Hinn árlegi Dagur tónlistarskólanna verður haldinn laugardaginn 15. febrúar. Þetta er hátíðisdagur tónlistarskóla á Íslandi og er tilgangurinn með þessum degi sá að vekja athygli á því mikilvæga menntunar- og menningarstarfi sem fram fer í tónlistarskólum landsins.
Að þessu sinni taka tónlistarskólarnir á Suðurnesjum (TónSuð) sig saman á Degi tónlistarskólanna og halda tónleika í Grindavíkurkirkju kl.14.00.
Efnisskráin er mjög fjölbreytt, bæði í einleik og samleik. M.a. koma fram sameiginleg lúðrasveit og sameiginleg slagverkssveit. Fyrir utan þátttöku okkar í þeim sveitum, leggjum við til tónleikanna harmonikusamspil, blokkflautusamspil og einleik á klassískan gítar.
Aðgangur er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.