Skólinn og námsumhverfið

Húsnæði
Tónlistarskóli Reykjanesbæjar starfar á 8 stöðum í Reykjanesbæ. Aðalstöðvar skólans og skrifstofur eru í Hljómahöll við Hjallaveg 2. Aðrir staðir eru útibú í Akurskóla, Háaleitisskóla, Heiðarskóla, Holtaskóla, Myllubakkaskóla, Njarðvíkurskóla og Stapaskóla.

Í hverjum grunnskóla hefur Tónlistarskóli Reykjanesbæjar 1-3 kennslustofur til hljóðfærakennslu og auk þess 1 stóra stofu (tónmenntastofu) í hverjum þeirra fyrir forskólakennslu, eða alls 7 slíkar. Tónlistarskólinn hefur því um 20 stofur til umráða í grunnskólum Reykjanesbæjar.
Í húsnæði skólans í Hljómahöll eru alls 14 stofur til hljóðfærakennslu, 4 tónfræðistofur, 3 samspilsstofur, 1 stór hljómsveitasalur og kammersalurinn Berg.

Samstarf við grunnskólana
Forskólakennsla tónlistarskólans er skyldugrein í 1. og 2. bekk grunnskólanna og felldur inn í stundaskrá þeirra. Forskólanámið er nemendum að kostnaðarlausu, utan þess sem nemendur í 2. bekk þurfa að kaupa blokkflautu.

Hljóðfæranemendur í 3. – 6./7. bekk eiga kost á því að fá hljóðfæratíma sína í grunnskólunum á skólatíma, sem hluta af samfelldum skóladegi. Kennarar tónlistarskólans fara á milli kennslustaða eftir þörfum.

Foreldrar-heimaæfingar
Hvatning og stuðningur frá foreldrum skiptir miklu máli fyrir nemendur. Gott er að foreldrar ræði við börn sín um skipulagningu tímans, námsins og þau markmið sem nemandinn setur sér með náminu.

Nauðsynlegt er að líta á tónlistarnámið sem hvert annað nám í skóla sem felur í sér heimavinnu og stundvísi, enda starfa íslenskir tónlistarskólar samkvæmt aðalnámskrá tónlsitarskóla, sem var útgefin af menntamálaráðuneytinu árið 2000. Það er mikilvægt að finna æfingatíma á hverjum degi. Með reglulegum æfingum kemur árangur, eða eins og máltækið segir “Æfingin skapar meistarann”. Kennarinn getur ráðlagt nemendum og foreldrum varðandi heimaæfingar og skólinn hvetur til að eftir þeim ráleggingum sé leitað.

Gott samstarf heimilis og skóla er mikilvægt og eru foreldrar hvattir til að vera í góðu sambandi við kennara og stjórnendur skólans um hvað eina er varðar starfsemi hans.