N.k. mánudag, þann 16. mars, verður starfsdagur í öllum grunnskólum og leikskólum Reykjanesbæjar en ekki í Tónlistarskólanum. Öll hljóðfærakennsla sem vanalega er í húsnæði grunnskólanna færist í Tónlistarskólann í Hljómahöll og sömuleiðis falla allir hóptímar niður.
Í ljósi þeirra ákvarðana sem íslensk stjórnvöld hafa tekið vegna útbreiðslu COVID-19 veirunnar og þau kynntu nú fyrir helgi um samkomubann og samkomutakmarkanir næstu 4 vikurnar mun starf Tónlistarskólans eðlilega taka miklum breytingum.
Eftir stranga fundarsetu um helgina hefur komið tilskipum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga að öll hópkennsla falli niður í Tónlistarskólum/Skólahljómsveitum landsins meðan samkomubann er í gildi. Þetta þýðir að hljómsveita- og hópæfingar og tónfræðitímar falla niður í okkar skóla. Þetta á auðvitað líka við um alla þá tónleika sem voru á dagsskrá hjá okkur.
Varðandi einkakennslu (hljóðfæra- og söngtímar) þá mega þeir eingöngu fara fram í Tónlistarskólanum í Hljómahöll. Kennarar skólans hafa ekki heimild til þess að kenna einkatíma í grunnskólum bæjarins og fara næstu dagar í það að endurskipuleggja stundaskrá allra þegar fyrirkomulag grunnskólanna liggur fyrir. Kennarar munu vera í góðu sambandi við sína nemendur og forráðamenn.
Í öllum tilfellum munum við taka fullt mark á fyrirmælum stjórnvalda um dreifingu, þ.e. 2 metrar á milli fólks.
Aðgengi annarra en nemenda og starfsfólks inn í skólann er ekki lengur heimilt.
Þeir sem aka börnum sínum í tónlistarsólkann eða sækja, og hafa hingað til fylgt þeim inn, mega það ekki á meðan samkomubann varir. Við bendum forráðamönnum og öðrum að hafa samband í gegnum síma eða tölvupóst.
Svo hvetjum við nemendur eindregið til þess að þvo sér vel um hendur þegar inn er komið og nota handspritt, en það er í boði á salernum nemenda á báðum hæðum og í öllum kennslustofum. Minnum einnig á að ef nemendur eru veikir eiga þeir að halda sig heima.