Tónlistarskólinn á fullu!

Helgina 9. til 10. mars var mikið um að vera hjá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.

Hér sést hinn glæsilegi hópur Forskóla 2 ásamt hljómsveit

Á laugardeginum var margt um manninn í skólanum þar sem þrjú stór verkefni voru í gangi í einu.
Forskóli 2, sem eru sjö ára börn úr grunnskólum Reykjanesbæjar, héldu stutta tónleika kl.10:30 í Rokksafni Íslands við undirleik hljómsveitar sem skipuð var kennurum skólans, fyrrum nemendum sem komnir eru á háskólastig í tónlist og núverandi nemendum sem eru langt komnir í tónlistarnámi sínu. Að tónleikunum loknum fóru forskólanemendurnir yfir í Tónlistarskólann þar sem þeir fengu verklega kynningu á þeim hljóðfærum sem eru í boði fyrir unga nemendur að læra á. Það voru meðlimir hljómsveitarinnar sem sáu um hljóðfærakynninguna sem er alltaf mikil upplifun forskólanemendurna. Þessi dagskrá stóð til kl. 12:15.

Á sama tíma og fram til kl.13:00 var sérstakur æfingadagur hjá Lúðrasveit B þar sem lögð var áhersla á tónlist fyrir þau verkefni sem framundan voru hjá sveitinni á þessari önn, m.a. Stórtónleikar með Forskóla 2 í Stapa sem haldnir þann 21. mars n.k.

Peter Maté leiðbeinir heppnum píanónemanda í Bergi

Þriðja verkefnið sem var í gangi í Tónlistarskólanum á þessum fyrri hluta laugardagsins var Masterklass á vegum píanódeildar skólans fyrir lengst komnu nemendur deildarinnar. Það var enginn annar en Peter Maté píanóleikari sem hlustaði á sjö nemendur flytja verk eftir F. Chopin, E. Grieg, J.S. Bach og W.A. Mozart, og leiðbeindi hverjum og einum nemanda að loknum flutningi og gaf góð ráð. Kennarar píanódeildarinnar voru sömuleiðis viðstaddir því alltaf er gott að heyra og sjá aðra vinna með nemendum.

Fjórða verkefni dagsins var þátttaka gítarsveita skólans í hinum árlega “Gítarsveitadegi”. Gítarsveitadagurinn er árlegt samstarfsverkefni Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og nokkurra tónlistarskóla á höfuðborgarsvæðinu og að þessu sinni var dagurinn haldinn í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar, með tónleikum í lok dags í Víðistaðakirkju. Að þessu sinni var fenginn erlendur gestakennari, Matthew McAllister, til að vinna með gítarsveitunum ásamt gítarkennurum viðkomandi tónlistarskóla og tónleikarnir í Viðistaðakirkju voru að venju glæsilegir.

Frá lokatónleikum Gítarsveitadagsins sem haldnir voru að þessu sinni í Víðistaðakirkju í Hafnarfirði

Á sunnudeginum tók svo Léttsveit Tónlistarskólans þátt í “Stórsveitamaraþoni” sem Stórsveit Reykjavíkur stendur fyrir á hverju ári. Maraþonið fór fram í salnum Flóa í Hörpu og var gerður góður rómur að leik Léttsveitarinnar sem flutti þar fjögur hressileg lög í glæsilegum stórsveitaútsetningum.

Við í Tónlistarskólanum erum heldur betur stolt og ánægð með hversu duglegir nemendur okkar eru, hvort heldur er að spila fyrir okkar fólk og styrkja böndin innan skólans, læra nýja hluti og reyna að bæta okkur, taka þátt í samstarfsverkefnum við nágranna og vini eða koma fram utan skólans í stórum tónleikahúsum. Þó það séu ekki allar helgar svona rosalega viðburðarríkar má samt með sanni segja að það sé nóg um að vera hjá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.