Engin kennsla mánudag 27. nóvember

Næstkomandi mánudag 27.nóvember, verður engin kennsla við skólann, hvorki hóptímar né einkakennsla vegna vinnutímastyttingar kennara og stjórnenda skólans.
Skrifstofa skólans verður einnig lokuð.
Hins vegar er ekkert frí frá heimaæfingum og eru nemendur hvattir til æfa sig sérstaklega vel þennan dag.

Nemendur Tónlistarskóla Reykjanesbæjar á Strengjasveitamóti

Helgina 6. til 8. október 2023 var haldið strengjasveitamót á Akureyri þar sem strengjanemendur af öllu landinu komu saman. Í heildina voru þetta rúmlega 200 börn sem spiluðu á fiðlu, víólu, selló eða á kontrabassa. Skipt var í fjórar hljómsveitir eftir getu og mikið æft fyrir tónleika sem voru haldnir á sunnudeginum í Hofi. Hver hljómsveit spilaði 2-3 lög og að endingu spiluðu allir 200 þátttakendurnir sameiginlega lagið „Á Sprengisandi“. Að sjálfsögðu var fullt út úr dyrum og standandi lófaklapp fyrir þessum frábæru krökkum sem voru búin að leggja svo mikið á sig. 
Tónlistarskólinn í Reykjanesbæ lét sitt ekki eftir liggja og sendi frá sér sex frábæra nemendur sem stóðu sig að sjálfsögðu frábærlega. 

Flottu strengjanemendurnir okkar fyrir framan Hof á Akureyri eftir velheppnaða tónleika.
Frá vinstri: Anton, Elin, Fanney, Berglind, Sóley og Móey.

Vinnustytting og vetrarfrí

Fimmtudaginn 19. október er vinnustytting hjá okkur og því engin kennsla þann dag.

Föstudaginn 20. október og mánudaginn 23. október er vetrarfrí til samræmis við vetrarfrí í grunnskólum Reykjanesbæjar og því engin kennsla þessa daga.

Kvennaverkfall þriðjudaginn 24. október

Kæru nemendur og forráðamenn.

Á fjórða tug samtaka kvenna, hinsegin fólks og launafólks blása til heils dags kvennaverkfalls þriðjudaginn 24. október næstkomandi. Konur og kvár sem geta, munu þá leggja niður störf. Kvennaverkfallið er baráttudagur fyrir jafnrétti á vinnumarkaði og tekur launafólk þátt á eigin forsendum og samkvæmt eigin ákvörðun. Eftirtaldir starfsmenn Tónlistarskóla Reykjanesbæjar hafa tilkynnt að þeir ætli að taka þátt í kvennaverkfallinu.

Birta R. Sigurjónsdóttir, söngkennari rytmískrar deildar. Dagný Þ. Jónsdóttir, deildarstjóri, söngkennari. Geirþrúður F. Bogadóttir, deildarstjóri, forskólakennari, klarinettkennari. Guðríður E. Halldórsdóttir, píanókennari, meðleikari, Suzuki-píanókennari. Hjördís Einarsdóttir, forskólakennari. Jelena Raschke, forskólakennari, píanókennari, meðleikari. Jóhanna M. Kristinsdóttir, forskólakennari, tónfræðakennari (KJA). Karen J. Sturlaugsson, aðstoðarskólastjóri, deildarstjóri, trompetkennari, stjórnandi bjöllukórs. Mariia Ishchenko, píanókennari, meðleikari. Monika M. Malesa, ræstitæknir með meiru. Ragnheiður E. Magnúsdóttir, þverflautukennari, stjórnandi lúðrasveita. Renata Ivan, deildarstjóri, píanókennari, meðleikari. Sigrún G. Magnúsdóttir, píanókennari, blokkflautukennari, Suzuki-blokkflautukennari, meðleikari. Tone Solbakk, forskólakennari. Unnur Pálsdóttir, fiðlukennari, stjórnandi kammerhópa. Þórarna S. Brynjólfsdóttir, málmblásturskennari, stjórnandi lúðrasveita. Þórunn Harðardóttir, fiðlukennari, víólukennari, stjórnandi strengjasveita.

Nemendur Tónlistarskólans í Ungsveit Sinfó


Við í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar erum heldur betur stolt af nemendum okkar, fyrrverandi og núverandi, sem eru að taka þátt í Ungsveit Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Hvetjum alla til að mæta á tónleikana sem verða í Eldborgarsal Hörpu næstkomandi sunnudag 24. september kl. 17:00.

Fréttin hér fyrir neðan er úr nýjasta tölublaði Víkurfrétta.

Bjöllukórinn og Jólatónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands

Bjöllukórinn verður að venju þátttakandi í Jólatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands eins og undanfarin ár og við erum enn og aftur afar stolt af því. Um er að ræða ferna tónleika sem verða að venju í Eldborg í Hörpu, laugardaginn 17. desember og sunnudaginn 18. desember og báða dagana kl. 14 og 16. Að þessu sinni verður yngri Bjöllukórinn einnig með í þessu verkefni og hefur það hlutverk að spila frammi á gangi fyrir tónleikagesti eftir hverja tónleika. Eldri Bjöllukórinn spilar hins vegar fyrir tónleikagesti á undan hverjum tónleikum og fer svo á svið með Sinfóníunni. Við hvetjum alla til þess að ná sér í miða en þeir eru til sölu á vef hljómsveitarinnar á sinfonia.is/tonleikar-og-midasala