Nemendur og kennarar úr óperudeild Söngskóla Sigurðar Demetz munu heimsækja Tónlistarskóla Reykjanesbæjar föstudaginn 29. janúar og flytja óperuna RITA eftir Gaetano Donizetti.
Sýningin verður í Bergi, Hljómahöll og hefst kl. 20.00. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir. Gengið skal inn um inngang Tónlistarskólans.
Rita er gamanópera í einum þætti og tekur eina klukkustund í flutningi. Donizetti lauk við óperuna 1841 en hún var ekki frumflutt fyrr en 7. mai 1860 á Opera-Comique í París. Hlutverkin eru þrjú, sópran, tenór og barítón.
Söguþráður óperunnar er þessi í stuttu máli:
Rita rekur gistiheimili ásamt eiginmanni sínum Beppe. Hann er hálfgerður auli og hún veigrar sér ekki við að lúskra á honum ef sá gállinn er á henni.
Rita var áður gift Gasparone sem hún heldur að hafi drukknað þegar skip hans sökk við Kanada. Allt gengur vel þar til Gasparone mætir á gistiheimilið til að ná í dánarvottorð Ritu, sem honum hafði verið sagt að hefði farist í eldsvoða í þorpinu.
Þegar þau uppgötva svo sannleikann, hefst leikurinn um hvor situr uppi með konuna, Beppe eða Gasparone.
Söngatriðin eru sungin á ítölsku en á milli atriða eru leikin atriði með texta á íslensku.
Við flygilinn er Aladar Rázc en leikstjórn er í höndum Bjarna Thors Kristinssonar.