Sjókonur og snillingar

Tónlistarskóli Reykjanesbæjar er í spennandi samstarfsverkefni með hópi kvenna í tónlist sem kalla sig ReykjavíkBarokk.
Samstarfsverkefnið er tónlistarhátíð sem hefur fengið heitið Kona forntónlistarhátíð. Sjá Facebook viðburð hér

Hátíðinni er annars vegar ætlað að vekja athygli á konum fyrri alda í Evrópu sem stunduðu hljóðfæraleik og tónsmíðar en fengu litla sem enga athygli fyrir verk sín. Í þeim þætti hátíðarinnar leika nokkrir hljóðfæranemendur skólans á tónleikum í Bergi með ReykjavíkBarokk.
Hins vegar er hátíðinni ætlað að draga fram í dagsljósið kveðskap íslenskra kvenna fyrr á öldum, sem tengdust sjósókn og/eða tengdum störfum í landi. Í því sambandi verður fluttur kveðskapur eftir Látra-Björgu og Hallgrím Pétursson. Sá þáttur forntónlistarhátíðarinnar nefnist Sjókonur og snillingar og er glænýtt tónleikhús. Það er í þeim þætti, Sjókonum og snillingum, sem nemendur í Kjarna 1 munu taka þátt í og hafa verið að kynnast þessum kveðskap í Kjarnatímum undanfarið.

Um helgina, 30. – 31. okt, er æfingahelgi með ReykjavíkBarokk hópnum vegna þessa verkefnis. Sjá æfinga- og tónleikaáætlun hér. Helgina þar á eftir, 6. og 7. nóvember eru æfingar, tvennir tónleikar á vegum ReykjavíkBarokks-hópsins í Bergi og síðan frumsýning tónleikhússins Sjókonur og snillingar í Stapa sunnudaginn 7. nóvember. Sjá hér

ATH grímuskylda er fyrir alla gesti eldri en 15 ára.

Laugardagur 6. nóvember:
Kl. 13:00  Berg: Tónleikar
Ólöf Sigursveinsdóttir, nýr sellókennari við TR og sellóleikari í ReykjavíkBarokk, leikur Sellósvítu nr. 3 í C dúr eftir Johann Sebastian Bach.
Gengið inn um Tónlistarskólann.

Sunnudagur 7. nóvember:
Kl. 14:00  Berg: Tónleikar
ReykjavíkBarokk ásamt hljóðfæranemendum úr Tónlistarskólanum flytja tónlist eftir Maddalenu Sirmen og Elizabeth J. de la Guerre.
Gengið inn um Tónlistarskólann

Kl. 16:00  Stapi: Sjókonur og snillingar – Tónleikhús
*ATH þessum tónleikum verður einnig streymt á Youtube rás skólans
ReykjavíkBarokk, Leikfélagið Fljúgandi fiskar o.fl. listamenn, ásamt nemendum úr Kjarna 1, sem hafa mikilvægt hlutverk í sýningunni.
Gengið inn um aðalinngang Stapa.

Vetrarfrí

Mánudaginn 18. okt og þriðjudaginn 19. okt er vetrarfrí hjá okkur í Tónlistarskólanum og fellur öll kennsla niður. Vonandi náið þið að hlaða batteríin í fríinu og við hittumst hress miðvikudaginn 20. okt.

Tónleikar hefjast!

Í næstu viku fara fram fyrstu nemendatónleikar vetrarins, alls þrennir tónleikar þann 11., 12. og 14. október. Við erum mjög spennt að hrinda þessum tónleikum af stað því loksins megum við bjóða áhorfendur velkomna í húsið og njóta með okkur. Tónleikarnir eru allir í Bergi, byrja kl.17:30 og eru opnir öllum. Gestir passa að halda góðri fjarlægð við óskylda aðila og er grímunotkun valkvæð.

Hlökkum til að sjá ykkur í húsinu!