Það er mikill kraftur í starfsemi Tónlistarskólans og margt spennandi framundan.
Nú standa yfir foreldradagar og vonandi nýta forráðamenn nemenda sér þetta síðara tækifæri vetrarins vel eins og venjulega, til að hitta kennara barna sinna í formlegu viðtali.
N.k. laugardag, þann 9. febrúar, heldur Jelena Raschke, söngnemandi, framhaldsprófstónleika sína í Bíósal Duus-húsa. Tónleikarnir hefjast kl.15.00 og auðvitað eru allir hjartanlega velkomnir.
Eins og venjulega sér elsta lúðrasveit skólans, D sveitin, um framkvæmd Öskudagshátíðarinnar í Reykjanesbæ, en Öskudagurinn er miðvikudaginn 13. febrúar. Það verður nóg að snúast hjá þeim vaska hópi í því stóra verkefni.
Nú styttist óðum í fyrsta tónfund þessarar annar, en hann verður mánudaginn 18. febrúar kl.17.30 í Bíósal. Síðan kemur hver tónfundurinn á fætur öðrum með 1 – 2 vikna millibili. En síðustu þrír tónfundirnir verða nánast dag eftir dag í lok apríl, rétt fyrir ársprófin.
Svo verða Hátíðartónleikar á Degi tónlistarskólanna, laugardaginn 23. febrúar, í Stapa.
Forskólatónleikar í grunnskólunum verða 4. og 5. mars, en það prógramm endar með Stór-tónleikum í Íþróttamiðstöð Njarðvíkur að kvöldi 5. mars.
Stóra upplestararkeppnin verður 7. mars og þar verðum við að vanda með nokkur tónlistaratriði.
Tónleikar lengra kominna nemenda verða í Stapa að kvöldi 14. mars og hugsanlega verða tvennir tónleikar það kvöld.
Við verðum með í Nótunni- Uppskeruhátíð tónlistarskóla og svæðistónleikar hátíðarinnar fyrir Suðurnes, Suðurland og „Kragann“, verða á Selfossi 16. mars.
Fimmtudaginn 21. mars munu elsta Lúðrasveitin okkar og Hljómsveitin Valdimar leiða saman hesta sína með Stór-tónleikum í Andrews á Ásbrú þar sem flutt verða helstu og vinsælustu lög hljómsveitarinnar. Þessa dagana er verið á útsetja á fullu og æfingar hefjast fljótlega.
Sunnudaginn 14. apríl fer fram lokahátíð Nótunnar- Uppskeruhátíðar tónlistarskóla og verða þeir tónleikar í Eldborgarsal Hörpu.
Fyrir utan öll þessi verkefni eru próf, bæði áfangapróf og árspróf í hljóðfæraleik og söng og próf í tónfræðagreinum, þar með talið samræmt miðpróf. Svo verður að vanda mikill fjöldi vortónleika, bæði innan deilda og hjá hljómsveitum og samspilshópum.
Það er því nóg við að vera á þessari önn bæði hjá nemendum og kennurum og líflegt skólastarf í gangi.