Tónver

Í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar er vel útbúið tónver. Í tengslum við það er hljóðupptökuver, sem gerir aðstöðu skólans til vinnslu tónlistar mjög ásættanlega.

Í Tónveri Tónlistarskóla Reykjanesbæjar er áhersla lögð á að kynna nemendum á praktískan hátt, hvernig tækni og tónlist mætast. Kennd eru undirstöðuatriði tónvinnslu í tölvum, tónsmíðar, útsetningar, upptökutækni, hljóðblöndun og hljóðvinnsla.

Æskilegt er að nemendur hafi einhverja tónlistarmenntun eða reynslu af tónlist, en það er ekki skilyrði.

Nemendafjöldi hvers skólaárs í Tónveri er mjög takmarkaður og hafa nemendur sem fyrir eru í skólanum að öllu jöfnu forgang.
Nemendur þurfa að vera orðnir 16 ára.

Námstími er 2 vetur, 2 klst. á viku. Möguleiki er á 1 veturs framhaldsnámi.
Kennari er Ásgeir Aðalsteinsson.

Tónver 1

Fyrri hluti – Grunnnám í upptökum og hljóðvinnslu.
Nemendur fræðast um helstu gerðir hljóðnema og mismunandi notkunarmöguleika þeirra.
Nemendur kynnast fjölrása upptökum og notkun algengustu upptökuforritanna (Pro tools, Logic, Reaper).
Námið er að mestu verklegt og skiptast nemendur á að stjórna upptökum fyrir hvorn annan eða aðra nemendur skólans.

Seinni hluti – Eftirvinnsla og skapandi hljóðvinnsla.
Á seinni önninni er lögð áhersla á hljóðvinnslu (effectar, edit, mix og mastering).
Nemendur fá fræðslu um helstu gerðir hljóðeffekta og hvernig þeir nýtast í hljóðvinnslu.
Farið er yfir helstu atriði í hljóðblöndun (mix) og hljómjöfnun (mastering).
Einnig skoðum við hvernig er hægt að vinna með hljóðupptökur á skapandi hátt til að búa til nýja tónlist.

Tónver 2

Fyrri hluti – Raftónlist og sköpun.
Stiklað er á stóru í sögu raftónlistar. Nemendur fá að kynnast hliðrænum hljóðgervlum (analog synthesizers), trommuheilum og MIDI tækni.
Unnið er með Ableton Live til þess að semja, taka upp og vinna frumsamda tónlist.

Seinni hluti – Tónsmíðar, lagasmíðar og kvikmyndatónlist.
Á seinni önninni er lögð áhersla á að nemendur búi til frumsamda tónlist.
Farið er yfir notkun nótnaskriftarforrita og nemendum gefst færi á búa til lítið verk sem flutt verður af nemendum og kennurum skólans.
Einnig býðst nemendum að vinna að eigin lagasmíðum eða raftónlist.
Ef tími gefst til, fræðumst við um kvikmyndatónlist og nemendur fá að spreyta sig á að gera tónlist við þöglar myndir.