Frá barni til barns – styrktartónleikar

Píanó-, harmoníku- og hljómborðsnemendur Tónlistarskóla Reykjanesbæjar efna til styrktartónleika fyrir langveik börn í Reykjanesbæ, laugardaginn 14. apríl.  Röð 6 stuttra tónleika hefst kl. 11 sem verða á hálfa og heila tímanum til kl. 14. Tónleikarnir fara fram í Bergi , Hljómahöll. Hægt er að tryggja sér miða á tónleikana með frjálsum framlögum inn á reikning no. 0142-15-010366 kt. 3006584829, en einnig verða seldir miðar við innganginn í Berg.

Listmarkaður áhuga- og atvinnulistamanna verður opinn meðan á tónleikaröðinni stendur og rennur allur ágóði af sölu listaverka hvort sem þau eru í orði, tónum eða litum, óskert til málefnisins sem stuðningur hinna fullorðnu við framtak barnanna.

Að auki verður kaffihús á listmarkaðnum þar sem flutt verður tónlist af nemendum. Allur ágóði af sölu veitinga rennur sömuleiðis óskertur til málefnisins.

Söfnun beinna styrkja er hafin og hægt er að leggja framlag til langveikra barna í Reykjanesbæ inn á ofangreint reikningnúmer. Reikningurinn verður opinn til 14. maí 2018.

Skorað er á alla áhugalistamenn í Reykjanesbæ að skoða hvort þeir eigi í fórum sínum frumsamið hugverk, handverk, myndverk eða hvað annað af þessum toga sem viðkomandi vill gefa á listmarkaðinn til stuðnings þessa mikilvæga málefnis.

Slík framlög má tilkynna í síma Tónlistarskólans 420 1400 frá og með 4.apríl.

Sýnum samhug okkar í verki !