Framhaldsprófstónleikar

Alexander Fryderyk Grybos, gítarnemandi við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, heldur framhaldsprófstónleika sína í Bergi, Hljómahöll, mánudaginn 23. maí kl.19:30. Tónleikarnir eru síðari hluti framhaldsprófs samkvæmt námskrá tónlistarskóla.
Alexander hóf nám í klassískum gítarleik við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar árið 2011 hjá Aleksöndru Pitak og hún hefur verið aðalkennari hans síðan. Alexander hóf svo nám í rytmískri deild skólans árið 2017 á rafmagnsgítar, sem hann hefur stundað meðfram náminu á klassíska gítarinn og hafa aðalkennarar hans þar verið Aron Örn Óskarsson og Kristinn Þór Óskarsson. Eftir að Alexander lauk miðprófi í klassískum gítarleik árið 2018, hefur hann stefnt ótrauður að framhaldsprófinu.
Alexander hefur í gegn um árin verið mjög virkur í starfsemi Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og margsinnis komið fram á tónleikum skólans, sem og fyrir hönd hans á margvíslegum öðrum viðburðum, bæði einn með gítarinn og í gítarsamspilum skólans. Alexander heldur úti, ásamt félögum sínum, tveimur hljómsveitum í popp- og rokkgeiranum, Demo og Karma Brigade.
Alexander hefur um árabil verið félagi í Bjöllukór Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og komið víða fram á þeim vettvangi, m.a. á jólatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands nokkur undanfarin ár. Alexander fer í sumar í tónleikaferð til Bandaríkjanna með Bjöllukórnum.
Endurnýjun umsókna
Nú er komið að því að endurnýja umsóknir fyrir næsta skólaár, 2022-2023. Hér á vefsíðu skólans: tonlistarskoli.reykjanesbaer.is er hnappur sem heitir „Endurnýjun og nýjar umsóknir“ og þar fyllið þið út umsóknina. Efst á henni eru leiðbeiningar á grænu svæði einnig eiga nemendur/forráðamenn að hafa fengið póst með leiðbeiningum.
LOKADAGUR FYRIR ENDUNÝJUN UMSÓKNA ER FÖSTUDAGURINN 20. MAÍ N.K.

Hátíðartónleikar Hljómborðsdeildar Tónlistarskóla Reykjanesbæjar
Þriðjudaginn 26. apríl heldur Hljómborðsdeild Tónlistarskóla Rekjanesbæjar Hátíðartónleika í Stapa, Hljómahöll. Tónleikarnir hefjast kl.18 og gengið er inn um inngang Stapa.
Vakin er athygli á því að tónleikunum verður ekki streymt.
Þetta er í fyrsta sinn sem deildin heldur tónleika með þessari yfirskrift, en stefnt er á að þeir verði árlegur viðburður í tónleikahaldi skólans.
Fram koma liðlega 30 nemendur deildarinnar, þ.e. píanó- og harmonikunemendur, sem annars telur um 100 nemendur, og flytja úrval einleiks- og samleiksverka.
Allir eru velkomnir.

Tónleikaröð mið- og framhaldsnemenda
Dagana 28. mars til 1. apríl stendur skólinn fyrir sérstakri tónleikaröð þar sem fram koma nemendur í miðnámi og framhaldsnámi við skólann. Alls er um 6 tónleika að ræða og nánari upplýsingar eru hér fyrir neðan.
Allir tónleikarnir verða í Bergi, tónleikasal skólans og Hljómahallar og eru gestir velkomnir. Tónleikunum verður jafnframt streymt á YouTube rás skólans.
Skólinn hefur um langt árabil staðið fyrir sérstökum tónleikum framhaldsnámsnemenda en að þessu sinni verða einnig tónleikar miðnámsnemenda. Umsagnaraðilar úr hópi kennara skólans munu leggja mat á frammistöðu nemenda. Gaman er að nefna það að Tónlistarskólinn hefur ekki áður haft frammistöðu nemenda á tónleikum sem sérstakan námsþátt og verður því áhugavert að sjá hvernig til tekst.
Tónleikar lengra kominna nemenda
28. mars kl. 19:30
29. mars kl. 19:30
Tónleikar miðnámsnemenda
30. mars kl. 17:00
30. mars kl. 18:00
31. mars kl. 17:00
1. apríl kl. 17:00
Nótan 2022
Uppskeruhátíð tónlistarskóla verður haldin helgina 19.-20. mars nk. á fimm mismunandi stöðum um landið. Tónlistarskóli Reyjanesbæjar tekur þátt í hátíðinni í Salnum í Kópavogi laugardaginn 19. mars.

Stór-tónleikar Forskóladeildar
Fimmtudaginn 17. mars n.k., stendur Forskóladeild Tónlistarskóla Reykjanesbæjar fyrir tvennum Stór-tónleikum í Stapa, Hljómahöll. Á tónleikunum koma fram nemendur í Forskóla 2, sem eru allir nemendur 2. bekkjar grunnskólanna (7 ára börn) ásamt Lúðrasveit TR.
Fyrri tónleikarnir verða kl.17. Á þeim koma fram forskólanemendur úr Háaleitisskóla, Holtaskóla og Stapaskóla.
Seinni tónleikarnir verða kl.18. Á þeim koma fram forskólanemendur úr Akurskóla, Heiðarskóla, Myllubakkaskóla og Njarðvíkurskóla.
Tónleikarnir taka um 30 mínútur hvor. Aðgangur er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir. Tónleikunum verður jafnframt streymt á YouTube-rás skólans.
Forskóladeildin hefur um langt árabil staðið fyrir Stór-tónleikum einu sinni á vetri, ásamt lúðrasveitinni, sem er í hlutverki „undirleikara“ fyrir forskólanemendurna. Fyrstu árin fóru tónleikarnir fram í grunnskólunum og svo lokatónleikar haldnir í Íþróttamiðstöð Njarðvíkur, en fyrir nokkrum árum var ákveðið að færa tónleikana í hinn glæsilega tónleikasal, Stapa í Hljómahöll og halda þar tvenna tónleika. Mikil ánægja hefur verið með það fyrirkomulag enda öll umgjörð tónleikanna hin glæsilegasta, stórt svið og flott sviðslýsing. Á tónleikunum koma fram alls um 300 börn og unglingar, þar af um 260 forskólanemendur, sem flytja fjölbreytta og stórskemmtilega efnisskrá.
Nemendatónleikar í mars og apríl
Fleiri nemendatónleikum hefur verið bætt við nú i mars og apríl. Við hlökkum mikið til að heyra í okkar frábæru nemendum og bjóðum gesti velkomna. Tónleikum verður þó áfram streymt og má nálgast link hér til hliðar.
Hefðbundnir nemendatónleikar í Bergi:
- mán. 14. mars 17:30
- þrið. 15. mars 17:30
- fös. 18. mars 17:30
- mán. 21. mars 17:30
- miðv. 23. mars 17:30
- fös. 8. apríl 17:30
Aðrir tónleikar
- mán. 28. mars kl. 19:30 Tónleikar lengra kominna nemenda.
- þrið. 29. mars kl. 19:30 Tónleikar lengra kominna nemenda.
- miðv. 30. mars kl. 17 og kl. 18 Tónleikar miðnámsnemenda.
- fimm. 31 mars kl. 17 og kl. 18 Tónleikar miðnámsnemenda.
- fös. 1. apríl kl. 17 Tónleikar miðnámsnemenda.
Tónleikar 5. mars
N.k. laugardag, 5. mars kl.13:00 heldur MEGA-Hljómsveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar tónleika í Bergi, Tónlistarskólanum / Hljómahöll. Hljómsveitin var sett saman fyrir stuttu síðan og er afmarkað verkefni nemenda skólans, en hljómsveitina skipa alls 21 nemandi á strengjahljóðfæri, klassíska gítara og blásturshljóðfæri auk tveggja kennara. Annar þeirra, Þórunn Harðardóttir, fiðlu- og víólukennari, er stjórnandi hljómsveitarinnar.Þessi samsetning á hljómsveit er frekar óvenjuleg, en samhljómurinn er afar fallegur þar sem mætast skerpa strengja- og blásturshljóðfæranna og mýkt gítaranna.Á efnisskrá tónleikanna, sem verða um hálftíma langir, eru 3 þjóðlög í sérstökum útsetningum fyrir áðurnefnda hljómsveitarsamsetningu.Gestir eru velkomnir auk þess sem tónleikunum verður streymt á YouTube-rás skólans.Það er gaman að geta þess að MEGA-Hljómsveitin verður eitt af framlögum Tónlistarskóla Reykjanesbæjar á „Nótunni – uppskeruhátíð tónlistarskóla“ sem fram fer í Salnum, Kópavogi, laugardaginn 19. mars n.k.
Öskudagurinn n.k. miðvikudag 2. mars
N.k. miðvikudag, 2. mars sem er Öskudagur, er starfsdagur hér í Tónlistarskólanum og því engin kennsla þann dag. Skrifstofan er hins vegar opin til kl.14:00.