Stórtónleikar Forskóla 2

Fimmtudaginn 16. mars blæs Forskóli 2 til stórtónleika og fær með sér í lið rokksveit og elstu lúðrasveit skólans. Tónleikarnir eru tvennir og eru í Stapa. 
Í Forskóla 2 eru allir nemendur 2. bekkjar í Reykjanesbæ, þau hafa æft af kappi vænlega efnisskrá í allan vetur undir handleiðslu kennara frá Tónlistarskólanum.
Fyrri tónleikarnir hefjast kl.17 og koma þar fram nemendur úr Háaleitisskóla, Heiðarskóla og Stapaskóla.
Seinni tónleikarnir hefjast kl.18 og koma þar fram nemendur úr Akurskóla, Holtaskóla, Myllubakkaskóla og Njarðvíkurskóla.
Tónleikarnir henta öllum aldurshópum og er aðgangseyrir enginn.

Sálumessa Verdi

Miðvikudaginn 22. febrúar fara fram stórtónleikar í Stapa. Óperufélagið Norðuróp og Tónlistarskóli Reykjanesbæjar flytja Requiem (Sálumessu) eftir Verdi. Hægt er að næla sér í miða á tix.is hér

Á tónleikunum verður verkið flutt af 35 manna sinfóníuhljómsveit, 60 manna kór einsöngsmenntaðra söngvara, langt kominna söngnemenda, tónlistarkennara, þjálfaðra áhugasöngvara og fjórum einsöngvurum. Stapi í Hljómahöll er glæsilegur tónleikasalur með stórt svið, um 400 sæti í sal og á svölum og hljómburður er sérlega góður.

Einsöngvarar eru:
Hallveig Rúnarsdóttir, sópran
Guja Sandholt, mezzosópran
Jóhann Friðgeir Valdimarsson, tenor
Keith Reed, bassi
Stjórnandi er Jóhann Smári Sævarsson og konsertmeistari Una Sveinbjarnardóttir.

Lúðrasveit Verkalýðsins og Tónlistarskóli Reykjanesbæjar

Hausttónleikar Lúðrasveitar Verkalýðsins í samvinnu með Tónlistarskóla Reykjanesbæjar

Lúðrasveit verkalýðsins blæs til árlegra hausttónleika helgina 26. – 27. nóvember næstkomandi í samstarfi við Tónlistarskólann. Á tónleikunum koma fram ungir einleikarar frá skólanum og flytja með sveitinni fjölbreytta og skemmtilega efnisskrá.
Fyrri tónleikarnir eru laugardaginn 26. nóv kl.14 í Ráðhúsi Reykjavíkur og þeir seinni sunnudaginn 27. nóv kl.16 í Stapa, Hljómahöll.
Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir!

Dagur íslenskrar tungu – tónleikar

Tónleikar hljómborðsdeildar og klassískrar söngdeildar

Degi íslenskrar tungu, fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, verður fagnað með tónleikum miðvikudaginn 16. nóvember kl. 17:00 í Bergi, Hljómahöll.

Á tónleikunum munu söngnemendur flytja lög við ljóð nokkurra helstu skálda þjóðarinnar.
Meðleikarar eru nemendur hljómborðsdeildar.

Þetta er fimmta árið sem hljómborðsdeild og söngdeild tónlistarskólans halda tónleika af þessu tilefni.

Allir hjartanlega velkomnir!

Kjarni og lúðrasveit

Í ljósi nýrra reglna um sóttvarnir í skólum, þá færum við kennslu í Kjarna úr fjarkennslu í staðkennslu frá og með næsta mánudegi, 31. janúar.
Tímasetningar kennslustunda verða þær sömu og var áður en fjarkennslan hófst.

Það sama á við um lúðrasveitaæfingar, þær hefjast að nýju frá og með mánudeginum 31. janúar.

Kennsla fellur niður 10. jan

Tekin hefur verið sú ákvörðun að fyrirhugaðar Covid-bólusetningar 6-11 ára barna í Reykjanesbæ (1.-6. bekkur) fari fram mánudaginn 10. janúar n.k. og bólusett verði í Tónlistarskólanum.
Hvíldaraðstaða/biðaðstaða að lokinni bólusetningu verður í Stapa, Hljómahöll.

Vegna þessa fellur öll kennsla í Tónlistarskólanum niður mánudaginn 10. janúar, bæði hljóðfærakennslan í grunnskólunum og öll kennsla hér í aðalstöðvum skólans að Hjallavegi 2.
Það á við um alla hljóðfæratíma og söngtíma, allar tónfræðagreinar (Kjarni og slíkar greinar) og allt samspil. Þetta á líka við um alla kvöldtíma.
Þegar bólusetningunum er lokið, verður skólinn þrifinn vel og vandlega og öll svæði og stofur sótthreinsaðar.

Kennsla verður því með eðlilegum hætti á þriðjudaginn.
Þótt kennsla Tónlistarskólans falli niður á mánudaginn, þá verður skrifstofa skólans opin og við skólastjórarnir til taks, en þá eingöngu í gegn um tölvupóst eða síma.
Aðrar gestakomur en þær sem snúa að bólusetningunum eru óheimilar.

Sóttvarnarreglur 2022

Kennsla hefst aftur samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 4. janúar.
Ef einhverjar breytingar verða á hóptímum munu kennarar láta sína nemendur vita, fylgist vel með skilaboðum þeirra.
Hér að neðan eru gildandi sóttvarnarreglur til og með miðvikudeginum 12. janúar.

Nemendur og aðrir
· Hámarksfjöldi nemenda í sama rými er 50
· Fjöldatakmörkun gildir ekki í almennu rými
· Blöndun nemenda/-hópa er heimil
· Nemendur fæddir 2005 og fyrr skulu bera andlitsgrímu, á göngum og í kennslustund
· Að lágmarki 1 meter skal vera á milli nemenda í kennslustofum og á hópæfingum/-tímum
· Aðstandendur Suzukinemenda sem fylgja þeim í náminu, skulu bera andlitsgrímu
· Nemendur spritti hendur áður en farið er í kennslustund
· Við hvetjum nemendur til að þvo sér oft og vel um hendur
· Séu nemendur með einkenni covid-smits, skulu þeir ekki mæta í tónlistarskólann
· Gestakomur eru ekki heimilar nema brýna nauðsyn beri til og þá gildir grímuskylda



Tónvísir, jólatónleikar og jólafrí

Í næstu viku hefst jólatónleikaröðin okkar og í ár verða þeir alls 32.
Tónleikarnir verða með svipuðu sniði og venjulega þ.e. að kennarar eða deildir halda sína tónleika hver fyrir sig. Vinsamlegast fylgist vel með tilkynningum sem koma frá kennurum varðandi tónleikana.
Hér að ofan í flipanum Jólatónleikar 2021 er hægt að nálgast dagskrá þessara tónleikaraðar.

Vegna samkomutakmarkana verða engir gestir, en þess í stað munum við streyma tónleikunum á YouTube-rásinni okkar hér líkt og við höfum gert undanfarið.

Fréttabréf okkar, Tónvísir, er einnig komið út og hvetjum við ykkur til að lesa það yfir hér

Jólafrí hefst mánudaginn 20. desember og stendur til 3. janúar.
Kennsla hefst í öllum greinum þriðjudaginn 4. janúar.

Ný sóttvarnarreglugerð

  • Allir fæddir 2005 og fyrr: Nálægðarmörk skulu vera 1 meter, ef ekki er hægt að viðhafa þau mörk, þá gildir grímuskylda.
  • Allir fæddir 2005 og fyrr, skulu bera grímu þegar gengið er í kennslustofu, þar til allir eru sestir/komnir á sinn stað.
  • Allir spritta hendur áður en gengið er inn í kennslustund.
  • Nemendur á grunnskólaaldri eru undanþegnir 1 metra fjarlægðarreglu og grímuskyldu, en við hvetjum þau, sem og alla okkar nemendur til fyllstu varkárni og persónulegra sóttvarna.

Varðandi smitgát, þá mega nemendur mæta í skóla, en þeir þurfa að gæta vel að persónulegum smitvörnum og forðast að vera í margmenni að óþörfu. Við getum hjálpað til með persónulegu smitvarnirnar. Þ.e. að passa uppá að nemendur þvoi sér um hendur og noti handsprittið sem er í boði hér um allan skólann.

Nemendur í smitgát eru beðnir um að setja á sig grímu þegar þeir koma inn í skólann og hafi hana á sér þegar þeir mæta inn í stofu í t.d. tónfræðagreinum og samspil/hljómsveit. Blásarar geta tekið niður grímu þegar kennslustund hefst.

Mjög mikilvægt að forráðamenn og nemendur láti kennara vita af því ef nemandi er í smitgát.

Tónleikar: Frá og með næstu tónleikum, sem verða þri. 16. nóv. kl.17.30, verða ekki gestir í sal. Tónleikum verður eingöngu streymt, a.m.k. til og með 8. desember, nema það verði gerðar breytingar í aðra átt fyrir þann tíma.

Gestir: Aðstandendur og aðrir gestir sem koma hér í skólann þurfa að bera grímu meðan þeir eru hér í húsi. Við óskum samt eftir því að utanaðkomandi komi ekki hér inn nema af brýnni nauðsyn.