Almennar upplýsingar

Menntastefna Reykjanesbaejar 2016

Inngangur
Aðalnámskrá tónlistarskóla kveður svo á um að hver tónlistarskóli geri sína skólanámskrá til að skilgreina starfssvið sitt og markmið. Vefsíða Tónlistarskóla Reykjanesbæjar er upplýsingamiðill og jafnframt skólanámskrá skólans. Með vefsíðunni uppfyllir skólinn áðurnefnt ákvæði aðalnámskrárinnar og vill með því stuðla að árangursríku skólastarfi.
Vefsíðunni er ætlað að veita skilmerkilegan aðgang að upplýsingum um skólann og yfirsýn yfir starfsemi hans.

Hlutverk og markmið
Á bls. 9 í aðalnámskrá tónlistarskóla segir:

,,Gildi tónlistarnáms er margþætt. Markvisst tónlistaruppeldi miðar að auknum þroska einstaklinga, þjálfar huga og eflir tjáningarhæfni nemenda. Þess utan veitir tónlistarnám lífsfyllingu og hefur víðtækt félagslegt gildi”.

Þar segir ennfremur um hlutverk tónlistarskóla á bls. 10 og 11:

,,Hlutverk tónlistarskóla er að…
…stuðla að aukinni hæfni nemenda til að flytja, greina og skapa tónlist og til að hlusta á tónlist og njóta hennar,…
…búa nemendur undir að geta iðkað tónlist upp á eigin spýtur,…
…búa nemendur undir nám í tónlist og skyldum greinum á háskólastigi,…
…stuðla að auknu tónlistarlífi,…“

Tónlistarskóli Reykjanesbæjar gerir þessi almennu hlutverk að sínum. Hlutverk skólans er einnig að horfa með opnum huga á ýmsar nýjungar í námsefni, kennsluaðferðum og námsmöguleikum, með gæði náms og skólastarfs að leiðarljósi.