Dagur tónlistarskólanna laugardaginn 23. febrúar

Tónlistarskóli Reykjanesbæjar hefur alla tíð gert Degi tónlistarskólanna hátt undir höfði. Að þessu sinni ber Dag tónlistarskólanna upp á laugardaginn 23. febrúar og þann dag efnir skólinn til Hátíðartónleika í Stapa, Hljómahöllinni í Reykjanesbæ. Tónleikarnir hefjast kl.14.00.
Á tónleikunum koma fram nemendur á öllum námsstigum í einleik og einsöng, samspilshópum og hljómsveitum. M.a. koma fram yngsta lúðrasveit skólans, tvær gítarsveitir, strengjasveit, kammerstrengir, blokkflautusveit, rokkband yngri nemenda og frumflutt verður verk fyrir litla hljómsveit eftir Má Gunnarsson, nemanda við skólann.
Einleiks/einsöngsatriði verða sömuleiðis mjög fjölbreytt og m.a. mun Jelena Raschke sópran, koma fram á tónleikunum, en hún lauk framhaldsprófi og framhaldsprófstónleikum/burtfarartónleikum fyrr í þessum mánuði.
Aðgangur á tónleikana er að sjálfsögðu ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.

Margt og mikið framundan

Það er mikill kraftur í starfsemi Tónlistarskólans og margt spennandi framundan.

Nú standa yfir foreldradagar og vonandi nýta forráðamenn nemenda sér þetta síðara tækifæri vetrarins vel eins og venjulega,  til að hitta kennara barna sinna í formlegu viðtali.

N.k. laugardag, þann 9. febrúar, heldur Jelena Raschke, söngnemandi, framhaldsprófstónleika sína í Bíósal Duus-húsa. Tónleikarnir hefjast kl.15.00 og auðvitað eru allir hjartanlega velkomnir.

Eins og venjulega sér elsta lúðrasveit skólans, D sveitin, um framkvæmd Öskudagshátíðarinnar í Reykjanesbæ, en Öskudagurinn er miðvikudaginn 13. febrúar. Það verður nóg að snúast hjá þeim vaska hópi í því stóra verkefni.

Nú styttist óðum í fyrsta tónfund þessarar annar, en hann verður mánudaginn 18. febrúar kl.17.30 í Bíósal. Síðan  kemur hver tónfundurinn á fætur öðrum með 1 – 2 vikna millibili. En síðustu þrír tónfundirnir verða nánast dag eftir dag í lok apríl, rétt fyrir ársprófin.

Svo verða Hátíðartónleikar á Degi tónlistarskólanna, laugardaginn 23. febrúar, í Stapa.

Forskólatónleikar í grunnskólunum verða 4. og 5. mars, en það prógramm endar með Stór-tónleikum í Íþróttamiðstöð Njarðvíkur að kvöldi 5. mars.

Stóra upplestararkeppnin verður 7. mars og þar verðum við að vanda með nokkur tónlistaratriði.

Tónleikar lengra kominna nemenda verða í Stapa að kvöldi 14. mars og hugsanlega verða tvennir tónleikar það kvöld.

Við verðum með í Nótunni- Uppskeruhátíð tónlistarskóla og svæðistónleikar hátíðarinnar fyrir Suðurnes, Suðurland og „Kragann“, verða á Selfossi 16. mars.

Fimmtudaginn 21. mars munu elsta Lúðrasveitin okkar og Hljómsveitin Valdimar leiða saman hesta sína með Stór-tónleikum í Andrews á Ásbrú þar sem flutt verða helstu og vinsælustu lög hljómsveitarinnar.  Þessa dagana er verið á útsetja á fullu og æfingar hefjast fljótlega.

Sunnudaginn 14. apríl fer fram lokahátíð Nótunnar- Uppskeruhátíðar tónlistarskóla og verða þeir tónleikar í Eldborgarsal Hörpu.

Fyrir utan öll þessi verkefni eru próf, bæði áfangapróf og árspróf í hljóðfæraleik og söng og próf í tónfræðagreinum, þar með talið samræmt miðpróf. Svo verður að vanda mikill fjöldi vortónleika, bæði innan deilda og hjá hljómsveitum og samspilshópum.

Það er því nóg við að vera á þessari önn bæði hjá nemendum og kennurum og líflegt skólastarf í gangi.