið að Andrews leikhús tekur ekki nema um 490 manns. „Fyrstir koma –  fyrstir fá“.

Sigmar Marijón sigraði í harmonikukeppni S.Í.H.U.

Sigmar Marijón Friðriksson, harmonikunemandi við skólann, sigraði í harmonikukeppni S.Í.H.U. Sambands íslenskra harmonikuunnenda, sem haldin var í Garðabæ s.l. laugardag. Hann keppti í flokki 12 ára og yngri.

Þetta er keppni til Íslandsmeistara og Sigmar ber því titilinn „Íslandsmeistari í harmonikuleik 2013“,  í sínum aldursflokki.

Kennari Sigmars Marjóns er German Khlopin.

Tónlistarskólinn óskar Sigmari og German til hamingju með sigurinn.

Hægt er að sjá myndir frá keppninni á www.harmoniku-unnendur.com