Skólastarf frá 4. maí

Nú hefur það verði útfært af Sambandi íslenskra sveitarfélaga í samráði við sóttvarnaryfirvöld, hvernig starfsemi tónlistarskóla skuli háttað frá og með mánudeginum 4. maí. Það er skemmst frá því að segja að við getum hafið eðlilegt skólastarf að nýju þann dag, sem er mjög gleðileg niðurstaða.

Skólastarfið út skólaárið:
Hjá okkur verður það þannig að hljóðfærakennsla út í grunnskólunum verður með eðlilegum hætti, sem og forskólakennslan (1. og 2. bekkur).

Önnur hljóðfærakennsla, söngkennsla og meðleikur fer fram að nýju í tónlistarskólanum. Hins vegar gildir tilskipun um 2 metra fjarlægðarmörk þegar nemendur eldri en á grunnskólaaldri mæta í tíma.

Allar tónfræðagreinar færast aftur inn í tónlistarskólann og hljómsveita- og samspilsstarf verður með þeim hætti sem hæfir hverjum hópi þær fáu vikur sem eftir lifir af skólaárinu.

Stefnt er að því að halda alla vortónleika sem og tónleika nemenda á framhaldsstigi, en án tónleikagesta. Við vonumst til þess að hægt verði að streyma þeim öllum.

Skólaslit verða í Stapa, Hljómahöll, föstudaginn 29. maí kl.18.00, sem er skv. skóladagatali.  Viðstaddir verða einungis þeir sem koma að skólaslitunum með beinum hætti, þ.e. nemendur sem taka við áfangaprófsskírteinum sínum, nýr handhafi Hvatningarverðlauna Íslandsbanka, þeir nemendur sem munu flytja tónlist og svo við skólastjórnendur. Alls rétt innan við 50 manns sem verður dreift um salinn.
Skólaslitunum verður streymt.

Eftir 4. maí gilda ennþá almennar sóttvarnaráðstafanir um hreinlæti, sótthreinsun og notkun handspritts í öllum skólum. Mælst er til þess að sem fæstir fullorðnir komi í skólabyggingar og á það m.a. við um foreldra, iðnaðarmenn og almenna gesti. Hvatt er til sérstaks hreinlætis, sótthreinsunar og handþvotta.

Starfsdagur

Starfsfólk Tónlistarskóla Reykjanesbæjar óskar nemendum sínum og fjölskyldum gleðilegra páska. Þriðjudagurinn 14. apríl er starfsdagur og engin kennsla þann daginn. Kennarar munu hafa samband við sína nemendur varðandi kennslu næstu vikurnar sem helst með óbreyttu sniði á meðan samkomubann stendur yfir.

Fjarkennsla í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar

Frá og með morgundeginum, miðvikudeginum 25. mars, munum við hefja fjarkennslu í öllum tónfræðagreinum, sem og í öllum hljóðfæragreinum og söng.
Það fyrirkomulag verður viðhaft á meðan smithætta vegna Covid-19 veirunnar varir og takmarkanir á skólahaldi eru í gildi.
Kennsla í Tónveri verður áfram í skólanum.

Nú þegar hafa verið sendir út 2 tölvupóstar til nemenda/forráðamanna:
Annars vegar póstur vegna tónfræðakennslunnar til þeirra árganga sem stunda það nám. Í þeim pósti er útlistað hvernig nemendur ná sér í aðgang að fjarkennslunni.
Hins vegar póstur til allra hljóðfæra- og söngnemenda. Kennarar munu hafa samband við nemendur sína varðandi útfærslu kennslunnar.

Við vonumst til þess að nemendur verði virkir og duglegir í þessu nýja fyrirkomulagi og í góðu sambandi við kennara sína.

Starfsemi Tónlistarskólans í samkomubanni

N.k. mánudag, þann 16. mars, verður starfsdagur í öllum grunnskólum og leikskólum Reykjanesbæjar en ekki í Tónlistarskólanum. Öll hljóðfærakennsla sem vanalega er í húsnæði grunnskólanna færist í Tónlistarskólann í Hljómahöll og sömuleiðis falla allir hóptímar niður.

Í ljósi þeirra ákvarðana sem íslensk stjórnvöld hafa tekið vegna útbreiðslu COVID-19 veirunnar og þau kynntu nú fyrir helgi um samkomubann og samkomutakmarkanir næstu 4 vikurnar mun starf Tónlistarskólans eðlilega taka miklum breytingum.
Eftir stranga fundarsetu um helgina hefur komið tilskipum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga að öll hópkennsla falli niður í Tónlistarskólum/Skólahljómsveitum landsins meðan samkomubann er í gildi. Þetta þýðir að hljómsveita- og hópæfingar og tónfræðitímar falla niður í okkar skóla. Þetta á auðvitað líka við um alla þá tónleika sem voru á dagsskrá hjá okkur.

Varðandi einkakennslu (hljóðfæra- og söngtímar) þá mega þeir eingöngu fara fram í Tónlistarskólanum í Hljómahöll. Kennarar skólans hafa ekki heimild til þess að kenna einkatíma í grunnskólum bæjarins og fara næstu dagar í það að endurskipuleggja stundaskrá allra þegar fyrirkomulag grunnskólanna liggur fyrir. Kennarar munu vera í góðu sambandi við sína nemendur og forráðamenn.

Í öllum tilfellum munum við taka fullt mark á fyrirmælum stjórnvalda um dreifingu, þ.e. 2 metrar á milli fólks.

Aðgengi annarra en nemenda og starfsfólks inn í skólann er ekki lengur heimilt.
Þeir sem aka börnum sínum í tónlistarsólkann eða sækja, og hafa hingað til fylgt þeim inn, mega það ekki á meðan samkomubann varir. Við bendum forráðamönnum og öðrum að hafa samband í gegnum síma eða tölvupóst.

Svo hvetjum við nemendur eindregið til þess að þvo sér vel um hendur þegar inn er komið og nota handspritt, en það er í boði á salernum nemenda á báðum hæðum og í öllum kennslustofum. Minnum einnig á að ef nemendur eru veikir eiga þeir að halda sig heima.

Forskólatónleikar falla niður

Til forráðamanna nemenda í 2. bekk grunnskólanna / Forskóla 2.
Sú ákvörðun hefur verið tekin, að vegna útbreiðslu COVID-19 veirunnar falla forskólatónleikarnir niður, sem áttu að vera í dag 12. mars.
Þessi ákvörðun er tekin í samráði við bæjaryfirvöld Reykjanesbæjar.

 

Ekki verkfall í Tónlistarskólanum

Til að taka af allan vafa þá mun kennsla í Tónlistarskólanum ekki raskast ef til verkfalls kemur hjá félagsmönnum BRSB, hvorki í grunnskólunum né í Tónlistarskólanum. Þeir nemendur sem sækja sína hljóðfæratíma í grunnskólum bæjarsins mæta í sína tíma þó röskun sé á starfi þeirra.

COVID-19 og Tónlistarskólinn

Eins og ykkur öllum er eflaust kunnugt um hefur ríkislögreglustjóri lýst yfir hættustigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni og embætti landlæknis vegna kórónaveiru (COVID-19). Við leggjum nú sérstaka áherslu á hreinlæti, s.s. reglulegan handþvott og notkun handspritts í skólanum okkar með það fyrir augum að fyrirbyggja smithættu.

Á salerni skólans eru komnar leiðbeiningar um handþvott og dælur með sprittvökva. Einnig munu kennarar þrífa helstu snertifleti; nótnaborð á píanóum, nótnastadíf, hurðarhúna o. fl.) með sprittvökva milli kennslustunda. Mikilvægt er að heima sé rætt við börnin og þeim leiðbeint um handþvott, að hósta eða hnerra í olnbogabót en ekki lófa og annað sem fram hefur komið að gæti hægt á eða komið í veg fyrir smit.

Nemendur þurfa að koma með sín eigin skriffæri í Kjarnatíma og aðrar tónfræðagreinar og nemendur fá ekki lánaða trommukjuða eða hljóðfæri á hljómsveita-og samspilsæfingum.

Við bendum jafnframt á mikilvægar upplýsingar frá Embætti landlæknis um hvernig forðast eigi smit kórónuveirunnar Covid-19 og hvað eigi að gera ef grunur vaknar um smit.

Einnig er bent sérstaklega á lykilsímanúmerið 1700, sem allir eiga að hringja í ef áhyggjur af smiti eru til staðar. Á vefsíðum almannavarna og embættis landlæknis eru bestu upplýsingarnar um þessi mál.

Stjórnsýslan og heilbrigðisyfirvöld vinna nú kappsamlega gegn útbreiðslu veirunnar og viljum við leggja áherslu á að farið sé að tilmælum sóttvarnalæknis og annarra sérfræðinga hvað snertir hreinlæti, sýkingarvarnir, sóttkví og samstöðu.

Hér má finna upplýsingar sem ætlaðar eru fyrir börn og ungmenni: https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/greinar/grein/item39277/Grunnupplysingar-um-koronaveiruna-fyrir-born-og-ungmenni?fbclid=IwAR0dQ7LnkDMF5cX7-citHdP2_-xmrlENAP_IrOXt782uQQBO1wK4_qNwgbY

Hér er fréttatilkynning frá Embætti landlæknis vegna kórónaveirunnar þar sem m.a. koma fram leiðbeiningar vegna ferðalaga, https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/frettir/frett/item39279/frettatilkynning-vegna-koronaveirunnar-covid-19-28022020?fbclid=IwAR3X30IWGunhIuhhmtTIi1nmX4UIF7WZ4mLkx_AmoFkSFr9gBsqjay-ILfA

Skólahald fellur niður 14. febrúar

TILKYNNING: Bæjaryfirvöld/Fræðsluyfirvöld Reykjanesbæjar hafa tekið þá ákvörðun að kennsla í skólum Reykjanesbæjar (þar með talið í Tónlistarskólanum) falli niður á morgun, föstudaginn 14. febrúar, vegna slæmrar veðurspár.

The Musicschool will be closed due to bad weather friday the 14th of February!

Dagur Tónlistarskólanna

Við höldum okkar árlegu hljóðfærakynningu fyrir nemendur í Forskóla 2, sunnudaginn 9. febrúar, í tilefni af „Degi tónlistarskólanna“ sem er daginn áður.
Dagskráin hefst kl. 10.30 með tónleikum í Stapa þar sem forskólanemendurnir koma fram og flytja tvö lög við undirleik kennarahljómsveitar.
Síðan færa allir sig yfir í Tónlistarskólann þar sem kennarar og jafnvel nemendur verða í stofum og taka á móti forskólabörnunum, sem fá þar tækifæri til að prófa flest þau hljóðfæri sem kennt er á í skólanum, spjalla um hljóðfærin og forvitnast um allt sem tengist þeim. Þá gefst forráðamönnum forskólanemendanna gott tækifæri til að kynna sér námið.
Dagskránni lýkur kl.12.00
Lúðrasveit skólans verður með kaffihús og kökubasar í skólanum, frá kl.10.30 – 12.30. Ágóðinn rennur í ferðasjóð lúðraveitarinnar, en hún fer í sumar í tónleikaferð til Frakklands.